Þrátt fyrir fjölda ferðamanna er rekstur ferðaþjónustufyrirtækja snúinn

Eftir miklar launahækkanir hér á landi á undanförnum árum, ólíkt því sem þekkist víðast annars staðar, á fjöldi fyrirtækja og margir geirar atvinnulífsins í erfiðleikum. Þetta má meðal annars sjá í viðtali ViðskiptaMoggans í gær við Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar. Hún rifjar upp að mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafi átt erfitt uppdráttar eftir kórónuveirufaraldurinn en segir greinina í heild hafa náð vopnum sínum. Mörg fyrirtæki séu þó enn skuldsett og að fást við afleiðingarnar og eigi því erfitt uppdráttar.

Hún er engu að síður bjartsýn um framhaldið og telur að arðsemi fari vaxandi. En hún hefur áhyggjur af launakostnaðinum og launaþróuninni. Tækifærin í greininni séu mörg en íslenska vinnumarkaðsmódelið skapi vandamál fyrir greinina. „Óstöðugleiki og ófriður á vinnumarkaði undanfarin ár hefur verið mikil áskorun. Vinnumarkaðsmódelið okkar og þessi hái launakostaður íþyngir mörgum fyrirtækjum í greininni. Við erum með starfsemi allan sólarhringinn og allan ársins hring. Dagvinnutíminn er styttri hér en alls staðar annars staðar og við erum að borga yfirvinnu fyrr á daginn og fleiri helgidaga en annars staðar. Þetta hefur reynst ferðaþjónustunni mjög erfitt og sérstaklega fyrirtækjum í veitingageiranum.“

Bjarnheiður bætir því við að ekkert svigrúm sé fyrir launahækkanir: „Þar komum við líka að samkeppnishæfninni. Því hvað sem hver segir þá fer launakostnaðurinn beint út í verðlagið. Þó það sé til fólk sem neitar að horfast í augu við þá staðreynd.“

Ferðaþjónustan er orðin mikilvæg atvinnugrein, ekki síst þegar horft er til útflutningstekna. Full ástæða er til að hlusta á slíkar ábendingar í stað þess að reyna að hafna staðreyndum.