Anna Friðbergs Kristjánsdóttir fæddist á Tindum á Skarðsströnd 30. maí 1940. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 27. júní 2023.

Foreldrar hennar voru Ragnheiður Stefanía Þorsteinsdóttir, f. 13. júlí 1918, d. 14. janúar 2013, og Kristján Friðberg Bjarnason, f. 29. ágúst 1905, d.15. apríl 1972. Anna átti átta systkini og eru eftirlifandi systkini hennar Guðbjörg Gígja, Bjarni, Júlíana Guðrún og Björn.

Maður hennar var Ingvi Hallgrímsson, f. 17. ágúst 1939. Þau skildu. Dætur hennar og Ingva eru Anna Marí Ingvadóttir, f. 15. maí 1969, og Ragnheiður Kolbrún Ingvadóttir, f. 6. maí 1961. Sambýlismaður Önnu Maríar var Pálmi Haraldsson, f. 22. janúar 1960. Dóttir Önnu og Pálma er Bryndís Silja Pálmadóttir, f. 27. september 1992, unnusti hennar er Óskar Björn Bjarnason, f. 25. september 1991, og dóttir þeirra er Björk Óskarsdóttir, f. 20. janúar 2023. Anna tók sér margt fyrir hendur um ævina, lengst af vann hún í bönkum bæði á Íslandi og í Danmörku og kom einnig að ýmsum útgáfustörfum. Frá aldamótum var Anna búsett á Sólvallagötu í Vesturbæ Reykjavíkur.

Útför Önnu fer fram í dag, 13. júlí 2023, í Fríkirkjunni klukkan 13.

Elsku amma mín, Anna Friðbergs Kristjánsdóttir, kvaddi þennan heim 27. júní síðastliðinn. Hverjum þykir sinn fugl fagur, en að mínu mati var enginn í veröldinni eins og hún amma.

Amma var fyndin, skemmtileg, sterk, ævintýragjörn og full af orku, ást og lífi, listræn og fluggáfuð. Hún saumaði, prjónaði og skapaði alla ævi og var oftar en ekki glæsilega klædd í flíkur úr eigin smiðju. Einu sinni gaf ég henni klút sem ég hafði keypt á ferðalagi um Mið-Austurlönd og amma gerði sér lítið fyrir og saumaði heila dragt í stíl. Hún var líka alltaf boðin og búin að breyta og laga flíkur sem rifnuðu á okkar heimili og ófáar flíkur í mínum fataskáp sem lifað hafa töluvert lengur vegna handlagni hennar. Þannig var amma einfaldlega.

Hún var alltaf til í að stökkva til og aðstoða sama hvað vantaði. Á síðasta ári stytti hún til að mynda gardínurnar fyrir okkur og tók það auðvitað ekki í mál að við hengdum þær upp aftur, heldur klifraði hún upp stigann og hengdi þær upp aftur sjálf.

Annað dæmi sem er mér ofarlega í huga er frá fyrstu dögum mínum sem blaðamaður þegar mér datt skyndilega í hug að hlaupbúðingurinn, umdeilt góðgæti sem ekki er vinsælt á veisluborðum lengur, ætti heima á síðum blaðanna. Hver önnur en amma mín var þá auðvitað tilbúin að koma í viðtal, deila uppskriftinni og henda í einn hlaupbúðing fyrir myndavélarnar.

Amma var alla tíð mikil íslenskukona og talaði bæði og skrifaði fallegt mál og starfaði meðal annars við útgáfustörf. Hún talaði líka dönsku og sænsku eftir búsetu í báðum löndunum og var með puttann á púlsinum í stjórnmálum þar fram á síðasta dag.

Amma las líka allar nýjar bækur og var alltaf tilbúin að ræða þær fram og til baka, enda hafði hún sterkar skoðanir á því hvað væri merkilegur texti og hvaða höfundar væru ekki upp á marga fiska.

Síðasta árið snerust samræður okkar að miklu leyti um langömmubarnið, Björk, sem fæddist 20. janúar og amma beið eftir í mikilli eftirvæntingu. Amma smjattaði á orðinu langamma eins og það væri fallegasta orð sem hún hefði heyrt og oftar en ekki þegar ég kíkti með Björk litlu í heimsókn vildi amma ganga með hana um íbúðina og stundum heyrði ég hana hvísla „ert þú ekki alveg langbest, alveg langlangbest.“

Þegar ég gekk inn heima eftir að hafa kvatt ömmu fann ég svo sterkt hvar amma var víða í íbúðinni og mundi enn hvað hún gerði margt fyrir mig – og okkur þrjú.

Hún er í heimferðarsettinu sem hún prjónaði á Björk, randalíninni í frystinum, gardínunum, fötunum sem hún breytti og lagaði, vettlingunum og ullarsokkunum sem hún prjónaði fyrir mig og sendi til London, ljóðinu uppi í hillu sem hún samdi þegar ég fæddist, eldspýtustokkum sem hún lánaði mér en ég gleymdi að skila, öllum bókunum, plöntunum sem eru afleggjarar af hennar plöntum. Amma leynist einhvern veginn alls staðar heima hjá mér og alveg örugglega flestum sem hún kynntist á sinni ævi.

En amma lifir ekki bara áfram í öllum þessum hlutum heldur í hjartanu, í öllum minningunum um lifandi, litríka konu, sem fylla mig stolti um aldur og ævi að hafa fengið að vera barnabarnið hennar. Að lokum er ég ævinlega þakklát fyrir að lífsins vegferð þín og Bjarkarinnar okkar hafi átt samleið í gamla Vesturbænum í fimm mánuði og sjö góða daga.

Amma, takk fyrir allt.

Bryndís Silja.