Guðný Steinsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 23. mars 1938. Hún lést 6. júlí 2023 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum.

Foreldrar Gunnýjar voru Lilja Sigurðardóttir frá Pétursborg, f. 17. mars 1912, d. 12. mars 1989, og Steinn Einarsson, f. 11. apríl 1914, d. 24. desember 1986. Stjúpfaðir Gunnýjar var Magnús Jónsson frá Seljavöllum undir Eyjafjöllum, f. 7. ágúst 1909, d. 12. des. 1988. Gunný var elst í sínum systkinahópi. Systkini Gunnýjar sammæðra: Sigríður Magnúsdóttir, f. 9. okt. 1945, Arngrímur Magnússon, f. 24. sept. 1950, Sigurður Ingibergur Magnússon, f. 15. sept. 1956, d. 25. sept. 1976. Systkini samfeðra: Halldóra Ævarr Steinsdóttir, f. 6. mars 1939, Skúli Ævarr Steinsson, f. 7. des. 1941, Ingibjörg Ævarr Steinsdóttir, f. 2. apríl 1953.

Þann 31. desember 1958 giftist Gunný eftirlifandi eiginmanni sínum, Richard Sighvatssyni, f. 10. janúar 1937, faðir var Sighvatur Bjarnason og móðir var Guðmunda Torfadóttir frá Ási í Vestmannaeyjum. Börn þeirra eru: 1) Lilja, f. 18. júní 1956, börn hennar eru: a) Tryggvi Guðmundsson, b) Gunný Gunnlaugsdóttir, c) Þorfinnur Gunnlaugsson. 2) Guðmundur, f. 28. júní 1960, maki Dröfn Gísladóttir, f. 1963, börn þeirra: a) Guðlaug Arnþrúður, b) Birna Dögg, c) Guðný Ósk. 3) Magnea, f. 13. des. 1961, börn hennar: a) Richard Bjarki Guðmundsson, b) Lilja Dröfn Kristinsdóttir, c) Guðbjörg Ósk Ómarsdóttir, d) Vigdís Þóra Ómarsdóttir. 4) Sigurður Bjarni, f. 26. jún. 1967, maki Hulda Margrét Þorláksdóttir, f. 2. des. 1975, börn hans: a) Richard Sæþór, b) Sigríður Lilja, c) Thelma Lind. 5) Erlingur Birgir, f. 19. sept. 1972, maki Vigdís Sigurðardóttir, f. 1973, börn þeirra: a) Sandra, b) Elmar, c) Andri. 6) Arnar, f. 23. okt. 1973, maki Elfa Ágústa Magnúsdóttir, f. 1974, barn þeirra Arnar Berg, fyrir á Elfa Magnús Karl Magnússon. Barnsmóðir Arnars var Kristbjörg Oddný Þórðardóttir, f. 9. okt. 1975, d. 4. jan. 1999, börn þeirra: a) Bertha María, b) Þóra Guðný. Langömmubörnin eru orðin 23 og eitt langalangömmubarn.

Gunný og Rikki hófu sambúð á Hásteinsvegi 58 á meðan þau byggðu heimili sitt við Brekkugötu 11 þar sem þau bjuggu lengst af í sinni sambúð, þangað fluttu þau árið 1966.

Árið 1973 fluttu þau í Kópavoginn vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og bjuggu þar til 8. janúar 1974 þegar þau fluttu aftur á Brekkugötuna. Frá árinu 1993 eyddu þau löngum stundum í húsi sínu Casa Gunný á Spáni.

Gunný vann lengst af við verslunarstörf og var félagi í slysavarnafélaginu Eykyndli.

Útför Guðnýjar fór fram í kyrrþey.

Elsku, elsku amma, ég er enn að átta mig á því að þú sért farin frá okkur fyrir fullt og allt. Hér sit ég eftir með skemmtilegar, góðar og fallegar minningar.

Amma var alveg einstök kona. Það fór aldrei framhjá neinum þegar amma mætti á svæðið í hælaskónum sínum með rauða varalitinn. Ömmu fylgdi alltaf mikil umhyggja og ást og eftir erfiða daga var alltaf gott að kíkja í heimsókn til ömmu sem lét mig sko vita hvað ég væri æðisleg og hvað hún væri ofur stolt af mér. Amma var algjör fegurðardrottning, elskaði að líta vel út, klæða sig í flott föt og flotta hælaskó. Við frænkurnar elskuðum að fara í heimsókn til ömmu og kíkja aðeins í fataskápinn hennar, klæða okkur upp og mála okkur eins og amma. 23 árum seinna var amma ennþá að kíkja aðeins í fataskápinn sinn og sjá hvort hún ætti ekki eitthvað gamalt sem ég gæti notað. Í fyrra gaf hún mér fötin sem hún var í brúðkaupi mömmu og pabba. Drapplitaðar buxur og glimmer bolur alveg ömmu í anda! Ég hlakka til að nota þetta fallega sett og mun ég setja upp rauðan varalit til heiðurs þér, elsku amma.

Þegar amma var „ung amma“ reykti hún. Við frænkurnar sáum auðvitað ekki sólina fyrir henni ömmu og einn daginn þegar mamma kíkti inn í herbergi þá sátum við frænkurnar í mömmó að reykja trélitina okkar eins og „amma gerir“.

Í seinni tíð hefur mér oft verið líkt mikið við ömmu. Tvær konur sem láta mikið fyrir sér fara, svolítið háværar, smá brussur og stjórnsamar. Ég mun því halda minningu þinni lifandi, elsku amma, með því að halda áfram að líkjast þér og vona ég innilega að ég verði þeirrar gæfu aðnjótandi einn daginn að verða eins yndisleg amma og þú varst.

