Heræfingar Úkraínskir þjóðvarðliðar sjást hér við skotæfingar í Karkív-héraði í gær. Úkraínumenn reyna nú að sækja fram í suðri og austri.
Heræfingar Úkraínskir þjóðvarðliðar sjást hér við skotæfingar í Karkív-héraði í gær. Úkraínumenn reyna nú að sækja fram í suðri og austri. — AFP/Sergey Bobok
Úkraínumenn reyndu að sækja fram í gær í suður- og austurhéruðum landsins. Sagði rússneska varnarmálaráðuneytið að Úkraínuher hefði reynt stóra árás í nágrenni við Orikhív í Saporísja-héraði. Tóku þrjú herfylki þátt í árásinni með aðstoð skriðdreka að sögn Rússa, sem sögðust hafa hrundið áhlaupinu

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínumenn reyndu að sækja fram í gær í suður- og austurhéruðum landsins. Sagði rússneska varnarmálaráðuneytið að Úkraínuher hefði reynt stóra árás í nágrenni við Orikhív í Saporísja-héraði. Tóku þrjú herfylki þátt í árásinni með aðstoð skriðdreka að sögn Rússa, sem sögðust hafa hrundið áhlaupinu.

Hanna Maljar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, sagði hins vegar í gær að Úkraínuher hefði náð nokkrum árangri í aðgerðum sínum í Saporísja-héraði og væri að sækja fram hægt og bítandi.

Sagði Maljar jafnframt að sókn Úkraínumanna sunnan við borgina Bakhmút í Donetsk-héraði hefði einnig skilað árangri. Sagði hún að hersveitir óvinarins reyndu að halda dauðahaldi í sérhvern metra af hernumdu svæðunum, og að því fylgdi hörð mótspyrna, en jafnframt mikið mannfall af hálfu Rússa.

Rússneskir herbloggarar sögðu fyrr í vikunni að Úkraínumenn hefðu náð að brjótast í gegnum varnir Rússa við þorpið Klisjtsjívka, sem er í nágrenni við Bakhmút, og væru þar með að reyna að skera á birgðalínu Rússa inn í borgina.

Fordæma aðgerðir Rússa

Atlantshafsbandalagið, NATO, fordæmdi í gær aðgerðir Rússa á Svartahafi til þess að stöðva útflutning Úkraínumanna á korni og öðrum matvælum, sem kæmu niður á milljónum manna um víða veröld.

Fulltrúar bandalagsins funduðu með Úkraínumönnum í gær á vettvangi NATO-Úkraínuráðsins sem stofnað var á leiðtogafundi bandalagsins í Vilníus fyrr í júlí. Sagði í tilkynningu bandalagsins eftir fundinn að efnahagslögsaga Búlgaríu væri innan þess svæðis þar sem Rússar hafa varað við skipaferðum á Svartahafi, og byði það upp á stigmögnun og að menn misreiknuðu sig.

Bandalagið sagðist jafnframt ætla að bæta í eftirlit sitt á Svartahafi. Breska varnarmálaráðuneytið sagði í gær útlit fyrir að Rússar ætluðu sér að framfylgja algjöru hafnbanni á Úkraínu, þar sem korvettan Sergey Kotov hefði tekið sér stöðu við skipaleiðir.