Höskuldur Ólafsson
hoskuldur@mbl.is
„Þessi plata er fyrsta stóra verkefnið mitt,“ segir Tryggvi Þór Pétursson gítarleikari og tónskáld sem á dögunum fagnaði útkomu breiðskífunnar OTL með tónleikum í Iðnó þar sem hvorki fleiri né færri en níu hljóðfæraleikarar stóðu á sviðinu við flutninginn.
„Ég byrjaði að safna í þetta verk þegar ég fékk almennilega áhuga á tónsmíðum í MH. Svo fór ég í Listaháskólann 2018 í tónsmíðar og var alltaf að vinna í þessu verki meðfram náminu. Í kringum 2020 var hún fullbúin. Allavega á blaði,“ segir hann en það krafðist töluverðrar skipulagshæfni að hljóðrita plötuna.
„Það flækti ferlið töluvert að ég tók hvert hljóðfæri upp sér og áður en það var hægt þurfti ég að æfa þetta með hverjum og einum hljóðfæraleikara. Að finna tíma sem hentaði öllum var erfiðara en að segja það. Og svo þegar platan var tilbúin tók við annað ferli að finna tíma sem hentaði til æfinga fyrir lifandi flutning.“
Byrjaði 13 ára á gítar
Hvernig myndirðu lýsa tónlistinni?
„Það er mjög góð spurning. Ég svara henni yfirleitt með því að segja að þetta sé nokkurs konar tilrauna-progrokk. Reyndar fannst mér mjög áhugavert sem hljóðmaðurinn í Iðnó sagði eftir tónleikana en hann lýsti henni sem rokkóperu og ég er mjög hrifinn af þeirri lýsingu.“
Fyrir hvað stendur OTL?
„Það er leyndarmál,“ svarar hann. Þar við situr.
Tryggvi Þór hóf sinn tónlistarferil sem gítarleikari en mér leikur forvitni á að vita hvernig hann leiddist út á tónlistarbrautina.
„Tónlist er bara eitthvað sem ég hef alltaf tengt við. Ég hef verið að hlusta á tónlist síðan ég man eftir mér. Byrjaði að spila á gítar 13 ára og ég hef bara af einhverjum sökum alltaf stefnt að því að leggja tónlistina alfarið fyrir mig.“
Varstu þá kannski snemma farinn að hlusta á progrokk eða rokkóperur?
„Kannski ekki fyrst um sinn en ég hlustaði alltaf mikið á rokk og þungarokk. En þau verk sem hafa heillað mig mest eiga það sameiginlegt að mynda sterka heild. Og sömuleiðis þegar ég fór að kynna mér klassíska tónlist í gegnum tónsmíðanámið að þá voru það tónverk sem mynduðu fastmótaða heild sem heilluðu mig.“
Mynda lögin á OTL sterka heild?
„Lögin voru reyndar öll skrifuð hvert í sínu lagi, það er að segja á mismunandi tímabilum. En ég sá strax að ég gæti tengt þau saman og mig langaði að segja sögu í gegnum tónlistina sem væri samhangandi. Þannig að hlustandinn setji hvert lag eða hljóðheim hvers lags í samhengi við hin lögin og sé þannig meðvitaður um alla plötuna þegar hann hlustar. Þannig að úr verði ein heildstæð 30 mínútna upplifun.“
Fullsmíðað fyrir árslok
Hvað tekur svo við?
„Ég er byrjaður að semja næstu plötu. Ekkert hugsað mér að fara á stórt hljómleikaferðalag með þessa plötu enda haft um nóg að hugsa, bæði í mínu persónulega lífi og svo við að koma þessum tónleikum í Iðnó á koppinn. Það hafa samt margir hvatt mig til að fara út með hana þannig að kannski sendi ég línu á ÚTÓN. Þetta yrði nokkuð dýrt fyrirtæki.“
Tryggvi er annars um þessar mundir að smíða hljóðfæri sem hann hlaut styrk fyrir úr Tónskáldasjóði RÚV.
„Ég hef lengi verið að þróa með mér smekk og áhuga á slagverkshljóðfærum og er rosalega hrifinn af þrástefjum og sér í lagi einföldum þrástefjum og byrjaði í gamni að skrifa verk þar sem slegið er stöðugt í glas. Svo datt mér í hug að búa til vél sem gerði þetta fyrir mig. Gerði frumtýpu með því að smíða hamar úr límtré tengdan við mótor sem slær á glas. Sótti um styrk og fékk og er búinn að vera að vinna í þessu meðfram plötunni.“
Lokaútgáfan verður að hans sögn sem sagt margir hraðastýrðir hamrar sem slá í glös og/eða málma.
Hvers vegna finnst þér mikilvægt að smíða hljóðfæri með þessa virkni frekar en til dæmis að taka upp hljóðin sér og forrita svo eftir á í tölvu?
„Það er eitthvað við takmörkunina sem felst í að spila á „analog“-hljóðfæri sem heillar mig. En ég er alveg opinn fyrir því að forrita eitthvað fyrir þetta en það kemur bara í ljós seinna.
Hvenær verður hljóðfærið svo klárt?
„Mjög líklegt að ég nái að fullsmíða þetta fyrir árslok. Ég er að skrifa verk fyrir tríó, s.s. flautu, píanó og þetta hljóðfæri, sem ég stefni á að flytja í Mengi fyrir árslok.“