Strandveiðar Síðasti dagur strandveiðanna sumarið 2023 var á þriðjudaginn og voru veiðarnar formlega stöðvaðar í gærmorgun.
Strandveiðar Síðasti dagur strandveiðanna sumarið 2023 var á þriðjudaginn og voru veiðarnar formlega stöðvaðar í gærmorgun. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Hermann Nökkvi Gunnarsson hng@mbl.is Síðasti dagur strandveiða sumarsins var á þriðjudaginn og voru veiðarnar formlega stöðvaðar frá og með gærmorgni en þá lá fyrir að þau 10.000 tonn af þorski, sem voru í strandveiðipottinum, hefðu verið veidd. Ljóst er að þetta var stysta strandveiðitímabilið í 15 ára gamalli sögu strandveiða og var þorskaflinn sem var skaffaður í ár 1.074 tonnum minna en í fyrra. Þrátt fyrir það þá voru 750 bátar sem lönduðu yfir tímabilið sem er næstmesti fjöldi báta á strandveiðum í sögu strandveiða, en aðeins strandveiðitímabilið 2012 skákaði árinu í ár en þá voru bátarnir 759 sem lönduðu.

Baksvið

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Síðasti dagur strandveiða sumarsins var á þriðjudaginn og voru veiðarnar formlega stöðvaðar frá og með gærmorgni en þá lá fyrir að þau 10.000 tonn af þorski, sem voru í strandveiðipottinum, hefðu verið veidd. Ljóst er að þetta var stysta strandveiðitímabilið í 15 ára gamalli sögu strandveiða og var þorskaflinn sem var skaffaður í ár 1.074 tonnum minna en í fyrra. Þrátt fyrir það þá voru 750 bátar sem lönduðu yfir tímabilið sem er næstmesti fjöldi báta á strandveiðum í sögu strandveiða, en aðeins strandveiðitímabilið 2012 skákaði árinu í ár en þá voru bátarnir 759 sem lönduðu.

Fyrir veiðitímabilið í ár vildi Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra upphaflega svæðisskipta veiðunum, eða fara aftur til þess veiðikerfis sem var árið 2017. Atvinnuveganefnd Alþingis afgreiddi ekki frumvarp þess efnis og fór það því ekki í gegn. Landssamband smábátaeigenda lagði það til að veiðidagarnir færu úr 12 dögum á mánuði yfir í 11, en á móti kæmi þá væri ekki hægt að stöðva veiðar áður en veiðitímabilið klárast og tryggja þannig jafnræði milli landshluta. Ekkert varð úr þeirri hugmynd. Veiðarnar fóru því af stað óbreyttar frá síðustu árum.

Síðustu þrjú veiðitímabil hefur ráðherra aukið aflaheimildir þegar það stefndi í að kvótinn myndi klárast snemma yfir sumarið. Morgunblaðið spurði matvælaráðuneytið hvernig stæði á því að aflaheimildir hafi verið auknar í fyrra en ekki í ár.

Fleiri útgerðir síðustu ár

„Á fyrra ári voru gerðar ráðstafanir og magn flutt á milli potta með því að lækka línuívilnun og frístundaveiði. Sambærilegar aðstæður eru ekki til staðar á þessu yfirstandandi fiskveiðiári þar sem nær öll ráðstöfun er uppurin í framangreindum pottum. Þá hafa skiptimarkaðir ekki skilað ráðstöfun umfram það sem gert var ráð fyrir í upphafi þegar ráðstöfun var ákvörðuð með reglugerð um atvinnuveiðar 2022/2023,“ segir í svari ráðuneytisins.

Á árunum 2009-2023 hafa verið að meðaltali 669 bátar á strandveiðum hvert sumar. Þar hafa verið hæðir og lægðir eins og til dæmis með lágpunktinum árið 2018 þegar 548 bátar lönduðu. Árið 2019 fór bátum að fjölga á ný og endaði veiðitímabilið eins og fyrr segir, með 750 bátum. Á árunum 2019-2023 hefur meðalaflaheimildin fyrir þorsk verið 10.813 tonn á ári.

Margar ástæður kunna að vera fyrir fjölguninni á útgerðum í strandveiði síðustu fimm ár. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda rekur nokkrar ástæður í samtali við Morgunblaðið, eins og aukinn þorskur á veiðislóð og gott verð.

Þá hafi kvótaskerðingar leitt til að fleiri sjómenn sæki í strandveiðar til að brúa bilið, enda nánast útilokað að fá þorsk á leigu. Minna hafi verið um makríl á miðunum síðustu árin og hefur það valdið því, að einhverju leyti, að fleiri sækja í strandveiðarnar. Verð hafi verið lágt í grásleppuveiðum sem hefur ýtt sumum í strandveiðarnar.

Örn segir að það sé nauðsynlegt að tryggja nægar aflaheimildir fyrir 48 daga veiðitímabilsins. „Það sést best á þessum 750 útgerðum sem stunda veiðarnar hversu öflugum mannauði íslenska þjóðin býr yfir,“ segir Örn að lokum.

Upphafið til dagsins í dag

Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, setti á reglugerð um strandveiðar sem tók gildi 25. júní 2009. Aðdragandi að því var sá að raddir um frjálsar handfæraveiðar höfðu verið háværar eftir að smábátaveiðar voru innlimaðar í kvótakerfið á síðasta áratug 20. aldar.

Tveir sjómenn töldu að kerfið væri brot á jafnræðisreglu alþjóðasamninga um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þeir fóru með málið til Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem ályktaði árið 2007 að íslensk stjórnvöld hefðu gerst brotleg gegn 26. grein alþjóðasamnings og þurftu að finna lausn á því. Úr varð strandveiðikerfið.

Strandveiðisumarið 2009 var fyrsta sumar strandveiða og þá voru 553 bátar sem stunduðu veiðarnar og var þorskaflaheimildin þá tæplega 4.000 tonn. Veiðiheimildum var skipt niður á svæði og því svo skipt niður á mánuði. Það leiddi til þess að á sumum svæðum voru aflaheimildir búnar í upphafi mánaðar og mikið kapp var um að ná þessum dögum sem voru í boði.

Mörgum þótti þetta skipulag einnig ýta undir ójöfnuð á milli svæða. Þingið lagðist því yfir kerfið árið 2018 og úr varð að sett var á bráðabirgðaákvæði um nýtt kerfi sem gekk út á það að það yrðu 48 daga strandveiðileyfi og ekki mátti sækja sjóinn fleiri en 12 daga á mánuði frá maí-ágúst. Kerfið var prufukeyrt sumarið 2018 og í kjölfar þess var það fest í lög vorið 2019.

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson