Fegurð Hanna Dóra Sturludóttir, Bjarni Frímann Bjarnason, Þóra Kristín Gunnarsdóttir, Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, Pétur Björnsson, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson og Hanna Ágústa Olgeirsdóttir.
Fegurð Hanna Dóra Sturludóttir, Bjarni Frímann Bjarnason, Þóra Kristín Gunnarsdóttir, Sólveig Vaka Eyþórsdóttir, Pétur Björnsson, Þórunn Ósk Marinósdóttir, Sigurður Bjarki Gunnarsson og Hanna Ágústa Olgeirsdóttir. — Morgunblaðið/Eyþór
Það verður mikið um dýrðir og að sjálfsögðu tónlist á Reykholtshátíð sem hefst á morgun og lýkur á sunnudaginn. Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af fernum tónleikum þar sem flutt verða kammerverk, kórverk og einsöngslög auk fyrirlesturs á vegum Snorrastofu sem er orðinn að föstum lið

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Það verður mikið um dýrðir og að sjálfsögðu tónlist á Reykholtshátíð sem hefst á morgun og lýkur á sunnudaginn. Dagskrá hátíðarinnar samanstendur af fernum tónleikum þar sem flutt verða kammerverk, kórverk og einsöngslög auk fyrirlesturs á vegum Snorrastofu sem er orðinn að föstum lið.

Reykholtshátíð var fyrst haldin árið 1997 og er ávallt haldin í kringum vígsluafmæli Reykholtskirkju sem ber upp á síðasta sunnudag júlímánaðar.

Þórunn Ósk Marinósdóttir og Sigurður Bjarki Gunnarsson eru listrænir stjórnendur Reykholtshátíðar og segja hátíðina rótgróna klassíska sumarhátíð og með Skálholtshátíð sé hún með elstu klassísku sumarhátíðunum á Íslandi.

„Hátíðin er jafngömul nýju kirkjunni sem var vígð fyrir 27 árum. Þá stofna þær Steinunn Birna Ragnarsdóttir og Dagný Emilsdóttir þessa hátíð því þær áttuðu sig strax á því að þarna væri verulega góður hljómburður. Sagan umvefur allt hér og yndislegt að hlýða á fallega og fjölbreytta klassíska tónlist í sögulegu umhverfi,“ segir Þórunn.

Undirbúningur fyrir hátíðina er árið um kring að þeirra sögn og hugmyndir að efnisskránni eru farnar að mótast nánast um leið og þeirri síðustu lýkur en verulegur tími fer í samskipti við tónlistarmenn og að vinna styrkumsóknir, eins og gefur að skilja.

Útlitið bjart í ár

Þau Þórunn Ósk og Sigurður Bjarki segja hátíðina lausa við eiginlegt þema nema þá helst að í ár séu fleiri listamenn úr landshlutanum en áður sem sé skemmtileg tilbreyting. Þrír flytjendur upprunnir úr landsfjórðungnum auk tveggja tónskálda.

„Þannig að fókusinn og lókal áherslan á Vesturland er óvenjusterk í ár,“ segir Sigurður Bjarki.

Listafólkið sem þar um ræðir eru Hanna Dóra Sturludóttir, úr Búðardalnum; Hanna Ágústa Olgeirsdóttir, sem er fædd og uppalin í Borgarnesi; Pétur Björnsson, sem er uppalinn í Borgarnesi og fæddur á Hvanneyri, og síðan eru það tónskáldin Anna Þorvaldsdóttir, sem er einnig úr Borgarnesi, og Steinunn Þorvaldsdóttur, frá Hjarðarholti í Borgarfirði.

„Gaman að koma því að að Hanna Ágústa er að vinna að hljóðritun þar sem hún velur íslensk ljóð eftir konur og fær svo konur til að semja við þau, í bland við lög eftir Jórunni Viðar. Þessi lög sem hún flytur á hátíðinni í ár eru hluti af því verkefni,“ segir Þórunn.

