Magnús Guðjónsson var fæddur 3. nóvember 1936 á Neðri-Þverá í Fljótshlíð, Rangárvallasýslu, en lést á Landspítalanum í Fossvogi 11. júlí 2023.

Foreldrar hans voru Guðjón Árnason, bóndi á Neðri-Þverá, f. 8. febrúar 1886, d. 6. nóvember 1954, og Sigríður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 23. júlí 1894, d. 26. ágúst 1977. Systkini Magnúsar voru: 1) Elín, f. 2. apríl 1918, d. 17. ágúst 1983, 2) Þórunn, f. 11. júní 1919, d. 2. nóvember 2009, 3) Sigurpáll, f. 7. október 1921, d. 27. júlí 2001, 4) Sigurður Ingi, f. 24. október 1923, d. 17. mars 2008, og 5) Árni, f. 23. október 1928, d. 1. september 2003.

Magnús kvæntist 27. júní 1959 Guðrúnu Hönnu Kristjánsdóttur skrifstofukonu, f. 17. júní 1937. Foreldrar hennar voru Guðrún Sigurðardóttir kennari, f. 4. febrúar 1911, d. 8. febrúar 1938, og Kristján Hannesson læknir, f. 2. september 1905, d. 17. ágúst 1978. Synir Magnúsar og Hönnu eru: 1) Kristján Magnússon bifvélavirkjameistari, f. 7. ágúst 1960. Maki Kristjáns: Gunnhildur Louise Sigurðardóttir, f. 26. febrúar 1971. Fyrri maki Kristjáns: Jóhanna Þorbjörg Guðjónsdóttir, f. 28. maí 1960. Börn þeirra eru: a) Magnús, f. 15. maí 1982, maki: Sigurlaug Maren Guðmundsdóttir, f. 27. nóvember 1981. Börn þeirra eru Sóldís Birta, f. 2003, og Aron Liljar, f. 2006. b) Guðrún Hanna, f. 10. apríl 1991. Maki: Firas Tkaya, f. 7. september 1989. Barn þeirra er Sandra Tkaya, f. 2012. c) Anna Kristín, f. 17. desember 1993. Barn hennar með Gunnari Viðari Þórarinssyni, f. 6. maí 1986, er Stefán Logi, f. 2012. Barn hennar með Júlíusi Fannari Pálssyni, f. 19. júní 1993, er Magnús Logi, f. 2014. Dóttir hennar er Ísabella Maren, f. 2019. d) Dóttir Jóhönnu og stjúpdóttir Kristjáns: Margrét, f. 20. desember 1977. Maki: Birgir Júlíus Sigursteinsson, f. 9. júlí 1980. Barn þeirra er Kristján Sævar, f. 2003. Sonur Margrétar með Ágústi Þorvaldssyni, f. 21. október 1974, er Sveinn Óskar, f. 1993. Sonur Margrétar með Þorvarði Lárussyni, f. 5. febrúar 1974, er Jóhann Smári, f. 1996. 2) Guðjón Magnússon byggingartæknifræðingur, f. 2. mars 1965. Maki: Guðrún Bóasdóttir, f. 25. apríl 1973. Börn þeirra eru Kristín Embla, f. 4. maí 2000, Fanney Ösp, f. 21. nóvember 2002, og Elín Eik, f. 28. febrúar 2007. 3) Páll Ingi Magnússon kjötiðnaðarmeistari, f. 26. ágúst 1966. Börn Páls Inga eru Hanna Pálína, f. 23. apríl 1998, og Holger Matthías, f. 1. ágúst 2004. Maki: Soffía Anna Steinarsdóttir, f. 13.11.1965.

Magnús ólst upp á Neðri-Þverá í Fljótshlíð en fór ungur til Reykjavíkur og nam rafvirkjun við Iðnskólann í Reykjavík. Þaðan lauk hann sveinsprófi 1957 og meistaraprófi 1962. Að námi loknu starfaði hann við fag sitt óslitið þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir, fyrst hjá rafiðnaðarfyrirtæki Júlíusar Björnssonar, því næst Bræðrunum Ormsson og loks Borgarspítalanum.

