Inniköttur Rólyndisleg á svipinn og veiðihár vígaleg. Kisan læðist og er til alls líkleg, en er þó gæf inni við beinið.
Inniköttur Rólyndisleg á svipinn og veiðihár vígaleg. Kisan læðist og er til alls líkleg, en er þó gæf inni við beinið. — Morgunblaðið/Margrét Þóra
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Langt er síðan jafnmargir kettir hafa verið á vergangi á Akureyri og um þessar mundir. Ragnheiður Gunnarsdóttir, sem rekur Kisukot – kattaaðstoð á Akureyri, segir að kettir haldi sig í þó nokkrum mæli á þremur stöðum í bænum og fer hún á milli og gefur mat

Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

Langt er síðan jafnmargir kettir hafa verið á vergangi á Akureyri og um þessar mundir. Ragnheiður Gunnarsdóttir, sem rekur Kisukot – kattaaðstoð á Akureyri, segir að kettir haldi sig í þó nokkrum mæli á þremur stöðum í bænum og fer hún á milli og gefur mat. „Við vitum um ketti á þessum stöðum. Mér sýnist að flestir séu fyrrverandi heimiliskettir sem enginn gefur sig fram um að eiga. En það þarf að ná þeim,“ segir Ragnheiður.

Covid-kettir missa heimli sín

Eflaust eru ýmsar skýringar á því, að mati Ragnheiðar, hvers vegna svo margir kettir eru á vergangi nú, en alkunna er að margir fengu sér ketti í heimsfaraldrinum. Nokkuð er um að fólk hafi ekki úthald til að sinna gæludýrinu allan líftíma þess og hafi reynt að losa sig við það með margvíslegum hætti.

„Það er erfitt að segja hvort þetta megi allt skrifast á covid eða eitthvað annað. En covid-kettir eru svo sannarlega enn að missa heimili sín,“ segir Ragnheiður. Bætir við að algengt sé nú að fólk þurfi að láta frá sér gæludýr vegna reglna sem eigendur leiguhúsnæðis setja. Fæstir þeirra kæri sig um gæludýr. „Leigumarkaðurinn hjálpar ekki til,“ segir Ragnheiður sem hefur starfrækt Kisukot frá janúarmánuði 2012. Að jafnaði koma um 100 kettir við í Kisukoti tímabundið áður en þeim er fundið heimili. Á stundum fer talan upp í um 150 ketti.

Hár dýralæknakostnaður

Mikill kostnaður fylgir því að halda starfseminni úti, en sem dæmi hefur Ragnheiður greitt um 600 til 700 þúsund krónur á fyrri helmingi þessa árs, eingöngu í dýralæknakostnað. „Hingað hafa komið nokkur dýr og erfið tilvik undanfarna mánuði, tanntökur sem dæmi og margar blóðprufur kosta sitt,“ segir hún. Dýralæknakostnaður á ársgrundvelli er að jafnaði um eða yfir ein milljón króna og stærsti útgjaldaliður Kattakots. Þar á eftir koma kaup á sandi og mat.

Ragnheiður segist enn fremur reyna að halda kostnaði í lágmarki, meðal annars með því að kaupa í heildsölu allt sem hægt er. „Fljótt á litið giska ég á að bara sandurinn sem dæmi kosti ríflega hálfa milljón á ári,“ segir hún.

Kisukot fær styrki frá almenningi en oftast ekki mikið frá hverjum og einum. Margt mátt gerir þó eitt stórt. Ragnheiður nefnir þó að fyrir hafi komið að einn og einn hafi gaukað að henni 50 eða 100 þúsund krónum á einu bretti en það sé ekki algengt. Þá býður hún fólki að greiða árgjald sem rennur sem styrkur til starfseminnar og hafa um 100 manns skráð sig fyrir slíkum greiðslum. Nýlega bauð hún fólki einnig að styðja við starfsemina með því að greiða ákveðna upphæð mánaðarlega.

Óeigingjarnt starf

Rósa Líf Darradóttur hefur, fyrir hönd stjórnar Samtaka um dýravelferð á Íslandi, skorað á bæjarstjórn Akyreyrar að styðja við starfsemi Kisukots. „Við skorum á bæjarstjórn Akureyrar að styðja við það mikilvæga og óeigingjarna starf sem fer fram í Kisukoti. Það er mikil þörf fyrir þessa þjónustu. Mörg hundruð kisum hefur verið bjargað og það hefur kostað vinnu, tíma og fjármagn,“ segir Rósa Líf. Áframhaldandi starfsemi Kisukots sé því tvímælalaust Akureyrarbæ í hag. Hún bendir á að sveitarfélög hafi stutt sambærilega starfsemi og nefnir meðal annars Akranes sem dæmi, en sveitarfélagið útvegaði félaginu Villiköttum húsnæði þar. Mikilvægt sé að sveitarfélög láti til sín taka þegar kemur að velferð dýra.