[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hugtakið Golfstraumurinn hefur tekið yfir nánast alla hringrás í Norður-Atlantshafi, síðustu ár hefur verið talað um hann sem allan varmaflutning í hafi frá ströndum Norður-Ameríku og norður á bóginn,“ segir Halldór Björnsson, veður- og …

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Hugtakið Golfstraumurinn hefur tekið yfir nánast alla hringrás í Norður-Atlantshafi, síðustu ár hefur verið talað um hann sem allan varmaflutning í hafi frá ströndum Norður-Ameríku og norður á bóginn,“ segir Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Tilefni spjallsins er grein í vísindatímaritinu Nature sem boðar stöðvun hafstraums sem þar gengur undir nafninu AMOC, „The Atlantic meridional overturning circulation“, á 21. öldinni, straums sem er töluvert víðförulli en Golfstraumurinn og flytur hlýjan sjó til norðurhvels jarðar en kaldan suður á bóginn.

Vangaveltur um óstöðugleika

Þennan straum segir Halldór hafa verið kallaðan veltihringrás en gerir heiðarlega tilraun til að einfalda útskýringarnar fyrir óinnvígða. „Ef maður notar bara orðið Golfstraumur fyrir þetta straumakerfi þá er hann eftir sem áður klofinn í nokkra þætti, þar er lárétti þátturinn mikilvægastur, sem eru þessir venjulegu hafstraumar sem við þekkjum, og svo lóðrétti þátturinn og það er hann sem hefur stundum verið kallaður veltihringrás, eða AMOC á ensku,“ segir Halldór.

Láréttu straumarnir séu hins vegar hringstreymi heitra strauma á norðurleið og kaldra strauma til baka.

„Mjög lengi hafa vangaveltur verið uppi á borðinu um hvort veltihringrásin sé óstöðug, það er að segja að ef það hlýnar of mikið eða vatnið norðan við verði of ferskt, til dæmis við mikla rigningu eða hressilega bráðnun Grænlandsjökuls, geti þessi straumur ekki lengur myndað djúpsjó, þá væri í raun búið að slökkva á honum,“ heldur Halldór áfram.

Á jaðri vísindanna

Kveður Halldór það mikilvægt að þessi straumur sé aðeins hluti af því kerfi sem nú er almennt kallað Golfstraumurinn, láréttu straumakerfin muni eftir sem áður halda sínu striki hvað sem gerist með veltihringrásina.

„Þótt AMOC hyrfi alveg er eftir sem áður mikill varmaflutningur inn á svæðið frá hafinu og reyndar líka frá lofthjúpnum, það er mikilvægt að hafa í huga að lofthjúpurinn flytur meiri varma inn á þetta svæði en hafið gerir,“ segir haffræðingurinn. Þar með segir hann að aldrei kæmi til þess, þótt AMOC-straumurinn stöðvaðist, að hitaflutningur inn á hafsvæðið við Ísland legðist af með öllu, hann myndi einfaldlega minnka.

„Loftslagslíkön ná ekki öll að herma þetta, þarna erum við á jaðri vísindalegra rannsókna og menn vita ekki alveg hvernig á að takast á við þetta. En í loftslagslíkönum þar sem dregur úr styrk AMOC, sem er reyndar í mjög mörgum líkönum, er það yfirleitt þannig að maður sér einhverja kalda bletti í Norður-Atlantshafi en þeir ná ekkert endilega til Íslands, ekki allir, og yfirleitt eru þeir tímabundnir, taka kannski tíu til fimmtán ár,“ segir Halldór.

Hann segir hitasveiflur í hafinu sunnan við Ísland ekki undantekningu, þvert á móti séu þær reglan. „Þar eru alltaf sveiflur og þetta [ef veltihringrásin stöðvaðist] myndi einfaldlega bæta í köldu sveiflurnar og við vitum að þær sveiflur hafa mikil áhrif,“ heldur hann áfram.

En hverjar yrðu afleiðingarnar fyrir Ísland og Íslendinga?

„Í þessari grein í Nature eru menn að tala um að þetta hrynji um miðja öldina en eru samt að tala um tímabilið 2026 til 2095 undir, þess vegna heldur fólk að þetta sé bara að fara að gerast núna. Ef svo færi er ágætt að hafa í huga að hafsvæðið í kringum Ísland er sex til átta gráðum heitara en hafið er að meðaltali á þessari breiddargráðu. Sú hlýnun er meira og minna drifin af hafinu, það er varmaflutningur inn á svæðið, ef AMOC-straumurinn hætti myndi sá varmaflutningur hætta og þá gæti kólnað hjá okkur,“ útskýrir Halldór.