Davíð Hjálmar Haraldsson fylgdist með á Reykjanesi: Með örlitlum kvíða þeir úrslita bíða og yfir þeir voma. Þeir ígrunda og pæla með ómsjár og mæla: „Það er alveg að koma.“ Á mánudag sagði Helgi R

Davíð Hjálmar Haraldsson fylgdist með á Reykjanesi:

Með örlitlum kvíða þeir úrslita bíða

og yfir þeir voma.

Þeir ígrunda og pæla með ómsjár og mæla:

„Það er alveg að koma.“

Á mánudag sagði Helgi R. Einarsson: „Þá er farið að gjósa“:

Gosið

Andskotinn ástandið mat

og á sér lengi vel sat,

svo bölvaði’ og hló

og berginu spjó

er birtist á skorpunni gat.

„Mikið var,“ segir Hallmundur Kristinsson:

Fjölmiðlar gjarnan gagnast við

að gera atburði ljósa.

Lýkur nú þessari löngu bið:

Loksins er farið að gjósa!

Gunnar J. Straumland yrkir:

Eftir nokkurt moð og más

og marga kenninguna

rifnaði eins og rennilás

rauf í jarðskorpuna.

Og áfram:

Mörgum þykir mest um vert

að mæla kvikulos.

Magnús Tumi „töluvert“

telur þetta gos.

Þórarinn M. Baldursson kvað:

Núna hlaupi allir út!

eldgos hófst við Litla Hrút!

Komi einhver ekki heim,

eftirsjá er vart að þeim.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir og kallar „Eldgos“ (langhenda, hringhent):

Vaknar jötunn, logar lýsa,

losnar fjötur, rofna börð,

strendur gnötra, strókar rísa,

standbjörg nötra, klofnar jörð.


Þórunn Hafstein bætir við: „Sól við Kópavoginn“:

Nú sólríkt er sumar við Voginn,

því sólin hún logar um bæinn.

Heillandi er himinsins boginn

og hátíð við blikandi sæinn.


Þórarinn M. Baldursson kveður:

Lúsmýið á glugga guðar,

gjarnan vildi inn til mín.

Árans beinið einlægt suðar

um að valda kvöl og pín.

Benedikt Jóhannsson um veðrið:

Er sólin skín slær hjartað hraðar

og hugur léttist minn,

nú svartþröstur í sól sig baðar

og sælan hríslast inn.