Halla Hannesdóttir fæddist í Reykjavík 21. ágúst 1951. Hún lést á heimili sínu í Kópavogi 4. júlí 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Hannes Pálsson aðstoðarbankastjóri, f. 5. 10. 1920, d. 23.7. 2015, og Sigrún Helgadóttir, húsmóðir og ritari, f. 27.9. 1920, d. 28.5. 2015. Systkini Höllu eru Guðrún, f. 18.6. 1944, Kristín, f. 8.2. 1948, Páll, f. 7.12. 1956, og Pétur, f. 30.7. 1960. Halla var miðjubarnið og kveður nú fyrst úr systkinahópnum.

Hún giftist 30. apríl 1983 Vífli Magnússyni arkitekt, f. 17. desember 1938. Foreldrar hans voru Magnús Á. Árnason listamaður, f. 28.12. 1894, d. 13.8. 1980, og Barbara Moray Williams Árnason myndlistarkona, f. 19.4. 1911, d. 31.12. 1975. Höllu og Vífli varð ekki barna auðið en dætur Vífils af fyrra hjónabandi með Ágústu Sigfúsdóttur eru þær Valdís, f. 26.7. 1969, og Brynja, f. 13.4. 1973. Sonur Vífils og Margrétar Helgu Jóhannsdóttur er Valur, f. 2.9. 1956.

Halla óx úr grasi í samfélagi barnmargra fjölskyldna í Vogahverfinu í Reykjavík þar sem sænsku húsin, sem svo voru nefnd, risu á fyrstu eftirstríðsárunum. Hún gekk í Vogaskólann og síðan lá leiðin í Menntaskólann í Hamrahlíð þaðan sem hún lauk stúdentsprófi vorið 1971. Þá um haustið hélt hún til háskólanáms í Lundi í Svíþjóð þar sem hún lagði stund á nám í sjúkraþjálfun. Eftir útskrift þaðan hóf hún störf á Landspítalanum þar sem hún átti farsælan starfsferil um nokkurra ára skeið en þegar þau Vífill hófu búskap kom hún til starfa á teiknistofu hans og dreif sig af því tilefni í nám í tækniteiknun. Hún starfaði síðan við hlið eiginmanns síns á teiknistofu hans á Kársnesbraut í nálægt því fjóra áratugi.

Minningarathöfn um Höllu verður haldin í safnaðarheimili Kópavogskirkju, Borgum, Hábraut 1a í dag, 27. júlí 2023, kl. 15.

Allt líf er bruni. Halla systir var mér ákaflega kær. Hún var stóra systir, fyrirmyndin og sú sem ég hlustaði alltaf á. Hún var töff og hún var kúl og hún var viðkvæm tilfinningamanneskja. Hún hafði sitt á hreinu og stóð með sínum. Sama hvað. Halla fylgdi hjartanu og ekki hjörðinni.

Halla Þuríður Hannesdóttir var gegnheil. Hún var fagurkeri með eigin stíl, nákvæm og opin. Alltaf smart, engin tilviljun, aldrei stíf. Geislandi falleg. Kenndi mér sem unglingi að meta soul-tónlist, sem var hluti af hennar lífsstíl. Tilfinningar og hrynjandi. Fordómalaus gagnvart ókunnugum og frábær dansari. Valdi sér vini út frá mannkostum og var lítið umburðarlynd gagnvart þeim sem skorti þá.

Halla var mjög hænd að börnum og þau að henni. Heilu kisturnar af leikföngum voru opnaðar þegar börn komu í heimsókn. Fordómaleysi, forvitni og lífsgleði barna og samkennd hennar með þeim sem á einhvern hátt voru minnimáttar lögðust þar á eitt. Alla afmælisdaga hafði hún niðurskrifaða og engan þekki ég sem tók sér jafn mikinn tíma til að velja gjafir sem voru áhugaverðar og við hæfi – og gilti það jafnt fyrir eldri og yngri. Halla klikkaði aldrei á gjöfum.

Halla stóð með sínum. Þegar foreldrar okkar gerðust aldraðir og hjálpar þurfi var það hún, að öðrum ólöstuðum, sem mætti á hverjum degi. Gerði þeim kleift að búa áfram í Sólheimunum eins lengi og hægt var og létti þeim lífið fram á hinsta dag. Umhyggja, trúmennska og ást var einfaldlega hluti af henni.

Halla og Vífill hittust fyrir rúmum fjórum áratugum og eftir það voru það bara Halla og Vífill. Sjaldan var annað nefnt án þess að hins væri getið í sömu andrá. Þau eignuðust þar sinn sálufélaga og lífsförunaut. Sinn heitt elskaða. Þau voru heppin. Eflaust ólík um margt en saman ófu þau sér sinn eigin vef, blæbrigðaríkan, fjölbreyttan og þéttan. Sá einstæði vefur, samansettur af óteljandi augnablikum, er og verður og hverfur ekki.

Við sem áttum okkar þræði í þeim vefnaði sem líf Höllu systur var virðum hann nú fyrir okkur með óendanlegri gleði og sorg í hjarta. Því hennar er svo sárt saknað.

Þinn bróðir,

Páll H. Hannesson (Palli).

Þegar Halla dó helltist sorgin yfir mig í öllu sínu veldi þrátt fyrir að ég vissi að hverju dró. Halla var einstök á svo margan hátt. Hún var alltaf svo stúlkuleg, það gerði kannski brosið og hvernig hún hreyfði sig. Henni var annt um alla, var einstaklega hugulsöm og örlát og öll börn löðuðust að henni. Nú fæ ég að láni kvenlýsingu frá færeysku skáldi: „Hendes mund var som et kruset salatblad.“ Hún hafði skelmskt bros og frábæran húmor og það var svo gott að hlæja með henni. Hún hafði hárfínan listasmekk, var hægri hönd Vífils á teiknistofunni og ekkert var skemmtilegra en þegar þau buðu mér í mat, sem var ósjaldan. Síðustu vikurnar byggði Vífill kúluhús úr gleri fyrir Höllu sína, þau kölluðu kúluna síðasta tjaldið, og þau voru mörg, enda hófu þau búskap í tjaldi. Þetta er einhver fegursta ástarjátning sem hægt er að hugsa sér. Vífill minn, nú er sorgin þín mest og ég samhryggist þér, fjölskyldum ykkar Höllu og vinum af öllu hjarta.

Elsa Vestmann Stefánsdóttir.