Norður-Mjódd Fremst er bílasala, því næst Garðheimar og loks bensínstöð Olís. Öll þessi hús eiga að víkja fyrir íbúðabyggð með þjónustu á neðri hæðum.
Norður-Mjódd Fremst er bílasala, því næst Garðheimar og loks bensínstöð Olís. Öll þessi hús eiga að víkja fyrir íbúðabyggð með þjónustu á neðri hæðum. — Ljósmynd/Klasi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lengi hefur staðið til að gjörbreyta svokallaðri Norður-Mjódd í Breiðholti. Fjarlægja á núverandi byggingar, þ.e. gróðrarstöð Garðheima, bensínstöð Olís og bílasöluna 100 bíla. Í þeirra stað koma fjölbýlishús

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Lengi hefur staðið til að gjörbreyta svokallaðri Norður-Mjódd í Breiðholti. Fjarlægja á núverandi byggingar, þ.e. gróðrarstöð Garðheima, bensínstöð Olís og bílasöluna 100 bíla. Í þeirra stað koma fjölbýlishús. Komið er að fyrsta áfanga í ferlinu því umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt að kynna lýsingu nýs deiliskipulags fyrir svæðið. Leitað verður umsagna fjölmargra stofnana eins og lög mæla fyrir um og sömuleiðis almennings.

Á síðasta fundi ráðsins var lögð fram skipulagslýsing Klasa og JVST, dagsett í maí 2023, vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Norður-Mjóddar fyrir lóðirnar Stekkjarbakka 4-6 og Álfabakka 7. Í vinnu vegna breytingar á deiliskipulagi verður áhersla lögð á blandaða byggð. Á lóðunum verði komið fyrir íbúðum, matvöruverslun, atvinnustarfsemi, dvalarsvæðum og samgönguinnviðum. Breytingar verða gerðar á byggingarreitum, lóðarmörkum, hæð húsa og fjölbreyttri landnotkun frá því sem gildandi deiliskipulag frá 1999 heimilar. Ekki verður um stækkun lóða að ræða en lóðarmörk geta breyst.

Klasi þróar lóðina

Lóðarhafi í Norður-Mjódd er Klasi fasteignaþróunarfélag, sem hefur unnið að fjölmörgum þróunarverkefnum frá stofnun árið 2004. Núverandi eigendur Klasa eru Hagar hf., Reginn hf. og KLS eignarhaldsfélag ehf. Fram kemur á heimasíðu Klasa að áformað sé að reisa byggingar í Norður-Mjódd með 675 íbúðum, alls 84.000 fermetrar. Heildarfjárfestingin er sögð vera 30 milljarðar króna.

Þegar áform um uppbyggingu í Norður-Mjódd voru kynnt haustið 2021 mættu þau andstöðu íbúa í nágrenninu, þ.e. í húsunum fyrir ofan Mjóddina og í vestanverðum Stekkjum. Töldu þeir ófært að leyfðar yrðu 5-8 hæða byggingar, þær ætti að takmarka við fimm hæðir í mesta lagi. Fram kemur í skipulagslýsingunni að húsin verði 4-7 hæðir. Þegar skipulagslýsingin verður kynnt geta þessir íbúar sem og allur almenningur sent inn athugasemdir.

Fram kemur í skipulagslýsingu Klasa og JVST að í dag sé gróðrarstöð á stærsta hluta svæðisins en þar er einnig veitingastaður, bensínstöð, vínbúð og bílasala. Hluti af þessari starfsemi flyst yfir í Suður-Mjódd. Núverandi byggð á reitnum er fremur sundurleit en stórt bílastæðaplan einkennir lóðirnar auk mikils gróðurs sem fylgir gróðrarstöðinni. Byggingar á lóðinni Stekkjarbakka 4-6 séu ágætt dæmi um sérhæfðar skemmur undir verslun og vörugeymslur frá tíunda áratugnum.

Skipulagssvæðið sé innan borgarhluta Breiðholts og tilheyri Neðra-Breiðholti. Breiðholt sé einn stærsti og fjölmennasti borgarhluti Reykjavíkur, staðsettur í austurhluta hennar og þar rísi byggð einna hæst innan borgarinnar. Efsti hluti Breiðholts standi í rúmlega 120 metra hæð yfir sjávarmáli. Lægsti punktur Neðra-Breiðholts sé í Norður-Mjódd, í um 40 metra hæð.

Elliðaárdalur aðdráttarafl

Í skipulagslýsingunni er tíundað hve vel Norður-Mjódd henti til uppbyggingar á íbúðahverfi enda sé borgarhlutinn tiltölulega vel gróinn. Elliðaárdalurinn og umhverfi hans hafi mikið aðdráttarafl fyrir íbúa. Einkenni byggðarinnar í Mjódd séu fastmótuð íbúðarhverfi afmörkuð af stórum umferðaræðum og opnum útivistarsvæðum.

Neðra-Breiðholt afmarkast af Elliðaárdal í norðri, opnu grænu svæði í austri, Breiðholtsbraut í suðri og Reykjanesbraut í vestri. Það sé vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til almenningssamgangna vegna nálægðar við Mjódd, þar sem er tengistöð almenningssamgangna höfuðborgarsvæðisins og alls landsins.

Stutt í fjölbreytta þjónustu

Auk þess sé stutt í fjölbreytta þjónustu í Mjódd og Kópavogi. Elliðaárdalurinn umlykur hverfið í norðri og er þar eitt mest sótta útivistarsvæði í borginni og sé þar mikil trjárækt, laxveiði, fuglalíf og fjölbreytt stígakerfi. Íþróttasvæði ÍR er í Suður-Mjódd og Leiknir í Efra-Breiðholti.

Almennt sé gönguleiðanet gott og öruggt í hverfinu. Góð tenging fyrir hjólandi og gangandi til norðurs að Elliðaárdal er um undirgöng. Umferð akandi og gangandi sé almennt vel aðgreind með góðu umferðaröryggi. Sú þjónusta, sem í boði er, sé í göngufæri er fyrir þá íbúa sem búa næst Norður-Mjódd.

Mjódd er skilgreind í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2040 sem bæjarkjarni þ.e. miðstöð opinberrar þjónustu, verslunar, almennrar þjónustu, atvinnu, menningar- og afþreyingar sem þjónar bæjarfélaginu. Miðað er við bæjarkjarnar tengist framtíðarsamgöngu- og þróunarásum, þar á meðal borgarlínu.