Blái fuglinn sem einkennt hefur samfélagsmiðilinn Twitter hefur nú sungið sitt síðasta. Í vikubyrjun tilkynnti auðkýfingurinn Elon Musk, eigandi miðilsins, að vörumerkinu yrði skipt út fyrir hvítt X á svörtum grunni

Blái fuglinn sem einkennt hefur samfélagsmiðilinn Twitter hefur nú sungið sitt síðasta. Í vikubyrjun tilkynnti auðkýfingurinn Elon Musk, eigandi miðilsins, að vörumerkinu yrði skipt út fyrir hvítt X á svörtum grunni. Samkvæmt frétt CNBC tengist nafna- og vörumerkjabreytingin áformum Musks um að breyta samfélagsmiðlinum X í víðtækt „súperapp“ sem hægt sé að nota til alls. Musk dregur ekki dul á að í þeim efnum horfi hann til kínverska smáforritsins WeChat sem sé með flesta notendur á heimsvísu, eða 1,3 milljarða manns. Spekingar benda á að ein af ástæðum þess hversu útbreitt WeChat er í Kína helgist m.a. af því að þar í landi sé Twitter og Google ekki leyfilegt að starfa. Því geti það reynst þrautin þyngri að skapa sambærilegt „súperapp“ í Bandaríkjunum eða Evrópu þar sem samkeppnin sé meiri.