Þau Þórunn Ósk og Sigurður Bjarki segja að hátíðin í ár sé með svipuðu sniði og undanfarin ár hvað umfang og fjölda tónleika varðar en spurð út í aðsóknina segja þau að hún hafi verið upp og niður en útlitið sé bjartara í ár.

„Það hefur verið svolítið upp og niður. Þetta er þriðja árið okkar sem listrænir stjórnendur og fyrstu tvö árin lituðust mikið af covid. Þetta slapp fyrir horn bæði árin en var aðeins í skugga þess þannig að við sjáum fyrir okkur að það verði mun léttari stemning í ár og allt stefnir í góða aðsókn. Margir sem koma úr borginni og aðrir úr nágrenninu, ekki síst fólk sem dvelur í orlofsbústöðum hér allt í kring.“

Fjölbreytt dagskrá

Á opnunartónleikunum annað kvöld kl. 20 mun Hanna Dóra Sturludóttir mezzósópran flytja sönglög og ljóð úr ýmsum áttum ásamt píanóleikaranum Þóru Kristínu Gunnarsdóttur. Fyrir hlé flytja þær íslenskar, skandinavískar og þýskar ljóðaperlur en eftir hlé eru á efnisskránni söngverk eftir bandarísk tónskáld, þar á meðal „The Work at Hand“ eftir bandaríska tónskáldið Jake Heggie sem þær flytja ásamt Sigurði Bjarka Gunnarssyni sellóleikara. Verkið hefur ekki verið flutt áður á Íslandi en það var samið fyrir Carnegie Hall og Íslandsvininn Jamie Barton mezzósópran.

Fyrripartur laugardags verður tileinkaður kórverkum. Sönghópurinn Hljómeyki, sem er gestum Reykholtshátíðar að góðu kunnur, flytur efnisskrá sem samanstendur bæði af trúarlegum og veraldlegum kórverkum – íslenskum sem erlendum, hressilegum sem tregafullum, eins og segir í tilkynningu. Tónleikarnir hefjast á nokkrum verkum sem öll eru samin við Maríubænina „Ave Maris Stella“. Þeirra þekktast er líklega hið íðilfallega verk Edwards Grieg en einnig flytur kórinn þrjú verk sem pöntuð voru frá þremur tónskáldum í kórnum, þeim Hildigunni Rúnarsdóttur, Agli Gunnarssyni og Eygló Höskuldsdóttur Viborg. Um miðbik tónleikanna vendir kórinn kvæði sínu í kross og flytur nokkra nýja, miðaldra og gamla madrigala, flesta eftir finnska samtímatónskáldið Jaakko Mäntyjärvi. Tónleikunum lýkur á sígildum skilaboðum frá bandaríska landlæknisembættinu, „Smoking can kill“, sem er tónsett í madrigalastíl af fyrrnefndum Mäntyjärvi. Stjórnandi Hljómeykis er Erla Rut Káradóttir.

Seinni hluti efnisskrár laugardagsins verður í höndum Sólveigar Vöku Eyþórsdóttur fiðluleikara og hefst með flutningi á „Einleikssónötu fyrir fiðlu, nr. 2“ eftir pólska tónskáldið Grazyna Bacewicz, sem er ein af brautryðjendum pólskra kventónskálda.

Hugleiðingar leikmanns

Að venju býður Snorrastofa upp á fyrirlestur á Reykholtshátíð. Fyrirlesari þetta árið er Friðrik Erlingsson, skáld, handritshöfundur og tónlistarmaður. Erindi Friðriks er hugleiðingar leikmanns um íslenskar miðaldir og hið mögulega og ómögulega í lífi og starfi Sæmundar Sigfússonar, með áherslu á þau ritverk sem hann gæti hafa sett saman eða komið að, út frá þeim tilvitnunum og heimildum sem tengjast nafni hans í miðaldatextum.

Allir tónleikar fara fram í Reykholtskirkju og miðasala er á tix.is. Miðaverð er óbreytt frá því í fyrra og hægt er að kaupa miða á staka tónleika eða hátíðarpassa sem gildir á alla tónleika hátíðarinnar. Nánari upplýsingar má finna á reykholtshatid.is.

Höf.: Höskuldur Ólafsson