Lagfært Indriði hefur haft gaman af því að dytta að görðunum. Kona hans, Valgerður Ragnarsdóttir, fylgist með.
Lagfært Indriði hefur haft gaman af því að dytta að görðunum. Kona hans, Valgerður Ragnarsdóttir, fylgist með. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar ekið er eftir þjóðveginum í Aðaldal má víða sjá gamla grjótgarða sem enn standa og sumum þeirra hefur verið haldið við allt til þessa dags. Við bæinn Ytrafjall eru garðar þessir sérlega áberandi enda standa þeir enn óhaggaðir þó sumir séu á annað hundrað ára gamlir og vel það

VIÐTAL

Atli Vigfússon

Laxamýri

Þegar ekið er eftir þjóðveginum í Aðaldal má víða sjá gamla grjótgarða sem enn standa og sumum þeirra hefur verið haldið við allt til þessa dags. Við bæinn Ytrafjall eru garðar þessir sérlega áberandi enda standa þeir enn óhaggaðir þó sumir séu á annað hundrað ára gamlir og vel það. Þeir setja svip sinn á landið, eru merkileg mannvirki í hrauninu og á vissan hátt listaverk í landslaginu.

Dagbækurnar eru dýrmætar heimildir

„Þegar afi minn hóf hér búskap var ekki nokkurt aðhald til á jörðinni fyrir skepnur og mun svo hafa verið víða á þeim tíma. Þess vegna kostaði gæsla búpenings endalausa vinnu og fyrirhöfn. Búskaparár afa míns, Indriða Þórkelssonar, voru árin 1896-1930 og urðu garðarnir á Ytrafjalli margir til á þeim árum enda átti hann sjálfur flest handtök þar og gekk glaður að því verki. Garðarnir á Ytrafjalli skiptast eftir aldri í tvo aðalflokka. Annars vegar forna garða og garðabrot en hins vegar vörslugarða.“ Þetta segir Indriði Ketilsson bóndi á Ytrafjalli sem nýverið hefur lokið við að skrifa margra blaðsíðna ritgerð um gömlu grjótgarðana í Aðaldal og fjallar ritgerðin einkum um garðana á Ytrafjalli og bæjunum þar í kring. „Ég hef alltaf farið með görðunum á vorin til þess að laga þá og halda þeim við en það var í fyrsta sinn í fyrra sem ég fór ekki. Ég veit ekki um framtíð þessara hraungarða en víða er þeim ekki sinnt lengur og því er hætt við að þeir láti á sjá. Ég vona að yngsta kynslóðin hér fái áhuga á görðunum því það er mikilvægt að fara með þeim og dytta að þeim á vorin til þess að þeir fari ekki að hrynja, en veður og vindar hafa áhrif á þá og tímans tönn vinnur sitt verk.“

Indriði hefur alla sína tíð búið á Ytrafjalli og bjó fyrstu árin, þ.e. frá 16 ára aldri, félagsbúi með foreldrum sínum. Hann er fæddur árið 1934 og verður því níræður á næsta ári. Árið 1971 tók hann formlega við búinu ásamt Ívari bróður sínum og man tímana tvenna í búskaparháttum. Í grein sinni um grjótgarðana fjallar hann um notagildi þeirra og nafngiftir en einnig hvort þeir voru einhlaðnir eða tvíhlaðnir. Staðsetning garðana er nákvæm í grein Indriða og þeirra er getið í örnefnaskrá yfir Ytrafjall sem byggð er á dagbókum föður hans, Ketils Indriðasonar. Þar er m.a. getið um lengd garðanna og þar með aldur þeirra en dagbækurnar eru dýrmætar heimildir um garðana.

Allir garðarnir eiga sína sögu

Indriði fjallar ýtarlega um svokallaðan Hólmavaðsgarð sem var mikið mannvirki, tvíhlaðinn að mestu eða öllu leyti. Hann er talinn hlaðinn af bóndanum á Hólmavaði, Kristjáni Jónssyni, sem þar bjó á árunum 1878-1914. Mikið af þessum garði raskaðist þegar þjóðvegurinn var gerður eftir dalnum sem hét í fyrstu Reykjadalsbraut. Fyrsti bíllinn fór eftir brautinni árið 1915. Seinna, þ.e. um 1960, var farið í miklar framkvæmdir við þjóðveginn og þá eyðilagðist með öllu forn garður sem var á merkjum Ytrafjalls og Hólmavaðs. Þannig er saga garðanna misjöfn og ljóst að með nýframkvæmdum hafa þeir margir horfið með öllu. Stundum tók það mörg ár að hlaða suma þessa garða og nefnir Indriði í því sambandi svokallaðan Merkigarð sem hlaðinn var á landamerkjum við Syðra-Fjall. Hann var 600 metra langur og tók þó nokkur ár að gera hann. Garðstæðið var ekki gott og þurfti víða að aka grjóti en upptekt grjóts var jafnan vetrarverk og tók sinn tíma. Yngsti garðurinn sem hann nefnir er svokallaður Fjallsgarður og var hann gerður til þess að friða Fjallshnjúk sem tókst 1926. Hann er 750 metra langur en öðruvísi að því leyti að hann er ekki hár og yfir honum var hafður einn gaddavírsstrengur sem borinn var uppi af strjálum staurum. Indriði nefnir marga aðra grjótgarða í frásögn sinni og allir eiga þeir sína sögu.

Fróðlegar frásagnir

Auk þess að fjalla um grjótgarðana í ritsmíð sinni nefnir Indriði einnig aðhöld og stekki sem víða er að finna. Þá skrifar hann líka um gerði og kvíatættur í Ytrafjallslandi. Hann lýkur frásögninni með lýsingu á steinboga sem var fyrst og fremst samgöngumannvirki, mikill grjótbálkur yfir vatnsfarveginn skammt sunnan túns á Ytrafjalli og var á gamalli alafaraleið. Frásagnirnar eru allar mjög fróðlegar en gömlu grjótgarðarnir gerðu sitt gagn og gegndu mikilvægu hlutverki í búskap fyrri ára og alda. Indriða þykir vænt um þessa merkilegu garða. Hann hefur áratuga reynslu af viðhaldi þeirra og vitneskja hans um þá eru merkilegar heimildir um liðna tíð sem nú hafa verið skráðar á blað.

Grjótgarðarnir á Ytrafjalli í Aðaldal eru áberandi og merkileg mannvirki í hrauninu

Á vissan hátt listaverk í landslaginu

Grjótgarðarnir við Ytrafjall eru á vissan hátt listaverk í landslaginu. Bærinn stendur á grónum malarhól skammt frá brattri austurhlíð Fjallshnjúks og á miklar engjar sem áður fyrr voru heyjaðar og gáfu af sér mikla uppskeru. Nokkuð er erfitt með túnrækt vegna hrauns en gripahagar hafa alltaf verið taldir góðir. Mikill skógur er í Fjallshnjúk en landið þar var alfriðað og afgirt 1926. Ketill Indriðason (yngri), sem er fjórði ættliður sömu ættar á Ytrafjalli, býr í dag með holdagripi á jörðinni og vinnur mikið utan bús.

Höf.: Atli Vigfússon