Útför Magnúsar fer fram í dag, 27. júlí 2023, kl. 13, frá Digraneskirkju í Kópavogi.

Magnús Guðjónsson, sem í dag er kvaddur hinstu kveðju, var yngstur sex systkina á Neðri-Þverá í Fljótshlíð, Rang., þar á meðal móður minnar, Elínar, sem var þeirra elst. Þau eru nú öll látin.

Á okkur Magnúsi var einungis nokkurra ára aldursmunur, en átján ár á milli þeirra systkinanna, Magnúsar og móður minnar. Eins og alsiða var á þessum tíma fór ég árum saman að vori í sveitina til móðurforeldra minna og sona þeirra á Neðri-Þverá en systurnar voru þá báðar fluttar að heiman. Þar vorum við Magnús góðir félagar við leik og störf sumarlangt.

Magnús lauk fullnaðarprófi frá Fljótshlíðarskóla, stundaði síðan nám við Héraðsskólann að Skógum undir Eyjafjöllum 1950-1953 og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Landbúnaður og skepnuhald höfðuðu aldrei sérstaklega til hans, þó að hann væri fæddur og uppalinn í sveit, en hugur hans hafði hins vegar hneigst æ meira til véla og hvers konar tækja, ekki síst bifreiða, enda var hann ungur að árum þegar hann eignaðist sinn fyrsta bíl. Stefnan var því tekin á rafvirkjun í Iðnskólanum í Reykjavík og þaðan lauk hann prófi 1957.

Þegar suður var komið naut hann liðveislu móðurbróður síns, Sigfúsar Sigurðssonar frá Árkvörn, sem þá hafði haslað sér völl í atvinnulífi höfuðstaðarins sem húsasmíðameistari, Sigríðar Árnadóttur, föðursystur sinnar, og Elínar, systur sinnar, en Magnús var tíður gestur á heimili foreldra minna að Bústaðavegi 91, enda kært þeirra á milli. Sigríður útvegaði frænda sínum gott leiguherbergi að Njarðargötu í Reykjavík þar sem samstarfskona hennar hjá Últíma, Gunnhildur Guðjónsdóttir klæðskeri, hafði búið um skeið, en hún var einhleyp og aldurhnigin. Urðu þau Gunnhildur og Magnús strax mestu mátar.

Á námsárum sínum starfaði Magnús hjá rafiðnaðarfyrirtæki Júlíusar Björnssonar sem þá var „stórveldi“ á sínu sviði og rak bæði verslun og verkstæði í Reykjavík og síðan óslitið hjá Bræðrunum Ormsson þar til hann hóf störf hjá Borgarspítalanum, þar sem hans sérhæfði sig í lyftum. Allt voru þetta vandasöm trúnaðarstörf þar sem ekkert mátti fara úrskeiðis og sinnti Magnús þeim af samviskusemi og elju.

Þegar Magnús hafði um hríð verið búsettur við Njarðargötuna kynntist hann ungri Reykjavíkurmær, Guðrúnu Hönnu Kristjánsdóttur, og gengu þau að eigast 27. júní 1959. Bjuggu þau fyrst á Bergþórugötu 55 í Reykjavík, síðan að Sporðagrunni 7 og loks á Nýbýlavegi 27 í Kópavogi (sem síðar hlaut heitið Grenigrund 12) frá 1965 til dánardægurs Magnúsar. Þar áttu þau fagurt og friðsælt heimili og undu hag sínum vel. Þeim Hönnu og Magnúsi varð þriggja barna auðið og fjölskyldan ævinlega aufúsugestir á Bústaðavegi 91, hjá Elínu og Alberti eiginmanni hennar.

Heilsu Magnúsar fór ört hrakandi síðustu misserin, ekki síst eftir að hann gat ekki lengur ekið, enda bílar áhugamál og tómstundagaman hans frá unga aldri.

Hönnu og sonum þeirra hjóna, Kristjáni, Guðjóni og Páli Inga, tengdadætrum og afkomendum öllum er vottuð samúð og hluttekning við ævilok Magnúsar.

Hvíl í friði, kæri frændi.

