Valtýr Sigurðsson
Valtýr Sigurðsson
„Ert þú hér með leystur frá starfi þínu sem settur ríkisendurskoðandi.“

Valtýr Sigurðsson

„Mín hlið, þín hlið og svo sannleikurinn.“ Þessi orð viðhafði á sínum tíma sá mikli athafnamaður í Keflavík, Jósafat Arngrímsson, þegar hann hélt varnarræður sínar og lagði út frá því að menn ættu að fara varlega í að dæma fyrir fram enda væru nokkrar hliðar á hverju máli. Þetta er gott svo langt sem það nær en getur sannleikurinn í reynd haft margar hliðar?

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi stimplaði sig rækilega inn þegar hann tilkynnti alþjóð fyrir nokkru að skýrsla hans í Íslandsbankamálinu, sem var enn í smíðum, myndi „vekja athygli“. Síðan þá hefur ríkisendurskoðandinn ekki þurft að tilkynna um slíkar forsýningar þar sem menn bíða spenntir í hvert sinn sem hann tjáir sig.

Guðmundur Björgvin brást ekki í þættinum Sprengisandi á dögunum þar sem hann lét hvert gullkornið af öðru falla. Var auðheyrt að hann var ekki í neinum vandræðum með að meðhöndla sannleikann. Meðal annars fullyrti hann að umboð setts ríkisendurskoðanda, Sigurðar Þórðarsonar, í Lindarhvolsmálinu hefði fallið niður 1. maí 2018, um leið og Skúli Eggert Þórðarson var skipaður ríkisendurskoðandi. Því væri greinargerð sú er Sigurður ritaði og skilaði nokkru síðar marklaust plagg og nánast refsivert að dreifa og kynna sér.

Með bréfi Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, dagsettu 10. ágúst 2018, til Sigurðar Þórðarsonar, eða tæpum þremur mánuðum eftir skipun Skúla Eggerts, staðfesti forseti Alþingis móttöku greinargerðar Sigurðar og þakkaði honum fyrir unnið starf. Í bréfinu segir svo: „Ert þú hér með leystur frá starfi þínu sem settur ríkisendurskoðandi.“ Að sjálfsögðu var bréfið undirritað af Steingrími J. Sigfússyni en ekki Skúla Eggerti Þórðarsyni sem fékk afrit til glöggvunar á stöðunni.

Það er umhugsunarvert út af fyrir sig og jafnvel áhyggjuefni að embættismaðurinn Guðmundur Björgvin skuli ekki skilja merkingu orða eins og „hér með“ eða kjósa að líta fram hjá bréfi þessu. Sem embættismaður í um fjóra áratugi hef ég þó það mikla trú á heiðarleika embættismanna að ég verð að láta Guðmund Björgvin njóta vafans og ætla að hann hafi ekki vitað af bréfi forseta Alþingis.

Höfundur er lögmaður og kom sem slíkur að Lindarhvolsmálinu í upphafi.

Höf.: Valtýr Sigurðsson