[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í nýjasta hefti Ord & Bild er sjónum beint að íslenskum samtímabókmenntum. Ord & Bild er elsta og virtasta bókmenntatímarit Svíþjóðar og eitt elsta menningartímarit Evrópu, en það hefur komið út óslitið frá 1892

Í nýjasta hefti Ord & Bild er sjónum beint að íslenskum samtímabókmenntum. Ord & Bild er elsta og virtasta bókmenntatímarit Svíþjóðar og eitt elsta menningartímarit Evrópu, en það hefur komið út óslitið frá 1892. Í heftinu eru m.a. birt brot úr Ljósgildrunni eftir Guðna Elísson, sem er önnur tveggja bóka sem tilnefndar eru til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd í ár, og Jarðsetningu eftir Önnu Maríu Bogadóttur. Þá eru í heftinu þrír stuttir textar eftir Kristínu Ómarsdóttur, grein eftir Sjón, ljósmyndir Bjargeyjar Ólafsdóttur og fjöldi myndlistarverka eftir Siggu Björgu Sigurðardóttur sem jafnframt á myndina á forsíðu tímaritsins.

„Hér er boðið upp á ólík sýnishorn, sem gefa mögulega tilfinningu fyrir töfraraunsæi samtímans, töfra raunsæisins eða að minnsta kosti hinum dularfulla hversdegi sem við lifum í og sem oft er undirtóninn í íslensku samhengi,“ skrifa ritstjórarnir Jonatan Habib Engqvist og Ann Ighe í inngangi sínum. Þar kemur fram að John Swedenmark þýði íslensku textana og skrifi stuttar kynningar á Jarðsetningu og Ljósgildrunni. Swedenmark er mikilsvirtur þýðandi sem hlaut Orðstír árið 2019 fyrir þýðingar sínar, en á ferlinum hefur hann þýtt yfir 50 titla úr íslensku.

Í kynningu sinni á bók Önnu Maríu segir Swedenmark að Jarðsetning sé „einstakt verk“ bæði í úfærslu og innihaldi þar sem höfundur flétti í máli og myndum saman persónulegri þroskasögu, samfélagsrýni og hugmyndum um hvernig byggingarlistin geti þjónað samfélaginu á sjálfbærari hátt. „Einlægnin er ekki augljós við fyrstu sýn. En kemur þeim mun sterkar fram í textanum.“

Í kynningu sinni á skáldsögu Guðna bendir Swedenmark á að Ljósgildran sé „gríðarlega umfangsmikil“ samtíðarsaga og uppfull af vísunum í heimsbókmenntirnar sem rigni yfir lesendur. Þó íslenski bókmenntabransinn fái á baukinn megi undir engum kringumstæðum líta á bókina sem lykilróman. Swedenmark gerir einnig að umtalsefni þaulhugsaða byggingu verksins þar sem unnið sé markvisst með talnafræði og speglanir.

Sagan, sem sé eins og „óendanlegt hlaðborð“, heilli lesendur með „kokteil af kaldhæðni og kærleika, frásögnum af útsmognum persónum með heitu hjarta,“ skrifar Swedenmark og tekur fram að stíll Guðna sé fullur af hluttekningu og rúmi „óvenjuleg sjónarhorn á líf manneskjunnar og samfélagsins.“ Lesendum sé boðið að skoða skoplegar persónur verksins innan frá og „eiga hlutdeild í ómeðvituðu sálarlífi þeirra.“ Að lokum líkir Swedenmark Ljósgildrunni, sem metabókmenntum og takmarkalausri byggingu, við kirkjuna La Sagrada Familia í Barselóna eftir Gaudi.