Hrafnhildur Hansdóttir fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1943. Hún lést á Skógarbæ Hrafnistu 30. júní 2023.
Foreldrar hennar voru hjónin Arndís Skúladóttir, f. 25. janúar 1911, d. 5. maí 1987, og Hans Guðmundsson, f. 24. nóvember 1914, d. 27. maí 1967. Systkini hennar voru Othar, f. 1934, d. 2006, Elín, f. 1938, d. 2017, og Lára Sesselja, f. 1940, d. 2023.
Hrafnhildur giftist ung Páli Ólafssyni, þau slitu samvistum 1984. Hún hóf sambúð með Ríkharði Bjarna Björnssyni 1985, giftu þau sig í febrúar 2000, átti hann fyrir fjögur börn; Erlu, f. 1960, Þóri Björn, f. 1962, Bjarka, f. 1965, og Þröst, f. 1966. Þau bjuggu alla tíð í Faxatúni 42 í Garðabæ.
Hrafnhildur ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Hún fór á ritaranámskeið og vann sem einkaritari hjá Eimskip í nokkur ár, síðan sem gjaldkeri hjá Almennum tryggingum, síðar Sjóvá-Almennum við sameiningu félaganna, þar til hún fór á eftirlaun 65 ára.
Útför Hrafnhildar verður gerð frá Vídalínskirkju í dag, 13. júlí 2023, klukkan 13.
Habba móðursystir okkar hefur kvatt þennan heim. Habba var yngst þeirra systkina, Othars, Elínar og Láru. Systkinin fjögur sem ólust upp á Nesvegi 51 eru nú öll farin en það eru rétt tæpir þrír mánuðir síðan móðir okkar, Lára, kvaddi okkur.
Habba glímdi síðustu árin við veikindi sem einnig hrjáðu systur hennar. Það var og er þungbært að horfa upp á nána ættingja hverfa í þoku minnisleysis.
Habba var eins og þau systkini vel greind, dugleg til vinnu og það vantaði ekkert upp á húmor og kaldhæðni, frekar en hjá öðrum í fjölskyldunni. Við vitum fyrir víst að það orð fór af Höbbu að hún væri mikill dugnaðarforkur og hún var eftirsóttur starfskraftur hjá Eimskip, Blossa og Almennum tryggingum.
Verandi yngst þeirra systra og barnlaus þá kom það oft í hlut Höbbu að gæta okkar systkinabarnanna. Við eigum bara góðar minningar um dvöl hjá frænku; hún var kærleiksrík og reyndist okkur vel á svo margan hátt. Gjafmildi og örlæti voru henni í blóð borin og við nutum góðs af því. Henni þótti til dæmis ekki tiltökumál að lána Dóra, sem þá var 18 ára, bílinn sinn svo vikum skipti en bíllinn sá var einstakur; appelsínugulur Austin mini, skreyttur þremur gulum öndum á bakhliðinni.
Habba var nefnilega töff og að mörgu leyti nútímalegri en þær systur. Heimili hennar og viðhorf til lífsins báru því vitni.
Rikki sér nú á bak sínum lífsförunaut og harmur hans er mikill. Það var gæfuspor þegar þau Rikki tóku að rugla saman reytum fyrir margt löngu. Þeirra sambúð var farsæl og krakkarnir hans Rikka, þau Þórir, Bjarki, Erla og Þröstur reyndust Höbbu ævinlega vel og hún þeim. Óteljandi eru boðin hjá Höbbu og Rikka í Faxatúninu á árum áður; ekkert til sparað og mikið fjör.
Habba var skemmtileg kona og vakti gleði meðal þeirra sem á vegi hennar urðu. Það var gott að vera með henni. Vegna veikinda hafði því miður dregið úr samskiptum hin síðari ár. Við eigum þó góða minningu úr áttræðisafmæli Höbbu, í vetur sem leið, á síðasta heimili hennar í Skógarbæ.
Við þökkum fyrir okkur og komum til með að sakna frænku og systkina hennar meðan við lifum.
Hrafn, Halldór og Arndís.