Sr. Agnes M. Sigurðardóttir
Sr. Agnes M. Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oel@mbl.is Forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, tilkynnti sr. Agnesi M. Sigurðardóttur biskup Íslands það bréflega í lok júní í fyrra að hún túlkaði ný lög um þjóðkirkjuna, sem tóku gildi 1. júlí 2021, þannig að biskup ætti að gegna embætti sínu í sex ár frá 1. júlí 2017 og þar með að biskup myndi gegna embætti sínu að óbreyttu til og með 30. júní 2023. Morgunblaðið hefur undir höndum bréf sem gengu á milli aðila og varða þetta mál.

Ólafur E. Jóhannsson

oel@mbl.is

Forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir, tilkynnti sr. Agnesi M. Sigurðardóttur biskup Íslands það bréflega í lok júní í fyrra að hún túlkaði ný lög um þjóðkirkjuna, sem tóku gildi 1. júlí 2021, þannig að biskup ætti að gegna embætti sínu í sex ár frá 1. júlí 2017 og þar með að biskup myndi gegna embætti sínu að óbreyttu til og með 30. júní 2023. Morgunblaðið hefur undir höndum bréf sem gengu á milli aðila og varða þetta mál.

Síðan segir í bréfinu: „Forseti kirkjuþings mun beita sér fyrir því að forsætisnefnd sú sem kosin verður á nýkjörnu kirkjuþingi 2022-2023, á grundvelli 9. gr. starfsreglna um þingsköp kirkjuþings nr. 10/2021, leggi fram þingmál á því kirkjuþingi, sem feli í sér að þingið ákvarði um biskupsþjónustu þjóðkirkjunnar frá og með 1. júlí 2023.“

Fyrrgreind niðurstaða um eins árs framlengingu á starfstíma biskups var fengin á grundvelli laga um þjóðkirkjuna þar sem segir að kjörtímabil biskups Íslands og vígslubiskupa skuli vera sex ár í senn.

„Síst af öllu troða illsakir“

– En hvað gerðist þá, þ.e. eftir að þeirri framlengingu lauk?

„Ekkert. Í haust kom álit frá lögmanni sr. Agnesar um að búið sé að breyta reglunum og að biskup og vígslubiskupar séu kosnir til sex ára, þá sé hún sjálfkrafa inni í því,“ segir Drífa og vísar þar til bréfs þar sem sú skoðun er sett fram að nærtækast sé að túlka kjörtímabil biskups skv. starfsreglum um kosningu hans og vígslubiskupa þannig að nýtt kjörtímabil biskups hafi hafist við gildistöku reglnanna 1. janúar 2022 eða við samþykkt þeirra 28. mars 2022 og því hafi biskup rétt til að gegna embættinu til 31. desember 2028, en ella til 27. mars sama ár.

Í niðurlagi bréfs lögmannsins segir hann að umbjóðandi sinn, þ.e. biskup, vilji „síst af öllu troða illsakir við kirkjuþing og leggur á það ríka áherslu að aðilar freisti þess að finna lausn á málinu með gagnkvæmu tilliti og heiðarleika að leiðarljósi“.

Ekki virðist hafa verið gert neitt með álit lögmannsins um lengd kjörtímabils biskups til 2028, en formaður kjörstjórnar þjóðkirkjunnar skrifar forseta kirkjuþings bréf í febrúar 2023 þar sem vísað er til framlengingar starfstíma biskups til 30. júní 2023 og spyrst fyrir um stöðu mála sem varða starfstíma hans. „Kjörstjórn óskar eftir upplýsingum um stöðu þessa máls og hvort líklegt sé að biskup muni láta af störfum um mitt þetta ár eða hvort framhald verði þar á og ef svo verður, þá óskar kjörstjórn eftir upplýsinum um hvenær sé líklegt að það liggi endanlega fyrir,“ segir í bréfinu.

Ástæða fyrirspurnarinnar er sú að skv. starfsreglum um biskupskjör þarf kjörstjórn að undirbúa kosningar þegar fyrirséð er að biskup láti af störfum.

Ekki á valdi kjörstjórnar að ákveða framlengingu

Þessu bréfi svarar forseti kirkjuþings bréflega 28. febrúar sl. þannig að skv. opinberri yfirlýsingu sr. Agnesar þá hyggist hún láta af embætti 1. júlí 2024 „og hefur ekki óskað eftir því að forsætisnefnd leggi mál fyrir kirkjuþing 2022-2023 til umfjöllunar um þjónustutíma sinn. Forsætisnefnd mun því ekki leggja fram þingmál þessu varðandi. Lögum samkvæmt er það þá í verkahring kjörstjórnar þjóðkirkjunnar að ákveða næstu skref varðandi biskupskjör í íslensku þjóðkirkjunni.“

Samkvæmt framansögðu virðist engu líkara en að sr. Agnes sjálf hafi tekið sér sjálfdæmi um starfslok sín, enda kemur fram í svari kjörstjórnar við bréfi forsætisnefndar að það sé ekki í valdi kjörstjórnar að ákveða framlengingu á þjónustutíma biskups eftir að framlenging starfstíma hans til 1. júlí sl. var ákveðin, en „af bréfi forsætisnefndar dags. 28. febrúar sl. má ráða að nefndin fallist á með biskupi að umboð hans/þjónustutími framlengist um eitt ár, þ.e. til 1. júlí 2024“, segir þar.

Sótti biskup það fast að starfstíminn yrði framlengdur á ný í sumar?

„Nei, hún vildi ekkert ræða þetta meira við mig. Forsætisnefnd kirkjuþings fór til hennar í haust fyrir kirkjuþingið og við sögðum henni að við myndum ekki gera neitt í þessum málum hennar og ekki hafa neitt frumkvæði í því. Hún samþykkti það. Síðan kom það mér alveg í opna skjöldu að á sama tíma og ég var að hjálpa henni í fyrra að framlengja skipunartíma hennar um eitt ár, þá er þessi ráðningarsamningur gerður og hún lætur mig ekki vita af því. Það finnst mér mjög einkennilegt, því þetta var á sama tíma og ég var að gera þetta fyrir hana,“ sagði Drífa Hjartardóttir.