Delaware Hunter Biden kemur til réttarsala ásamt lögfræðingum sínum í gær, en ekki fór allt eins og ætlað var.
Delaware Hunter Biden kemur til réttarsala ásamt lögfræðingum sínum í gær, en ekki fór allt eins og ætlað var. — Anna Moneymaker/Getty/AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Brennidepill Andrés Magnússon andres@mbl.is Réttarhald yfir Hunter Biden, syni Bandaríkjaforseta, fór öðruvísi en ráð hafði verið fyrir gert, en í stað þess að hann játaði á sig minniháttar brot gegn því að dómsátt yrði gerð um önnur alvarlegri þurfti hann að lýsa yfir sakleysi sínu, sem þýðir að málið mun að líkindum þurfa að fara sína leið í réttarkerfinu. Þá gætu fleiri og alvarlegri ákæruliðir bæst við.

Brennidepill

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Réttarhald yfir Hunter Biden, syni Bandaríkjaforseta, fór öðruvísi en ráð hafði verið fyrir gert, en í stað þess að hann játaði á sig minniháttar brot gegn því að dómsátt yrði gerð um önnur alvarlegri þurfti hann að lýsa yfir sakleysi sínu, sem þýðir að málið mun að líkindum þurfa að fara sína leið í réttarkerfinu. Þá gætu fleiri og alvarlegri ákæruliðir bæst við.

Um leið má heita öruggt að hin ýmsu vandræðamál forsetasonarins verði áfram í sviðsljósinu fram í forsetakosningabaráttuna 2024. Þar á meðal hvað forsetinn vissi um viðskiptabrask sonar síns og hvort hann tengdist því mögulega á einhvern hátt meðan hann gegndi embætti. Biden var varaforseti 2009-2017 og hefur verið forseti frá 2021.

Samkomulag út um þúfur

Hunter Biden, sonur Bandaríkjaforseta, kom til réttarhaldsins í Delaware í gær, en þar átti að innsigla samkomulag við saksóknara, þar sem hann myndi játa á sig tvö skattalagabrot og semja um sérstakt meðferðarúrræði vegna vopnalagabrots.

Snemma kom þó í ljós að ekki var allt frágengið í samkomulaginu líkt og Hunter og lögmaður hans höfðu talið. Saksóknarar greindu dómaranum frá því að með samkomulaginu væri ekki útilokað að lagðar yrðu fram aðrar ákærur á hendur hinum 53 ára gamla syni forsetans.

Þar á meðal kynni að vera ákæra fyrir að Hunter hafi látið undir höfuð leggjast að skrásetja sig sem umboðsmann útlendinga í ýmsum ákaflega ábátasömum viðskiptum í löndum á borð við Kína og Úkraínu. Þeir samningar eiga það allir sameiginlegt að vera á sviðum þar sem Hunter hefur enga sérþekkingu, en hins vegar hafa allir gengið út frá því að þar hafi hann notið nafns síns, hann hafi jafnvel beitt föður sínum til þess að liðka fyrir á þeim vettvangi og af því sagðar ýmsar sögur.

Sumir hafa gengið svo langt að halda því fram að Biden forseti hafi beinlínis verið viljugur vitorðsmaður í því baktjaldamakki öllu. Til þess var tekið í vikunni að talsmaður forsetans skipti um skýringu á blaðamannafundi, en fram til þess hefur því ævinlega verið haldið fram að forsetinn hafi ekki haft nokkra vitneskju um viðskipti sonarins. Á mánudag kom annað hljóð í strokkinn þegar talsmaðurinn útskýri að forsetinn hefði ekki tekið þátt í viðskiptum sonarins. Sem er svolítið annað.

Málið er þó ekki komið á það stig ennþá, hvað sem verður. Lengi hefur verið um það rætt að Hunter Biden hafi árum saman lifað á nafni föður síns, en áratugalöng kókaínfíkn og saurlifnaður hafi kostað sitt. Um margt af því var aðeins hvíslað í skúmaskotum Washington, þótt reglulega kæmu upp einhver vandræðamál, sem erfitt var að líta fram hjá. Ekki síst átti það við um skilnað hans við fyrstu eiginkonu sína, þar sem langt og ósæmilegt syndaregistur var lagt fram, þar á meðal hvernig hann hélt við mágkonu sína, ekkju eldri bróður síns, skömmu eftir að hann lést úr heilakrabba. Einnig var hann í reglulegum viðskiptum við vændiskonur.

Fyrir forsetakosningarnar 2020 kom fartölva Hunters Bidens óvænt við sögu, en á henni var að finna alls kyns óviðurkvæmilegar upplýsingar, ljósmyndasafn og fleira, sem lýsti ólifnaðinum í nokkrum smáatriðum, þar á meðal mögulegum áhuga hans á ólögráða stúlkum. Mjög langt var gengið við að afneita gögnum þessum, málið sagt falsfréttir frá rússnesku leyniþjónustunni og New York Post nær eini fjölmiðillinn í gervöllum Bandaríkjunum til þess að segja frá þeim, en Twitter lokaði aðgangi blaðsins svo það gæti ekki deilt fréttunum. Síðar kom á daginn að þær voru réttar.

Nýlega voru svo önnur dómsmál Hunter í fréttum, en þau snerust um dóttur sem hann eignaðist með nektardansmey árið 2019 en hefur aldrei viljað gangast við. Það hefur forsetinn faðir hans ekki heldur viljað gera, sem þykir ekki fara vel saman við áherslu hans á fjölskyldutryggð að öðru leyti. Að lokum lét hann dótturina fá málverk eftir sig, en þau hafa fengið óvenjugott verð upp á síðkastið, aðallega frá stuðningsmönnum demókrata.

Besti vinurinn vitnar

Vandræði Hunters Bidens og forsetans kunna þó aðeins að vera að hefjast. Devon Archer, sem löngum var besti vinur hans, er undir ákæru um stórfelld fjársvik og hefur gefið vitnisburð við ýmis löggæsluyfirvöld, þar á meðal um það hvernig Joe Biden hafi verið viðstaddur símafundi eða í það látið skína að hann væri með á nótunum.

Það mun reynast mjög erfitt fyrir saksóknara að líta fram hjá því, líkt og uppljóstrarar hjá skattinum (IRS) hafa borið að raunin hafi verið til þessa. Að forsetasonurinn hafi fengið sérmeðferð. Um leið eykst vandi Joes Bidens.

Svipmynd: Hunter Biden

Vandræðamaður og einkasonur

Hunter Biden er fæddur 1970, sonur Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Neiliu konu hans, sem dó í bílslysi 1972. Hunter er lögfræðingur frá Yale. Hann ánetjaðist snemma kókaíni, en hann hefur verið fíkill með hléum æ síðan. Hann kvæntist Kathleen Buhle 1993 en hélt stíft fram hjá henni, bæði með vændiskonum og ekkju bróður síns (hann lést úr heilakrabba 2015). Þau Kathleen skildu 2017, en skömmu síðar giftist hann Melissu Cohen. Þau eignuðust son 2020, en ári áður eignaðist hann dóttur með nektardansmey og hefur ekki viljað gangast við henni.

Hunter hefur staðið í margháttuðum viðskiptum, sem flest má rekja til þess að menn hafa viljað koma sér í mjúkinn hjá syni þingmannsins, varaforsetans og nú forsetans. Hvort forsetinn vissi af þeim, tók þátt í þeim eða lét menn njóta örlætisins er annað mál.