Starfslok Sæferðir koma til með að sigla Baldri fram í miðjan október.
Starfslok Sæferðir koma til með að sigla Baldri fram í miðjan október. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Öllum 22 starfsmönnum Sæferða í Stykkishólmi, sem reka Breiðafjarðarferjuna Baldur, hefur verið sagt upp störfum þar sem óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur. Sæferðir reyndust vera eini þátttakandinn í útboði Vegagerðarinnar vegna reksturs nýrrar ferju á Breiðafirði að nafni Röst

Öllum 22 starfsmönnum Sæferða í Stykkishólmi, sem reka Breiðafjarðarferjuna Baldur, hefur verið sagt upp störfum þar sem óvissa ríkir um áframhaldandi rekstur. Sæferðir reyndust vera eini þátttakandinn í útboði Vegagerðarinnar vegna reksturs nýrrar ferju á Breiðafirði að nafni Röst. Óvíst er að samningar náist um rekstur nýju ferjunnar þar sem tilboð Sæferða var yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Í tilkynningu frá Sæferðum kom fram að gert væri ráð fyrir að í hönd færu samningaviðræður við Vegagerðina um rekstur á Breiðafjarðarferju fyrir árin 2023-2026, með möguleika á framlengingu allt að tvisvar, í eitt ár í senn.

Sá samningur fæli í sér sérleyfi fyrir Vegagerðina til að annast fólks-, bifreiða- og vöruflutninga á milli Stykkishólms og Brjánslækjar, með viðkomu í Flatey. Sæferðir sigla Baldri fram til 15. október næstkomandi.

„Félaginu þykir afar leitt að þurfa að grípa til þessara uppsagna enda vinnur frábær hópur starfsfólks hjá Sæferðum sem margt hefur starfað hjá félaginu um langt skeið. Ferjureksturinn er grundvöllurinn fyrir tilvist fyrirtækisins og við höfum enn þá ekkert í hendi um að hann verði áfram hjá okkur,“ er haft eftir Jóhönnu Ósk Halldórsdóttur framkvæmdastjóra Sæferða. Jóhanna sagði í samtali við mbl.is aðdragandann hafa verið langan enda hefði fyrirtækið beðið eftir birtingu útboðsins mjög lengi. Aðspurð segir hún vissulega þungt að þurfa að greina starfsfólkinu frá stöðunni á starfsmannafundi. Hún telji að margir hafi verið meðvitaðir um að eitthvað slíkt væri í vændum og fregnirnar því ekki komið öllum á óvart

Minnir hún á að ný ferja taki til starfa í október og því þurfi áfram að manna hana hver sem rekstraraðilinn verði. Hún bindi því vonir við að flestir ef ekki allir fái starf um borð í henni, en hún telur það líklegra en ekki. Aðspurð hvort hún telji líklegt að allir starfsmenn myndu samþykkja boð um starf á nýju ferjunni kveðst hún gera fastlega ráð fyrir því. Hún segir þó óvissu enn ríkja um samninginn við Vegagerðina sem muni gefa sér tíma fram að 8. september til að taka afstöðu til tilboðsins.