— Morgunblaðið/sisi
Nú styttist í að Hús íslenskra ríkisfjármála í Katrínartúni 6 í Reykjavík verði tekið í fulla notkun. Fjársýsla ríkisins flutti í húsið í júní og stefnt mun að því að starfsemi Skattsins verði flutt þangað um miðjan ágúst

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Nú styttist í að Hús íslenskra ríkisfjármála í Katrínartúni 6 í Reykjavík verði tekið í fulla notkun. Fjársýsla ríkisins flutti í húsið í júní og stefnt mun að því að starfsemi Skattsins verði flutt þangað um miðjan ágúst.

Fjársýsla ríkisins flutti í Katrínartúnið 8. og 9. júní. Mánudaginn 12. júní var starfsemi Fjársýslunnar alfarið komin á nýjan stað og móttakan opnuð. Skatturinn fékk húsnæðið afhent 5. júní og hefur nú þegar flutt húsgögn og ýmsan búnað í húsið. Eins og fram kom hér í blaðinu nýlega keypti Skatturinn nýjan húsbúnað fyrir rúmlega 220 milljónir króna í nýjar höfuðstöðvar að undangengnum útboðum.

Stefnt er að því að flytja starfsemina alfarið af Laugavegi 166 í Katrínartún um miðjan ágúst, enda sumarleyfismánuðurinn júlí ekki heppilegur til flutninga. Í nýjum höfuðstöðvum Skattsins verða um 370 starfsmenn en hjá stofnuninni starfa eru nú tæplega 500 manns á landinu öllu.

Ríkið leigði Katrínartún 6 til 30 ára. Hús íslenskra ríkisfjármála er alls um 11.705 fermetrar. Skatturinn hefur yfir að ráða 9.705 fermetrum, en Fjársýsla ríkisins 2.000 fermetrum. Starfsmenn Fjársýslu ríkisins eru tæplega 90 talsins.

Katrínartún 6 stendur nálægt Höfðatorgi. Það er hæst níu hæðir. Húsið er rauðbrúnt að lit og setur mikinn svip á umhverfið.

Þegar samið var um leiguna um mitt ár 2021 var að því stefnt að húsið yrði tilbúið í árslok 2022. Verklok hafa tafist af ýmsum ástæðum.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson