Refill Hluti af Bayeux-refilinum sem rætt verður um á Kvoslæk.
Refill Hluti af Bayeux-refilinum sem rætt verður um á Kvoslæk.
Saga saumuð í refil er heiti erindis sem Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi forstöðumaður kvennadeildar Landspítalans og prófessor, flytur í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð næstkomandi laugardag 15

Saga saumuð í refil er heiti erindis sem Reynir Tómas Geirsson, fyrrverandi forstöðumaður kvennadeildar Landspítalans og prófessor, flytur í Hlöðunni að Kvoslæk í Fljótshlíð næstkomandi laugardag 15. júlí klukkan 15.00.

Athygli beinist í vaxandi mæli að textílvinnslu hér á landi til forna. Íslensku reflarnir frá miðöldum eru nú bornir saman við handritin að listrænni gerð og vegna sagnanna sem þar birtust.

Fyrir utan að minna á gerð refla hér á landi í aldanna rás kynnir Reynir Tómas í máli og myndum heimskunna Bayeux-refilinn á Normandí í Frakklandi. Þangað fóru konur úr Rangárþingi fyrir nokkrum árum þegar þær hófu að sauma 90 metra Njálurefilinn sem nú bíður uppsetningar á Hvolsvelli.

„Afkomendur norrænna víkinga gerðu innrás til að vinna England undir sig árið 1066. Tíu áru árum síðar var saumaður langur myndrefill, eins konar teiknisaga, á 70 metra langan línstranga. Sá hefur varðveist í næstum 1000 ár og söguna af þessu listaverki ætla ég að segja og eins hvað varð um refilinn. Að hann sé enn til og varðveittur er merkilegt. Þetta er ein af þjóðargersemum Frakka, er á skrá yfir alheimsminjar og í íslensku samhengi má jafna reflinum við Þingvelli, sem eru á heimsminjaskrá,“ segir Reynir.