Ísafjörður Farmur lestaður um borð í ms. Selfoss sem hér liggur við Sundin. Kubbinn í baksýn fyrir botni Skutulsfjarðar.
Ísafjörður Farmur lestaður um borð í ms. Selfoss sem hér liggur við Sundin. Kubbinn í baksýn fyrir botni Skutulsfjarðar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjórinn er spegilsléttur og úr brú skipsins sést svo langt sem augað eygir. Himininn er heiður og blár og sviðsmyndin er tæplega af þessum heimi. Fraktskipið ms. Selfoss siglir á tólf mílna hraða og kúrsinn er settur í norður

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Sjórinn er spegilsléttur og úr brú skipsins sést svo langt sem augað eygir. Himininn er heiður og blár og sviðsmyndin er tæplega af þessum heimi. Fraktskipið ms. Selfoss siglir á tólf mílna hraða og kúrsinn er settur í norður. Farið er nærri landi og ystu nesjum. Við Bjargtanga sést hvar fólk stendur á nöfinni, á ystu brún Evrópu. „Svona veðrátta er fágæt. Hafflöturinn er nú ekki alltaf svona sléttur,“ segir Heimir Karlsson skipstjóri. Röstin út af Látrabjargi, sem hér er rennt í gegn og er þekktur þröskuldur sjófarenda, finnst ekki á svona dögum.

Góður kostur

Í maí síðastliðnum hóf Eimskip vikulegar endurbættar strandsiglingar til hafna á Vestfjörðum og Norðurlandi. Siglingar til Vestmannaeyja og Reyðarfjarðar eru áfram hluti af millilandakerfi félagsins.

Eimskip hefur aðlagað sig breyttum tímum með siglingum á ströndina. Fiskeldi á Vestfjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og á Norðurlandi hafa hafa sjávarútvegur og iðnframleiðsla verið í sókn. Slíkt kallar á eflda flutningaþjónustu og því kalli svarar Eimskip. Sjóflutningar eru góður kostur þegar fraktin er til dæmis grófvara ýmiss konar og gámar.

Sú var tíðin að flutningar með siglingum á ströndina þóttu ekki henta meðal annars vegna krafna um afhendingahraða. Vara seld í dag skyldi afhent að morgni og því fóru flutningar Eimskips meira en var á bíla. Talsvert var þó deilt á slíkt sökum þess niðurbrots á vegum sem fylgir akstri öxulþungra trukka. Slíkt er vissulega enn til staðar en viðhorf eru þó önnur nú en var. Aðferðir við geymslu á ferskum sjávarafurðum hafa breyst og því er svarað með efldum strandflutningum. Í viðskiptalífi er sömuleiðis ósk margra að kolefnisspor flutninga hafi sem minnst áhrif og þá koma skipaferðir sterkar inn.

Keðjan sé órofin

Viðkomustaðir í beinum strandflutningum Eimskips eru Sauðárkrókur, Húsavík, Akureyri og Ísafjörður. Þessu striki verður haldið enda þótt rútan hafi verið með aðeins öðru sniði þegar blaðamaður Morgunblaðsins tók far með ms. Selfossi um síðustu helgi. Lagt var af stað úr Sundahöfn í Reykjavík eldsnemma á föstudagsmorgni og komið til Ísafjarðar undir kvöld, eftir tólf tíma siglingu. Þaðan var farið um miðnætti og siglt fyrir Horn og í Norðurlandshafnir.

Hjá Eimskipum er helgin notuð í strandsiglingar. Hugsunin með því er að til dæmis farmur af ströndinni úti á landi komist beint í millilandaskip Eimskips, sem fara utan um miðja vikuna. Og einmitt þetta er flutningastarfsemi í hnotskurn, eitt verður að grípa annað og keðjan að haldast órofin svo varningur komist alla leiðina fljótt og vel.

„Að halda stöðugleika í áætlun skiptir öllu máli. Við leggjum metnað í þetta verkefni og finnum mikla þörf hjá viðskiptavinum okkar,“ segir Björn Einarsson framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskipum.

Selfoss skilar sínu

„Í sjómennsku líkar mér vel að vera í fjölbreyttum verkefnum og kann því vel að sigla á ströndina eftir að hafa síðustu ár siglt á erlendar hafnir,“ segir Heimir skipstjóri. Ms. Selfoss var til skamms tíma notaður til Ameríkusiglinga Eimskips, en fer á ströndina nú og nýtist þar vel. Þar kemur til að bakborðsmegin á skipinu eru tveir stórir bómukranar sem notaðir eru til að hífa gáma og annan varning af og á. Skipið, sem var smíðað árið 2007, er 127 metra langt og 7.464 brúttótonn að þyngd.

„Selfoss er gott sjóskip sem alltaf hefur skilað sínu, svo sem í Ameríkusiglingum síðustu árin. Þar höfum við oft þurft að mæta ógnvekjandi ölduhæð, kannski 15-16 metrum. Á ströndinni hér heima má svo vissulega búast við ýmsu á veturna og skilyrði eru krefjandi, til dæmis í þröngum höfum þar sem vindur getur verið stífur og þungir straumar. Í sumum þeirra þarf að bæta aðstæður og hugsanlega gera fleiri hafnir færar flutningaskipum eins og þörf getur verið á. Slíkt ræðst mjög af því hver verður þróun mála í laxeldinu, og þeirri þörf á flutningi aðfanga og afurða sem því fylgir,“ segir Heimir sem hefur verið til sjós í um 24 ár.

„Já, ég ætlaði alltaf á sjó. Ég er úr Sandgerði og byrjaði sem unglingur hjá föður mínum, Karli Ólafssyni, sem var með Haförninn GK. Svo fór ég í sjómannaskólann og var í mörg ár á bátum og togurum. Langaði síðan að prófa farmennsku og réði mig til Eimskips 2012. Hef verið hér síðan; fyrst stýrimaður og núna síðustu tvö árin skipstjóri á Selfossi. Og þessu kann ég vel; er með fínan mannskap. Reynslubolta í bland við unga stráka.“

Margs þarfnast búið við

Eftir nætursiglingu í norðri frá Ísafirði var á laugardagsmorgun komið á Sauðárkrók. Þaðan var haldið til Húsavíkur í eftirmiðdaginn. Margs þarfnast búið við í öllum þessum bæjum, bæði er flutt almenn neysluvara en einnig afurðir frá fyrirtækjum, til dæmis sjávarfang og iðnaðarvörur. Landsbyggðin er í sókn á ýmsa lund og flutningastarfsemi er alltaf góður hitamælir þar. Ferðin hélt svo áfram frá Húsavík til Akureyrar, en þar á sunnudagsmorgni hoppaði blaðamaður af en Selfossmenn héldu siglingu sinni áfram og komu til hafnar í Reykjavík rúmum sólarhring síðar.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson