Saltfiskur Portúgölum líkar saltfiskur mjög vel að sögn Sigurgeirs.
Saltfiskur Portúgölum líkar saltfiskur mjög vel að sögn Sigurgeirs. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er búið að ganga bara alveg þokkalega,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið er hann var spurður hvernig portúgölsku saltfiskvinnslunni Grupeixe hefur gengið en Vinnslustöðin keypti hana árið 2019

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

„Það er búið að ganga bara alveg þokkalega,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, í samtali við Morgunblaðið er hann var spurður hvernig portúgölsku saltfiskvinnslunni Grupeixe hefur gengið en Vinnslustöðin keypti hana árið 2019.

„Það var náttúrulega erfitt ár þegar covid skall á og enginn vissi hvað ætti að gera, en að öðru leyti hefur þetta gengið þokkalega,“ segir hann.

„Fyrst og fremst var verið að kaupa frystan fisk og fletja og salta. Þetta var þá frystur fiskur, það var stóra málið,“ segir Sigurgeir spurður út í hvaða breytingar urðu á starfsemi fiskvinnslunnar eftir kaupin. Hann segir að það hafi færst meira yfir í að selja fisk frá Vinnslustöðinni.

Spurður hvort markmiðinu hafi verið náð með kaupunum segir Sigurgeir: „Já, ég held við getum sagt það. Við erum alltaf að glíma við ný og ný markmið,“ bætir hann við. Í tilkynningu félagsins frá 2019 þegar kaupin áttu sér stað kom fram að stefna fyrirtækisins væri að færa sig nær erlendum mörkuðum og viðskiptavinum.

„Í beinni snertingu við neytendur“

„Við erum að vinna með mörkuðum, veitingahúsum. Þetta er mjög skemmtilegt og öðruvísi,“ segir hann. „Við erum í beinni snertingu við neytendur.“

Sigurgeir segir langa hefð ríkja í Portúgal fyrir því að kaupa íslenskan saltfisk. „Þetta var stóri markaðurinn, portúgalski markaðurinn og Spánarmarkaður, fyrir saltfisk. Þetta [saltfiskurinn] var gríðarlegt magn,“ segir hann en forðum hafi þetta verið matur fátæka mannsins.

„Við erum eina fyrirtækið af þessum stærri fyrirtækum sem erum ennþá í þessum gamla hefðbundna saltfiski,“ segir hann en jafnframt að markaðirnir séu mjög ólíkir. „Það eru fyrirtæki sem sérhæfa sig á Spáni […], Ítalíu,“ segir hann. Fyrirtæki verði að sérhæfa sig til að sinna markaðnum sem þau eru á.

Ekki sáttir við Íslendinga

„Þeir eru ekki alveg sáttir við það,“ segir Sigurgeir spurður út í hvernig heimamenn hafa tekið því að Íslendingar fari með eignarhald á portúgalskri saltfiskvinnslu. „Þegar við keyptum fyrirtækið voru þeir ekki sáttir, þeir vildu bara kaupa af okkur fiskinn og vinna hann,“ segir Sigurgeir.

„Núna er stjórnunin á saltfiskmarkaðnum, hvað Ísland varðar erum við með helmingsmarkaðshlutdeild,“ segir Sigurgeir. Hann segir Portúgala vera meðal mestu þorskneysluþjóða í heimi. „Þeir borða 5.000 tonn af þorski á aðfangadagskvöld, þetta er þeirra hangikjöt,“ segir hann. Í veislum sé nánast aldrei spurt hvað verði í aðalrétt það sé alltaf borðleggjandi hvað verði á boðstólum.

Felldu niður virðisaukaskatt á saltfisk

Ríkisstjórn Portúgals felldi niður virðisaukaskatt á hundrað mikilvægustu vörur Portúgala vegna baráttu við verðbólgu, segir Sigurgeir en saltfiskur var þar á meðal. „Það hjálpar til,“ segir hann en að það muni einnig fyrir neytendur.