Síðustu mánuðir voru erfiðir fyrir elsku ömmu og skildi enginn læknir eða hjúkka úr hverju amma Gunný væri eiginlega gerð. Ég man þegar ég heimsótti þig í sumar þá sagðirðu við mig; „Sandra mín, þú ert eins og ég, báðar litlar konur með ofurkrafta.“ Ég ætla að halda áfram að lifa lífinu og reyna vera jafn mikil ofurkona eins og þú.

Þegar ég kom í heimsókn til ömmu og afa var bakkelsið alltaf komið á borðið og ef ég fékk mér ekki að borða horfði amma á mig sorgaraugum og spurði hvort ég væri virkilega bara ekkert svöng. Því var algjör regla að mæta svöng til ömmu! Þá sat hún glöð og horfði á mig borða kræsingarnar hennar og forvitnaðist um hvernig lífið gengi og dáðist að mér.

Með sorg í hjarta er kominn tími til að kveðja þig, elsku amma! Ég er óendanlega þakklát fyrir minningarnar okkar saman og allt sem ég fékk að upplifa þér við hlið og afa. Ég er þakklát fyrir þann góða tíma sem við fengum í sumar og í síðasta skiptið sem við kvöddumst, ég mun aldrei gleyma því þegar ég kvaddi þig í síðasta sinn. Þú kallaðir hátt á mig fram á gang og baðst mig um að koma inn aftur. Kysstir mig á kinnina og sagðist elska mig.

Ég mun sakna þess að heyra þig hrósa mér en ég veit þú ert uppi í draumalandi núna og horfir stolt niður á allt það sem þú hefur skilið eftir hér á jörðu. Við munum passa vel upp á afa fyrir þig, þín verður sárt saknað. Ég elska þig amma.

Sandra Erlingsdóttir.

Ég trúi ekki að þú sért farin, elsku amma mín, en þú fékkst hvíldina góðu eftir erfið veikindi. Það skein svo í gegn í þessum veikindum hvað þú varst ótrúlega mögnuð og einstök kona. Ákveðin og kraftmikill dugnaðarforkur en samt svo hjartahlý og góð.

Við eigum ótal minningar saman og hafið þið afi verið stór partur af mínu lífi, og þá sérstaklega í barnæsku minni. Þær minningar mun ég geyma í hjarta mínu að eilífu, það er svo gott að horfa til baka og hugsa um allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Er þakklát fyrir að hafa fengið það tækifæri að fara til ömmu í hádegismat þegar ég var villingur í grunnskóla. Alltaf beið amma í glugganum með kíkinn að bíða eftir mér, auðvitað varð ég að stríða ömmu aðeins og fór krókaleiðir svo hún myndi ekki sjá mig. Eftir matinn horfðum við svo á Nágranna og beint á eftir tóku Glæstar vonir við.

Amma passaði alltaf vel upp á að enginn færi svangur út frá henni, í mackintosh-dollum átti hún skúffukökur og hjónabandssælu. Það sem ég á eftir að sakna þess að koma í Hrauntúnið og engin amma til að taka á móti mér með „nei ert þú komin, nei hæ.“

Það var svo gott að geta setið hjá þér síðustu dagana og fá að halda í höndina á þér.

Takk fyrir að vera alltaf til staðar fyrir mig, takk fyrir að taka alltaf vel á móti mér og gefa mér bestu faðmlög í heimi. Á eftir að sakna þess að hlæja með þér, nærveru þinnar og hlýjustu faðmlaganna.

Ég vona að þið mamma passið vel hvor upp á aðra.

Elska þig.

Bertha María Arnarsdóttir.

Elsku besta amma Gunný. Nú hefur þú fengið þína hvíld eftir mikla baráttu, ótrúlega mögnuð sem þú varst allan þennan tíma, gleðin, húmorinn og lífsgleðin sem fylgdi þér alltaf elsku amma. Þegar ég hugsa til baka hversu mikill klettur þú varst fyrir mig og alla í kringum þig. Alltaf tilbúin að taka á móti fólki með bros á vör og hlýju.

Þú tókst alltaf svo vel á móti okkur Sigurði með krakkana þegar við komum til Eyja. Krakkarnir elskuðu að koma til þín og fá knúsin, hlýjuna og góðu kökurnar hennar ömmu Gunnýjar. Maður var nefnilega alltaf velkominn að koma í kræsingar og kökur til þín og þú alltaf jafn glæsileg með varalit, á hælunum og með fallega skartið þitt. Ég elska allar góðu minningarnar frá því ég var hjá ykkur þegar ég var yngri og var mikið hjá ykkur, hvort sem það var á Brekkugötunni, Heiðnaberginu eða Hrauntúninu.

Við áttum einstakt samband og þú elskaðir þegar ég hringdi reglulega til að fá uppskriftir hjá þér og við hlógum svo mikið og elskuðum að heyra hvor í annarri. Í mínum huga varst þú gullkonan mín og mikil fyrirmynd.

Við eigum svo óteljandi góðar minningar um þig og mun ég geyma þær af öllu hjarta. Takk fyrir allt og að vera alltaf svona yndisleg við mig og mína fjölskyldu, elsku amma Gunný.

Mikill sælkeri þú varst gullkonan mín,

þínar kræsingar biðu í dollum.

Ég hlakkaði mikið að koma til þín,

og kaffið klárt í öllum bollum.

(Lilja Dröfn)

Lilja Dröfn Kristinsdóttir.