Saklaus Kviðdómur úrskurðaði Spacey saklausan í London í gær.
Saklaus Kviðdómur úrskurðaði Spacey saklausan í London í gær. — AFP/Henry Nicholls
Leikarinn heimskunni, Kevin Spacey, grét í dómsal Southwark Crown í London í gær þegar kviðdómur þar sýknaði hann af ákæru fyrir níu kynferðisbrot gagnvart fjórum karlmönnum árabilið 2001 til 2013. Tók kviðdómurinn sér rúmar tólf klukkustundir til…

Leikarinn heimskunni, Kevin Spacey, grét í dómsal Southwark Crown í London í gær þegar kviðdómur þar sýknaði hann af ákæru fyrir níu kynferðisbrot gagnvart fjórum karlmönnum árabilið 2001 til 2013.

Tók kviðdómurinn sér rúmar tólf klukkustundir til að komast að niðurstöðu og þakkaði Spacey kviðdómendum af innileika í stuttu ávarpi sem leikarinn flutti. Kvaðst Spacey fullur auðmýktar er hann ræddi við fjölmiðla fyrir utan dómhúsið.

Ákæruvaldið bar Spacey á brýn að hafa ráðist kynferðislega að fórnarlömbum sínum alls sjö sinnum auk þess að viðhafa kynferðislegar athafnir með einu þeirra og hafa kynmök við annað, einnig án samþykkis. Spacey lagði hönd á hjartastað þegar formaður kviðdómsins kynnti niðurstöðuna og myndaði orðin „ég þakka ykkur“ hljóðlaust með vörunum.

„Mig langar til að geta þakklætis míns í garð kviðdómsins fyrir að gefa sér tíma til að fara af kostgæfni yfir öll sönnunargögn málsins og staðreyndir áður en komist var að niðurstöðu,“ sagði Spacey við fjölmiðla í gær.

„Ég er fullur auðmýktar og mig langar einnig til að þakka starfsfólki réttarins, þeim sem önnuðust öryggisgæslu og öllum þeim sem sinntu okkur hvern einasta dag,“ sagði Spacey sem varð 64 ára gamall í gær, fæddur 26. júlí 1959.

Leikarinn, sem rekur ættir sínar og uppruna til New Jersey, hefur hlotið tvenn Óskarsverðlaun um dagana, Tony-verðlaun, BAFTA-verðlaun og fleiri. Meðal margra hlutverka hans í kvikmyndum er hann eftirminnilegur sem raðmorðinginn í spennumyndinni Seven frá 1995 þar sem hann refsaði samborgurum sínum fyrir dauðasyndirnar sjö en ein þeirra er losti – einmitt kveikjan að ákærunni sem Spacey var sýknaður af í gær. atlisteinn@mbl.is