— Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Dýraverndarsamband Íslands fer fram á tafarlausa stöðvun blóðtöku úr fylfullum hryssum og að öll þau tilvik þar sem hryssa drapst í tengslum við blóðtöku í fyrrasumar verði rannsökuð og viðbrögð við þeim í samræmi við lög

Dýraverndarsamband Íslands fer fram á tafarlausa stöðvun blóðtöku úr fylfullum hryssum og að öll þau tilvik þar sem hryssa drapst í tengslum við blóðtöku í fyrrasumar verði rannsökuð og viðbrögð við þeim í samræmi við lög.

Sambandið sendi í gær frá sér yfirlýsingu í tilefni upplýsinga frá MAST um að átta fylfullar hryssur hafi drepist í tengslum við blóðtöku í fyrrasumar. Ástæða þessa sé talin vera reynsluleysi þeirra erlendu dýralækna sem framkvæmdu blóðtökuna á vegum fyrirtækisins Ísteka ehf.

Dýraverndarsambandi Íslands (DÍS) hafa borist áreiðanlegar upplýsingar um að mun fleiri hryssur hafi drepist í tengslum við blóðtöku í fyrra. Á að minnsta kosti 10 bæjum hafi ein hryssa eða fleiri drepist í tengslum við blóðtöku og á einum af þessum 10 bæjum fjórar hryssur,“ segir m.a. í yfirlýsingu DÍS.

Þá segist DÍS hafa fengið ábendingu um að hryssa hafi óvart verið stungin í gegnum barka af óreyndum dýralækni í fyrrasumar.