[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga Birkin-töskunnar hófst árið 1981 þegar Birkin sat við hliðina á Jean-Louis Dumas, þáverandi framkvæmdastjóra Hermès, í flugi sem var á leið frá París til Lundúna. Tveimur dögum áður hafði fyrrverandi eiginmaður Birkin keyrt yfir töskuna…

Irja Gröndal

irja@mbl.is

Saga Birkin-töskunnar hófst árið 1981 þegar Birkin sat við hliðina á Jean-Louis Dumas, þáverandi framkvæmdastjóra Hermès, í flugi sem var á leið frá París til Lundúna. Tveimur dögum áður hafði fyrrverandi eiginmaður Birkin keyrt yfir töskuna hennar og þurfti hún því að ferðast með aðra tösku sem hentaði henni afar illa, en hún var sífellt að missa blöð og bækur úr töskunni.

Þegar flugvélin var farin í loftið fóru Birkin og Dumas að spjalla saman. Birkin sagði honum að hún hefði átt í erfiðleikum með að finna nógu rúmgóða tösku úr leðri sem henni líkaði við, en Dumas stakk upp á því að hún myndi fá sér tösku með vösum til að rúma ritföng hennar. Eftir þó nokkrar vangaveltur teiknaði Dumas grófa skissu af hinni fullkomnu tösku fyrir Birkin aftan á ælupoka í flugvélinni.

Dumas notaði kynni sín við Birkin sem innblástur og bjó til mjúka svarta leðurtösku sem hann byggði á fyrri hönnun Hermès, Haut à Courroies, frá því í kringum 1900. Birkin-taskan var stílhrein og látlaus lúxustaska sem var laus við áberandi merki, ólíkt Chanel-töskunum sem voru allsráðandi í tískuheiminum á níunda áratugnum.

„Þetta er ekki taska, þetta er Birkin“

Fyrsta Birkin-taskan leit svo dagsins ljós árið 1984 og fór sala á töskunni rólega af stað. Vinsældir hennar jukust hins vegar gríðarlega um miðjan tíunda áratuginn, þökk sé hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Beðmál í borginni (e. Sex and the City) þar sem tískugoðsagnirnar Carrie Bradshaw, leikin af Söruh Jessicu Parker, og Samantha Jones, leikin af Kim Cattrall, þráðu ekkert heitar en að eignast Birkin-tösku.

Í þáttunum féll til að mynda hin fræga setning: „It's not a bag, it's a Birkin“ eða „Þetta er ekki taska, þetta er Birkin“ sem sagði sitt um stöðu töskunnar í tískubransanum.

Marga dreymir um að eignast Birkin-tösku en það er ekki auðvelt að verða sér úti um eina slíka og virðist ákveðin dulúð og töfrar fylgja því. Þar af leiðandi hefur taskan orðið að ákveðnu stöðutákni og er gríðarlega vinsæl meðal ríka og fræga fólksins. Þá virðist taskan vera í miklu uppáhaldi hjá tískudrottningum á borð við Kate Moss, Victoriu Beckham og Naomi Campbell.

Taskan hefur verið áberandi í tónlistar- og kvikmyndabransanum í gegnum árin og hafa stórstjörnur á borð við Beyoncé, Jay-Z og A$AP Rocky sungið um töskuna. Þá hefur taskan einnig komið fram í sjónvarpsþáttum á borð við Gossip Girl og Gilmore Girls.

Dýrasta taskan á yfir 263 milljónir króna

Í dag er verðbilið fyrir hefðbundna Birkin-tösku talið vera á bilinu 10 þúsund til 40 þúsund bandaríkjadalir, eða sem nemur rúmlega 1,3 til 5,2 milljónum króna. Verðmiðinn á sjaldgæfum Birkin-töskum er þó talsvert hærri. Þar má nefna Bijou Birkin-töskuna sem Pierre Hardy hannaði árið 2012. Hún er alsett rósagulli og demöntum en það eru einungis til þrjú eintök af töskunni í heiminum og kostar hún um það bil tvær milljónir bandaríkjadala, eða sem nemur 263,4 milljónum króna.

Verðmæti Birkin-töskunnar hafa aukist hratt og er hún talin vera góð fjárfesting, en rannsókn frá árinu 2017 leiddi í ljós að á síðustu 35 árum hefði verðmæti töskunnar aukist um heil 500%. Þá er fjárfesting í töskunni talin vera arðbærari en í hlutabréfum eða gulli.