Guðjón Albertsson.

Góður vinur er nú fallinn frá!

Maggi var mjög sterkur maður sem hafði sterkar skoðanir á mörgum hlutum. En hann var mjúkur inni við beinið þegar maður kynntist honum og stóð alltaf við sín orð. Hann elskaði barnabörnin sín og var alltaf stoltur þegar hann gat sagt frá nýjum afrekum hjá þeim og þegar ný barnabarnabörn komu í heiminn.

Við hjónin kynntumst Hönnu og Magga 2005. Við fengum bústað reglulega lánaðan fyrir austan fjall og voru Hanna og Maggi nánast alltaf í sínum bústað. Fljótlega fórum við að spjalla saman. Maggi sagði okkur frá því hvernig bústaðurinn var byggður með því að bera allt timbrið yfir skurð, því vegurinn að svæðinu var ekki gerður ennþá. Það var alveg ljóst að þarna var maður á ferðinni sem vann ötull að því sem hann tók sér fyrir hendur og sáum við það í gegnum árin. Þetta var sælureitur þeirra hjóna og vörðu þau stórum hluta hvers sumars í bústaðnum.

Eftir því sem tímar liðu fór að takast vinátta á milli okkar. Þegar fram liðu stundir spurðu þau hjónin af hverju við ekki keyptum lóðina við hliðina á þeim til að byggja okkar eigin bústað. Þau komu okkur í samband við þau sem áttu þá lóð og keyptum við lóðina. Hrunið 2008 kom og var þá hætt við byggingarframkvæmdir. Við áttum hjólhýsi, sem við settum á lóðina. Þetta átti að verða til bráðbirgða, en endaði með að vara til ársins 2020. Sem lýsandi dæmi um Magga birtist hann allt í einu með rafmagnskapal í hendinni og spurði hvort þetta gæti ekki komið okkur að notum. Hafði hann þá borað gat í gólfið á bústaðnum og dregið rafmagnskapal í gegnum gólfið og yfir til okkar.

Vináttan varð sterkari með árunum og þróaðist í að við hittumst reglulega um veturinn í bænum og áttum við margar mætar stundir á Grenigrund. Við vorum þar reglulega, bæði í heimsóknum og í afmælisveislum.

Páskahelgin var yfirleitt fyrsta helgin sem farið var í bústað og hjólhýsi. Vorverkin byrjuðu þá og var unnið við að undirbúa komu sumarsins. Þetta var líka í fyrsta skiptið á ári hverju sem fáninn var dreginn að húni og sem við fengum vöfflurnar hennar Hönnu, en þær voru einungis bakaðar fyrir austan, aldrei heima á Grenigrund. Er tímarnir liðu fórum við að borða oftar saman fyrir austan. Margoft var kjötsúpa elduð í bústaðnum, svið soðin í pottinum og eitt uppáhaldið hans Magga voru bjúgu, alvöru hrossabjúgu.

Við kynntumst einnig sonunum þremur, þeim Kristjáni, Guðjóni og Páli Inga og þeirra fjölskyldum.

Sumarið 2020 sögðu Hanna og Maggi að þetta yrði þeirra síðasta sumar fyrir austan, en þeim fannst orðið erfitt að sjá um svæðið þrátt fyrir hjálp frá okkur. Á sama tíma ákváðum við Bianca að nú væri tími til kominn að flytja „heim“ aftur til Danmerkur. Barnabarn þeirra tók yfir bústaðinn þeirra og fékk einnig okkar lóð. Í lok september það ár vorum við Bianca á Grenigrund til að kveðja Hönnu og Magga en ekki áttum við von á því að þetta yrði í síðasta skiptið sem við sæjum Magga.

Það er með miklum söknuði að við minnumst Magga hér í Danmörku og kveðjum hann á fimmtugsafmælisdegi Biöncu.

Elsku Hanna. Takk fyrir allar samverustundirnar sem við öll áttum saman fyrir austan fjall og í bænum.

Kristján, Guðjón, Páll Ingi og fjölskyldur. Takk fyrir ánægjuleg kynni og innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Einar og Bianca
Kristjánsson.