Dundalk, mótherji KA í annarri umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld, er næstsigursælasta félag Írlands og þrautreynt í Evrópukeppni. Dundalk, sem er frá samnefndum 40 þúsund manna bæ á austurströnd Írlands,…

Dundalk, mótherji KA í annarri umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta á Framvellinum í Úlfarsárdal í kvöld, er næstsigursælasta félag Írlands og þrautreynt í Evrópukeppni.

Dundalk, sem er frá samnefndum 40 þúsund manna bæ á austurströnd Írlands, hefur unnið írska meistaratitilinn 14 sinnum, síðast 2019, og bikarinn 12 sinnum, síðast 2020.

Félagið endaði í 3. sæti úrvalsdeildarinnar í fyrra og er nú í fimmta sæti, átta stigum á eftir toppliði Shamrock Rovers sem féll út gegn Breiðabliki í undankeppni Meistaradeildarinnar á dögunum.

Dundalk vann hins vegar Shamrock, 1:0, í 32-liða úrslitum írsku bikarkeppninnar á sunnudaginn. Hayden Muller, sem kom til félagsins í janúar frá Millwall á Englandi, skoraði sigurmarkið.

Tvisvar áður á Íslandi

Dundalk leikur í kvöld sinn 93. Evrópuleik frá árinu 1963 og fjórir þeirra hafa verið gegn íslenskum liðum. Dundalk vann Fram 4:0 árið 1981, eftir að hafa tapað fyrri leiknum 2:1 á Laugardalsvellinum, og gerði tvö jafntefli við FH, 2:2 og 1:1, árið 2016 en komst þá áfram á fleiri mörkum á útivelli.

Komst í riðlakeppni

Dundalk komst annað írskra liða, á eftir Shamrock, í riðlakeppni Evrópumóts haustið 2016 þegar liðið lék í Evrópudeildinni, og lék sama leik haustið 2020.

Dundalk vann Magpies frá Gíbraltar, 3:1, í fyrstu umferðinni eftir 0:0 í fyrri leiknum á útivelli. Liðið lék síðast í Evrópukeppni 2021 og sló þá út Newtown frá Wales og Levadia frá Eistlandi en féll síðan út, 3:4 samanlagt, gegn Vitesse frá Hollandi.

Patrick Hoban, 31 árs framherji og fyrirliði liðsins, með talsverða reynslu úr neðri deildum Englands, er markahæsti leikmaður Dundalk á þessu tímabili með 10 mörk í úrvalsdeildinni.

Leikmenn Dundalk eru nær allir breskir. Varnarmaðurinn Louie Annesley, 23 ára gamall, er landsliðsmaður Gíbraltar með 37 landsleiki en hann er fæddur í London og uppalinn hjá Chelsea.

Fyrri leikur KA og Dundalk hefst klukkan 18 í kvöld en liðin mætast á Írlandi næsta fimmtudag. Sigurliðið mætir annaðhvort Club Brugge frá Belgíu eða AGF frá Danmörku í 3. umferð.