Gilgo-strönd Yfir 11 lík hafa fundist nálægt Gilgo-strönd frá árinu 2010. Heuermann er ákærður fyrir morð á þremur konum sem fundust þar.
Gilgo-strönd Yfir 11 lík hafa fundist nálægt Gilgo-strönd frá árinu 2010. Heuermann er ákærður fyrir morð á þremur konum sem fundust þar. — Ljósmynd/AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lögreglan í Suffolk-héraði í New York-ríki Bandaríkjanna hefur lokið við tæplega tveggja vikna húsleit á heimili Rex Heuermanns arkitekts sem talinn er vera „Long Island-raðmorðinginn“ en hann hefur verið ákærður fyrir morð á þremur ungum konum

Baksvið

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Lögreglan í Suffolk-héraði í New York-ríki Bandaríkjanna hefur lokið við tæplega tveggja vikna húsleit á heimili Rex Heuermanns arkitekts sem talinn er vera „Long Island-raðmorðinginn“ en hann hefur verið ákærður fyrir morð á þremur ungum konum. Heuermann á íslenska eiginkonu og tvö börn.

Fjórar konur á þrítugsaldri

Vændiskonurnar Melissa Berthelemy, Megan Waterman, Amber Costello og Maureen Brainard-Barnes hurfu allar á árunum 2007-2010. Allar voru þær á þrítugsaldri. Líkamsleifar kvennanna fjögurra fundust árið 2010 þegar lögreglan var við leit að annarri vændiskonu, Shannan Gilbert. Gilbert hafði hringt í lögregluna eitt kvöldið er hún flúði heimili eins viðskiptavinar. „Þau eru að reyna að drepa mig,“ sagði hún í símtali við neyðarlínu Bandaríkjanna í mars árið 2010.

Leitin að Gilbert varði í langan tíma. Í desember 2019 voru lögregluþjónninn John Mallia og hundurinn Blue að leita meðfram hraðbraut nálægt Gilgo-ströndinni þegar Blue fann skyndilega lykt sem hann rakti að strigapoka. Í pokanum var rotin beinagrind Melissu Berthelemys, sem hafði horfið árið 2007. Við nánari leit á vettvangi fundust einnig líkamsleifar Waterman, Costello og Brainard, allar innan við 200 metra frá líki Berthelenys. Voru konurnar kallaðar „The Gilgo four“ og gerði Netflix heimildarmynd um málið sem nefnist Lost Girls. Lík Gilbert kom hins vegar ekki í leitirnar fyrr en ári og hálfu síðar.

Sönnunargögn á pítsukassa

Rex Heuermann hefur nú verið ákærður fyrir morðin á Barthelemy, Waterman og Costello en er einnig grunaður um að myrða Brainard-Barnes, þó ákæra hafi ekki enn verið gefin út. Neitaði hann öllum sakargiftum þegar hann kom fyrir dómara sl. föstudag. Fyrir dómi var opinberað að lykilsönnunargagnið í málinu hefði fundist í ruslatunnu fyrir utan vinnustað Heuermanns í janúar, en það var pítsukassi sem Heuermann hafði hent. Rannsakendur tóku sýni úr pítsuskorpunni sem var afgangs og fundu þar örfínt hár úr sama efni og hafði verið notað til þess að tjóðra eina kvennanna. Auk þess fannst belti á vettvangi sem var talið tengjast líkfundunum. Var þá leitað í tölvunni hans og fannst þar leitarsaga hans sem einkenndist af leit að barnaklámi, ofbeldisfullu klámi og annars konar ógeðfelldu efni.

Heuermann er einnig sagður hafa notað sérstakan órekjanlegan farsíma til þess að hafa samband við vændiskonur á árunum 2021 til 2023.

Íslensk eiginkona sótt um skilnað

Talið er mögulegt að Heuermann hafi myrt konurnar á heimili sínu sem hann deildi með eiginkonu sinni, Ásu Guðbjörgu Ellerup, og tveimur uppkomnum börnum þeirra. Á fórnarlömbunum fannst jafnvel hár úr Ásu en hún er ekki grunuð um aðkomu að morðunum. Hefur hún staðfestar fjarvistarsannanir og var til að mynda stödd á Íslandi þegar eitt morðanna var framið. Talið er að hárin skýrist meðal annars af því að búnaður sem Heuermann notaði hafi verið geymdur á heimili þeirra.

Ása hefur þegar sótt um skilnað frá eiginmanni sínum en hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið. Fjölskyldan er ekki talin hafa vitað af tvöföldu lífi Heuermanns.

Fjölskyldumaður

„Djöfull meðal manna“

Rex Heuermann er arkitekt, 59 ára að aldri. Hann fæddist á Long Island og hefur búið þar nánast allt sitt líf. Hins vegar hefur hann unnið í Manhattan í New York frá árinu 1987. Hann stofnaði sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki árið 1994, RH Consultants & Associates. Ása og Heuermann hafa verið gift í 27 ár. Jóhanna, hálfsystir Ásu, hefur sagt við bandaríska fjölmiðilinn NBC að Ása sé að ganga í gegnum „einstaklega erfitt tímabil“. Einn nágranni fjölskyldunnar sagði við The New York Post að Heuermann liti út eins og „venjulegur maður sem átti fjölskyldu og fór í vinnuna“. Rodney Harrison, lögreglustjóri í Suffolk-héraði, telur að hann sé „djöfull sem gengur meðal okkar. Rándýr sem rústar fjölskyldum.“