Yfirlit yfir salinn Fremst í salnum er „Himinhvolf #3“, „Stundaglasþokan“ og „Himinhvolf #4“, „Stingskatan“ frá 2022, til vinstri „Gammageislar á himni“ og „Hringþoka“ frá 2021, aftast „Kvöldhúm á Þingvöllum“ frá 2020 og „Vetrarlandslag á Þingvöllum“ frá 2019, allar ofin málverk, handlitað silki.
Yfirlit yfir salinn Fremst í salnum er „Himinhvolf #3“, „Stundaglasþokan“ og „Himinhvolf #4“, „Stingskatan“ frá 2022, til vinstri „Gammageislar á himni“ og „Hringþoka“ frá 2021, aftast „Kvöldhúm á Þingvöllum“ frá 2020 og „Vetrarlandslag á Þingvöllum“ frá 2019, allar ofin málverk, handlitað silki. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafnarborg Á hafi kyrrðarinnar ★★★½· Hildur Ásgeirsdóttir Jónsson. Sýningarstjórn: Aldís Arnardóttir. Sýningin var opnuð 10. júní og stendur til 3. september 2023. Opið alla daga nema þriðjudaga milli kl. 12 og 17.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Í Hafnarborg stendur nú yfir sýning bandarísk-íslensku listakonunnar Hildar Ásgeirsdóttur Jónsson. Á sýningunni eru mest áberandi stór ofin myndverk hennar. Verkin á sýningunni byggjast sum á ljósmyndum sem hún hefur tekið af íslensku landslagi á meðan önnur vinna með myndefni utan úr geimnum. Aðferð hennar við myndgerðina er einföldun á efni ljósmyndanna, þar til það sem eftir stendur eru fáir drættir og áherslur, sem hún vinnur í handlitaðan silkiþráðinn sem er vefur myndanna sjálfra. Verkin birtast sem tilbrigði við landslag eða stjörnuþokur, sýna myndefnið í hugrænni sýn.

Hildur hefur búið í Bandaríkjunum frá tvítugsaldri, í Cleveland í Ohio-ríki, þar sem hún nam myndlist. Hún ferðast reglulega til Íslands og sækir myndefni sitt að stórum hluta í íslenskt landslag. Hún hefur sýnt hér á landi með reglulegu millibili, allt frá árinu 2002. Hún sýnir einnig oft í heimahögum sínum í Ohio og verk hennar eru reglulega til sýnis hjá Tibor de Nagy Gallery í New York.

Uppistaðan á sýningunni eru stór vefverk Hildar, sem kunnugir þekkja án efa vel. Auk þessara verka eru einnig til sýnis nokkur minni verk, teikningar, vatnslitaskissur og útsaumsverk – en þessi verk gefa nánari innsýn í myndhugsun Hildar og vinnuferli. Hildur segist vinna myndir sínar á grundvelli ljósmynda sem hún sker og einfaldar og notar sem efnivið í myndverk sín. Í vatnslitamyndunum og teikningunum má greinilega sjá hvernig þessi einföldun hefur átt sér stað – búið er að draga fram meginlínur landslagsheildarinnar í flæðandi litaflötum og áherslum, nokkuð sem einnig má greina vel í stærri verkunum.

Í texta með sýningunni er lögð áhersla á að verkin séu málverk, fremur en vefnaður. Þar er vísað til þeirrar hefðar málaralistar sem formhugsun Hildar byggist á, einföldunar í myndstíl og áherslum sem rekja má til málara millistríðsáranna í Bandaríkjunum. Það er hinsvegar ljóst að verk Hildar eru í grunninn útfærð og hugsuð sem textílverk, þar sem samspil uppistöðu og ívafs er nýtt á fjölbreyttan hátt til að ná fram sérstæðri áferð og myndáhrifum. Hildur hefur þróað með sér vandaða tækni við gerð myndvefnaðar. Í þeirri tækni liggur áhrifamáttur verkanna fyrst og fremst. Í sumum myndum er aðferð vefnaðarins dregin fram, þar sem litaspilið einkennist af reglulegri skiptingu lita í ívafinu. Í landslagsmyndunum má sjá hvernig láréttar línur þráðarins undirstrika legu landsins. Í kosmísku verkunum, sem Hildur byggir á ljósmyndum af stjörnuþokum, leggur hún þráðinn í lóðréttum línum.

Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og áhrifamáttur þeirra misjafn. Mest er lagt í stórar Þingvallamyndir frá 2019 og 2020. Þar nær krafturinn þó ekki að skila sér; það er eins og viðfangsefnið og stærðin beri listamanninn ofurliði og fyrir vikið nær myndsýnin ekki flugi. Í sumum minni verkanna, eins og „Breytilegu landslagi #5“ frá 2022, verða áhrifin hvað sterkust. Hér er einföldun landslagsvísunar meiri og aðferðir vefsins leysa formin hér upp á sérstaklega áhrifaríkan hátt, þannig að formheimurinn öðlast sérstaka vídd, verður sjálfstæður og ekki lengur háður frummyndinni sem landslagið er.

Sú nálgun sem Hildur beitir á landslagið sem mótív, flæðandi formrænt og dreymandi, er ekki í beinlínis í anda íslenskrar landslagshefðar. Má fremur telja að hér megi greina áhrif bandarískrar málverka- og landslagshugsunar, sem fyrr er nefnt. Að sumu leyti má finna hliðstæður við aðferðir Hildar í málverkum Arngunnar Ýrar Gylfadóttur, en hún byggir upp draumkennt landslag með sterkum litum og flæðandi formheimi. Hún hefur einmitt lengi búið í Bandaríkjunum eins og Hildur. Af íslenskum áhrifavöldum kemur einnig upp í hugann frumherji í íslenskri formhugsun, bæði í málverki og vefnaði, Júlíana Sveinsdóttir, sem bjó lengst af í Danmörku. Í verkum hennar birtist sterk beiting einfaldaðra landslagsforma og blæbrigða sem byggðu upp heilsteypta og nýstárlega túlkun á íslenskum landslagsformum. Að sumu leyti fer Hildur svipaða leið, býr sér til nýtt Ísland úr fjarska, þar sem hugurinn leitar sífellt heim þær stundir sem hún getur ekki dvalið þar.