Fjölskyldan Jóhanna ásamt dóttur sinni, tengdasyni og barnabörnunum árið 2012.
Fjölskyldan Jóhanna ásamt dóttur sinni, tengdasyni og barnabörnunum árið 2012.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jóhanna Anna Einarsdóttir fæddist 23. júlí 1923 á Dunki í Hörðudal og ólst þar upp. „Ég átti góða foreldra og ólst upp við rólegheit og öryggi í sveitinni,“ segir Jóhanna. Jóhanna fór í Héraðsskólann í Reykholti þegar hún var 18 ára gömul og var þar í tvo vetur

Jóhanna Anna Einarsdóttir fæddist 23. júlí 1923 á Dunki í Hörðudal og ólst þar upp.

„Ég átti góða foreldra og ólst upp við rólegheit og öryggi í sveitinni,“ segir Jóhanna.

Jóhanna fór í Héraðsskólann í Reykholti þegar hún var 18 ára gömul og var þar í tvo vetur. Eftir námið í Reykholti vann hún sem farkennari í Húnavatnssýslu, Strandasýslu og í Dölunum alls í sex vetur. Síðan lá leiðin í Húsmæðraskólann í Reykjavík. Í Reykjavík lærði Jóhanna einnig að spila á orgel í Tónlistarskóla þjóðkirkjunnar.

Hún var organisti í sinni sóknarkirkju í Snóksdal í Hörðudal í sex ár eftir námið. Eftir að hafa unnið við kennsluna vann hún á saumastofu fataverslunarinnar Nonna í Reykjavík. Síðar þegar hún og Gestur eiginmaður hennar fluttu til Hafnarfjarðar árið 1957 vann Jóhanna sem saumakona og nýtti þar þekkinguna af saumastofunni.

Þau hjónin fluttu síðan á æskuheimili Jóhönnu, Dunk í Hörðudal, árið 1967. Guðrún móðir Jóhönnu og sonardóttir hennar, Hjördís Jóhannesdóttir, f. 1.11. 1956, bjuggu einnig á Dunki með þeim hjónum. Á Dunki var stórt sauðfjárbú á þeirra tíma mælikvarða, þrjár kýr og þrír hestar. Jóhanna og Gestur vildu hafa snyrtilegt í kringum sig og fengu verðlaun fyrir snyrtilegasta býlið í Dalasýslu.

Árið 1981 fluttu Jóhanna og Gestur í Kópavog. Þá voru þau hjónin komin að sextugu, þau vildu flytja áður en þau yrðu öldruð til að geta komið sér vel fyrir á nýjum stað. Jóhanna vann ýmis störf þegar hún var flutt á höfuðborgarsvæðið, var m.a. matráðskona hjá Ríkisendurskoðun. Gestur vann á trésmíðaverkstæði hjá Byko en lést í vinnuslysi árið 1983.

Þegar Jóhanna var orðin ekkja keypti hún hús í Kópavogi með Ernu Jónu dóttur sinni og Heiðari Jónssyni manni hennar. Þar bjó hún í sinni íbúð þar til hún flutti á Hjúkrunarheimilið Eir 94 ára.

Áhugamál Jóhönnu eru handavinna og hvers lags handverk. Grunnurinn var lagður í húsmæðraskólanum og á saumastofunni hjá Nonna en hún var einnig dugleg að sækja sér nýja þekkingu og færni í handverki. Þegar hún komst á eftirlaun sótti hún félagsstarf eldri borgara í Kópavogi þar sem hún lærði m.a. postulínsmálun og glerlist.

„Ég hef upplifað miklar breytingar í þjóðfélaginu og mér finnst ég hafa átt gott líf.“

Fjölskylda

Eiginmaður Jóhönnu var Gestur Sigurjónsson, f. 18.11. 1923, d. 14.6. 1983, bóndi, hreppstjóri og iðnverkamaður.

Foreldrar Gests voru hjónin Jóhanna Kristín Andrésdóttir, ljósmóðir og húsmóðir, f. 30.7. 1889, d. 4.8. 1973, og Sigurjón Jónasson bóndi, f. 1.7. 1884, d. 24.3. 1962. Jóhanna og Sigurjón bjuggu á Stóra-Vatnshorni í Haukadal í Dalasýslu.

Dóttir Jóhönnu og Gests er Erna Jóna Gestsdóttir, f. 2.8. 1961, skjalastjóri hjá Lyfjastofnun, búsett í Kópavogi. Maki: Heiðar Jónsson byggingatæknifræðingur. Synir þeirra eru Haukur Ingi Heiðarsson, f. 13.10. 1986, kona hans er Ólafía Lára Lárusdóttir, f. 19.4. 1989; Viðar Heiðarsson, f. 24.8. 1991 og Jóhann Gestur Heiðarsson, f. 4.9. 1998. Langömmubörn Jóhönnu eru þrjú: Lárus Heiðar Hauksson, Jón Ágúst Hauksson og Jóhanna Guðrún Hauksdóttir.

Bræður Jóhönnu voru Kristján Einar Einarsson, f. 26.11. 1924, d. 22.4. 1998, bóndi á Dunki, síðar sjómaður í Sandgerði; Daníel Einarsson, f. 10.4. 1927, d. 4.1. 2006, pípulagningamaður, bjó í Kópavogi, og Jóhannes Einarsson, f. 12.7. 1931, d. 12.1. 1964, sjómaður, bjó í Reykjavík. Systursonur Guðrúnar, móður Jóhönnu, ólst upp á heimilinu. Hann hét Magnús Þorkell Stardal Sigurðsson, f. 20.5. 1920, d. 17.5. 1964, bjó í Borgarnesi.

Foreldrar Jóhönnu voru hjónin Kristín Guðrún Kristjánsdóttir, húsmóðir á Dunki, f. 31.1. 1895, d. 3.9. 1979, og Einar Jón Jóhannesson, bóndi á Dunki, f. 29.12. 1889, d. 30.3. 1957.