Stórleikur Cillian Murphy leikur O.H.
Stórleikur Cillian Murphy leikur O.H. — Ljósmynd/Universal Pictures
„Ég er orðinn dauðinn sjálfur, sá sem eyðir veröldum.“ Þessi fleygu orð mælti Julius Robert Oppenheimer, sem nefndur hefur verið „faðir atómsprengjunnar“, þegar eyðingarmáttur sprengjunnar kom í ljós

Magnús Geir Kjartansson

„Ég er orðinn dauðinn sjálfur, sá sem eyðir veröldum.“ Þessi fleygu orð mælti Julius Robert Oppenheimer, sem nefndur hefur verið „faðir atómsprengjunnar“, þegar eyðingarmáttur sprengjunnar kom í ljós.

Kvikmyndin Oppenheimer, sem er leikstýrt af Christopher Nolan, var frumsýnd síðustu helgi, en hún fjallar einmitt um sögu Oppenheimers og aðkomu hans að þróun fyrstu kjarnorkusprengjunnar.

Undirrituðum þykir ákveðinn punktur í myndinni vera sérstaklega áhugaverður. Sá punktur snýr að sannsögulegum vangaveltum þeirra sem smíðuðu sprengjuna um að virkjun hennar gæti kveikt óviðráðanlega keðjuverkun í köfnunarefnisatómum lofthjúpsins, sem gæti ef til vill umbreytt jörðinni í eins konar eldbolta. Líkurnar á því að sú keðjuverkun gæti átt sér stað og eytt lífi á jörðinni eru í stuttu máli það agnarsmáar að menn hafa almennt ekki áhyggjur af því. Oppenheimer sjálfur taldi hins vegar að notkun fyrstu kjarnorkusprengjunnar gæti leyst aðra jafn hættulega keðjuverkun úr læðingi, sem hann taldi mun líklegri en þá fyrri til að eyða lífi á jörðinni. Oppenheimer var auðvitað að segja fyrir um kjarnorkuvopnakapphlaup mannkynsins.