Laxeldi Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Laxeldi er vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum og mikilvæg enda fjölmargir sem hafa viðurværi sitt af henni.
Laxeldi Sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. Laxeldi er vaxandi atvinnugrein á Vestfjörðum og mikilvæg enda fjölmargir sem hafa viðurværi sitt af henni. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hörður Vilberg hordur@mbl.is „Niðurstaðan kemur ekki mjög mikið á óvart. Það er að koma þarna fram blöndun á milli íslenska laxins og þess norska.“ Þetta segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknarstofnunar, um nýja rannsókn stofnunarinnar um erfðamengun í villtum íslenskum laxi vegna norsks eldislax sem hefur sloppið úr sjókvíum. Í umfjöllun Morgunblaðsins hefur komið fram að erfðablöndun hafi greinst í íslenskum ám og sé yfir áhættumati.

Hörður Vilberg

hordur@mbl.is

„Niðurstaðan kemur ekki mjög mikið á óvart. Það er að koma þarna fram blöndun á milli íslenska laxins og þess norska.“ Þetta segir Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatns- og eldissviðs Hafrannsóknarstofnunar, um nýja rannsókn stofnunarinnar um erfðamengun í villtum íslenskum laxi vegna norsks eldislax sem hefur sloppið úr sjókvíum. Í umfjöllun Morgunblaðsins hefur komið fram að erfðablöndun hafi greinst í íslenskum ám og sé yfir áhættumati.

Innan raða fiskeldisfyrirtækja eru menn að meta niðurtöður skýrslunnar þessa dagana og hyggjast svara henni efnislega á næstunni en ekki að svo komnu máli. Morgunblaðið heyrði í framkvæmdastjórum fiskeldisfyrirtækja og talsmönnum þeirra víða um landið en margir þeirra furða sig á þeim ályktunum sem þar eru dregnar og telja t.d. að litlar ár hafi einkum verið rannsakaðar með veikum villtum laxastofnum þar sem auðvelt sé fyrir eldislaxa að hasla sér völl. Skýrslan dragi því ekki upp raunsanna mynd af stöðu mála.

Hægt að læra af reynslunni

Guðni segir að við rannsóknina hafi sjónum aðallega verið beint að laxveiðiám og svæðum sem voru í nágrenni sjókvíaeldis. „Það sem er merkilegt í þessu er að munurinn á milli þessara stofna er það mikill að við getum greint hann.“ Hann segir stöðuna ólíka því þegar laxeldi var hafið í Noregi þegar náttúrulegur lax var sóttur í árnar til að ala í kvíum í fjörðum landsins. „Þar var munurinn á eldisfiskinum og villta fiskinum svo lítill að menn greindu hann ekki lengi vel.“ Staðan er önnur hér.

„Við njótum þess líka að það eru tekin sýni af foreldrafiskum sem eru notaðir í eldi í kvíum þannig að það er hægt að gera eins konar faðernispróf á fiskunum sem sleppa. Það eru þær niðurstöður sem við erum að framkalla. Það er reyndar þannig að frá því að fiskur sleppur og þar til hann er kynþroska, búinn að hrygna og þangað til við getum veitt seiði og tekið sýni af og það er búið að greina, þá er það dálítið langur tími. Við erum dálítið á eftir ef við getum horft þannig á það. Það er út af því hvernig lífsferillinn er. Við erum alltaf að horfa aftur fyrir okkur.“

Aðferðir til að greina eldislax í villtri íslenskri náttúru hafa orðið nákvæmari með árunum með tækniframþróun. Spurður hvort um hættuástand sé að ræða segir Guðni að rannsókn Hafrannsóknarstofnunar ætti að vera hvatning til þess að fylgjast áfram mjög vel með stöðu mála og að gera allt til þess að vera á varðbergi til að koma í veg fyrir að fiskar sleppi. „Auðvitað vill enginn að fiskar sleppi út kvíum. En þetta kannski hvetur menn enn frekar til þess að hugsa út í það sem getur gerst. Fylgjast verður vel með ástandinu og meta hvort þeim mörkum verði náð að þróunin verði ekki afturkræf.“

Guðni segir að Ísland sé komið skemur á veg en aðrar fiskeldisþjóðir. „Við höfum þá möguleika til þess að byggja á reynslu annarra, bæði góðri og slæmri og vanda okkur ennþá betur. Við munum halda þessari vöktun áfram.”

Höf.: Hörður Vilberg