Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Það getur enginn sagt til um það enda er þetta eitt af því sem við vitum ekki. Það er mjög margt vitað um gosið en ekki hvernig það mun þróast. Það er ekkert í mæligögnum sem getur sagt okkur til um það,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur spurður að því hvort búast megi við löngu gosi og einnig hvernig hann meti þróun þess.
Þá segir Páll eldgosið núna minna um margt á eldgosið í fyrra þó ein hættulegasta hugsanavillan sé oft á tíðum sú að gera ráð fyrir því að umbrot og atburðir sem þessi séu hver öðrum líkir.
Skeið breytilegra umbrota
„Það er flest sem bendir til þess að þau séu svipuð og þetta gos sé eins nálægt því og hægt er að ráða af gögnunum. Við getum hins vegar ekki lært á þessa atburðarás með einu gosi. Ef það er eitthvað sem reynslan hefur kennt okkur þá er það það að eldstöðvarnar eru mjög mismunandi. Hver og ein hefur sín skapgerðareinkenni og svo eru eldgosin mjög ólík hvert öðru yfirleitt. Það er reglan frekar en undantekningin,“ segir Páll og bætir því við að þetta eigi sérstaklega við þegar gos séu stór.
„Þá breytist yfirleitt eldstöðin það mikið að næsta gos er í rauninni í breyttri eldstöð. Þess vegna er ákveðin hugsanavilla að gera ráð fyrir að gosin séu eins.“
Að sögn Páls hefur Reykjanesskaginn ótvírætt minnt á sig undanfarið en sé litið á jarðsöguna megi sjá að eldgos á þessu svæði komi í hviðum.
„Fram undan er væntanlega skeið þar sem búast má við breytilegum umbrotum. Það er það sem reynslan segir okkur, að við þurfum að vera undir það búin að það haldi áfram. Það er engin vissa um það frekar en annað.“
Þá tekur Páll það fram að eldgosatíð sem þessi jafngildi tilraunastarfsemi vísindamanna þar sem ómögulegt sé að stjórna því sem gerist. Þeim mun mikilvægara sé að fylgjast vel með framvindu mála og læra af hverju gosi fyrir sig.
„Náttúran sjálf gerir tilraunina en við getum lært af henni. Það er nánast skylda okkar núna að læra eins mikið og hægt er af þessum atburðum. Það er enginn vafi á því að menn eru að læra gríðarlega mikið þessa dagana um allt mögulegt.“
Fólk beri ábyrgð á sjálfu sér
Aðspurður segist Páll ekki hafa komið að nýju gosstöðvunum þar sem hans staður í svona umbrotum sé vanalega fyrir framan tölvuskjá.
„Ég þarf að fylgjast með mæligögnunum og reyna að skilja það sem mælist,“ segir hann en blaðamanni leikur hins vegar að lokum forvitni á að vita hvort honum þyki æskilegt að hafa gosstöðvarnar opnar almenningi.
„Fólk verður náttúrlega að bera ábyrgð á sjálfu sér í þessu. Um leið og farið er að banna eitthvað þá er ákveðinn hópur fólks sem sér sérstaka ástæðu til þess að fara og fer sér þá að voða. Þetta er í raun tvíeggjað sverð, hvort það eigi að hafa opið eða lokað, því í sumum tilfellum getur verið hættulegra að hafa lokað. Fólk fer þá að reyna að fara einhverjar krókaleiðir eða bakdyraleiðir að þessu sem eru þá mun glæfralegri.“