Horft yfir salinn Frá vinstri eru „Ganga“, „Haust 1“, „Fimm fiskar“ og „Par“, allar vatnslitir á pappír 2022.
Horft yfir salinn Frá vinstri eru „Ganga“, „Haust 1“, „Fimm fiskar“ og „Par“, allar vatnslitir á pappír 2022. — Ljósmyndir/Hlynur Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Listasafn Íslands Fram fjörðinn, seint um haust ★★★½· Sigtryggur Bjarni Baldvinsson sýnir. Verkefnastjórn sýningar: Vigdís Rún Jónsdóttir. Textar: Sigtryggur Bjarni Baldvinsson og Vigdís Rún Jónsdóttir. Sýningin var opnuð 20. maí og stendur til 27. ágúst 2023. Opið alla daga milli kl. 10 og 17.

Myndlist

Hlynur

Helgason

Sigtryggur Bjarni Baldvinsson sýnir nú í Listasafni Íslands verk unnin á síðasta ári. Á sýningunni má greina nýjar áherslur í listsköpun Sigtryggs, þar sem gætir meiri áhrifa tilfinninga og tilbrigða í verkunum en við eigum að venjast í verkum hans. Verkin á sýningunni eru allt stórar vatnslitamyndir, tvær ólíkar myndaraðir sem byggjast báðar á umhverfisskoðun listamannsins á ferðum hans um Héðinsfjörð á Tröllaskaga. Í annarri röðinni, sem telur tíu myndir, er sjónum beint að sölnuðum gróðri sem eins og stendur upp úr snjóbreiðu að hausti. Hinar fjórar myndirnar eru tilbrigði við fiska sem synda fyrir ofan steinvölur í árbotni.

Sigtryggur hefur verið virkur þátttakandi í íslenskum myndlistarheimi í þrjá áratugi, allt frá því hann kom heim úr námi frá Frakklandi árið 1995. Stíll hans hefur frá upphafi verið persónulegur og byggist á raunsæislegum málverkum sem unnin eru upp úr ljósmyndum sem listamaðurinn tekur sjálfur. Hann hefur unnið mest í olíu og vatnsliti og nýtir báða miðla til að byggja upp vandvirknislega útfærða fleti sem líta út fyrir að vera ofurraunsæir og fylgja smáatriðum náttúrunnar sem er fyrirmynd verkanna. Einkenni mynda Sigtryggs er hversu fínlegar þær eru og nostursamlega gerðar. Myndefnið er alltaf náttúran og ferli hennar; Sigtryggur málar ekki landslag sem slíkt heldur skoðar náið þau mynstur og þá endurtekningu sem finna má í umhverfinu, atriði sem hann einangrar og nýtir við myndsköpunina. Verkin byggjast á reglulegri flataruppbyggingu og takmörkuðu rými, þar sem endurteknir sveipir, ólga, bylgjur eða greinar skapa afmarkaðan formheim endurtekningar og samræmis. Þó myndirnar virki nákvæmar og beri með sér yfirbragð ljósmyndaraunsæis þá eru þær við nánari skoðun heildstæðar flatarmyndir, sem eiga sér jafnvel samsvörun í flatarmálverkum abstrakt expressjónista eins og Marks Rothkos eða Jacksons Pollocks.

Sigtryggur segist sjálfur vera undir áhrifum frá rómantískum listamönum fyrri tíma, sem sneru baki við nútímasýn iðnbyltingarinnar og borgarhugsun. Eins og þeir hefur hann snúið til baka í sveitina, til þess að skoða náttúruna náið og af virðingu. Fjarri skarkalanum leitar hann í Héðinsfjörð, gengur um fjörðinn og dalina með ljósmyndavél um öxl og skoðar og greinir það sem fyrir augu ber. Það er á grundvelli þessa efniviðar sem hann vinnur myndir sínar.

Að sönnu má sjá samsömun á milli hugmynda Sigtryggs og Hrings Jóhannessonar, sem var í forsvari fyrir endurreisn raunsæisteikningar og -málverks á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Hann, líkt og Sigtryggur, skoðaði umhverfi sitt í Aðaldal og byggði upp sterkar og einfaldar myndheildir út frá því sem hann sá og greindi í sveitinni og náttúrunni.

Á þessari sýningu Sigtryggs er það Héðinsfjörðurinn sem er í forgrunni. Það eru þó stærri spurningar sem liggja verkunum til grundvallar. Sigtryggur segir að þar sé honum hugleikið ástand heimsins og staða náttúrunnar og lífríkisins. Þannig má á honum skilja að myndirnar séu að sumu leyti harmrænar myndlíkingar, fremur en einföld tilraun til að skoða náttúruna. Haustið og snemmkominn snjórinn sem hylur sölnandi gróðurinn annars vegar og andlitslausir og óaðgreinanlegir fiskarnir í ánni hins vegar, eru því viðvörun sem vekur hugboð um mögulegan hamfaravetur fram undan.

Þessar hugmyndir virka best í gróðurmyndunum. Þar birtist skýrast í meðförum Sigtryggs harmþunginn tregi og samúð með náttúrunni sem vísað er til. Þetta eru myndir sem túlka vel viðkvæma náttúru sem er ógnað. Í þeim er vatnslitum beitt af tilfinningu og næmi til að lýsa viðkvæmri stöðu náttúrunnar og fallvaltleika hennar. Það er mikilvægt hve ólíkar myndirnar innan myndaraðarinnar eru að gerð. Í sumum byggir Sigtryggur upp fléttumynstur stráa og sprota, líkt og oft áður. Þetta skapar línuspil og krúsidúllur sem kallast á við blómafléttur miðaldalistar. Í öðrum myndum er myndbyggingin einfaldari og raunsæislegri, þannig að einstakar áherslur blæbrigða og línubeitingar hljóta meira vægi, bæði í túlkun plantnanna og í flæðandi tónum sem túlka snjóinn. Það er þessi leikur með tjáningu og tilbrigði sem er styrkur þessara mynda. Hér ganga tilraunirnar upp og Sigtryggur þróar listtjáningu sína á áhugaverðan hátt. Fiskamyndirnar eru byggðar á öðrum forsendum. Þar er fínlega unnið með nákvæma túlkun ótal steinvalna og fiskaformin notuð sem tilbrigði. Þessar myndir eru hver um sig áhugaverðar tilraunir með form. Þær skortir hins vegar hinn sterka heildarsvip sem plöntumyndirnar hafa. Að því leyti stinga þær því miður nokkuð í stúf á sýningunni.