Tekjur samstæðu atNorth árið 2022 námu 7,5 milljörðum króna og uxu um 44 prósent frá árinu 2021.
Í uppgjörstilkynningu frá atNorth kemur fram að tekjuvöxtur félagsins hafi verið ör allt frá stofnun árið 2009 og býst fyrirtækið við umtalsverðum vexti næstu árin. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 1,2 milljörðum króna í fyrra en lækkaði milli ára.
atNorth rekur nú sex gagnaver, á Íslandi, í Svíþjóð og Finnlandi. Vöxtur félagsins kallar á gríðarlegar fjárfestingar og hefur félagið tryggt sér aðgang að fjármagni til vaxtarins. Fjárfesting ársins 2022 nam um þremur milljörðum króna en þegar liggur fyrir að fjárfestingar þessa árs verða umtalsvert meiri.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, þakkar starfsfólkinu góðan árangur félagsins. „Innan atNorth hefur byggst upp gríðarleg þekking á undanförnum árum. Viðskiptavinir kunna að meta þjónustuna og hún er lykillinn að góðu orðspori atNorth,“ segir Eyjólfur Magnús í tilkynningunni. Hann segir jafnframt mikinn styrk fólginn í öflugum bakhjarli félagsins, Partners Group, sem keypti meirihluta hlutafjár í félaginu í byrjun árs 2022.