Gunnar Þorgeirsson
Gunnar Þorgeirsson
Matvælastofnun, MAST, hefur kært tvo bændur á Norðurlandi vestra til lögreglu fyrir að hunsa fyrirmæli yfirdýralæknis. Fram kemur á vef MAST að þeir hafi neitað að afhenda stofnuninni kindur sem þeir höfðu fengið frá nágrannabæ þar sem allt fé hafði verið skorið niður vegna riðusmits

Matvælastofnun, MAST, hefur kært tvo bændur á Norðurlandi vestra til lögreglu fyrir að hunsa fyrirmæli yfirdýralæknis. Fram kemur á vef MAST að þeir hafi neitað að afhenda stofnuninni kindur sem þeir höfðu fengið frá nágrannabæ þar sem allt fé hafði verið skorið niður vegna riðusmits. Samkvæmt dýrasjúkdómalögum er refsivert að brjóta gegn fyrirmælum gefnum samkvæmt lögunum.

Stofni heilsu dýranna í hættu

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði í samtali við mbl.is að hann kallaði eftir endurskoðun á reglugerð um niðurskurð vegna riðu. „Mér finnst bara ekki alveg gott að ráðuneytið skuli ekki vera búið að endurskoða reglugerðina um niðurskurð vegna riðu. Það er það sem mér finnst eiginlega verst í þessu þar sem það er fyrir margt löngu búið að skila tillögum um breytingu á reglugerðinni til ráðuneytisins. Ég veit ekki af hverju það er ekki klárað,“ segir hann.

Matvælastofnun telur að með synjun sinni stofni bændurnir ekki aðeins heilsu dýra sinna í hættu heldur einnig heilsu sauðfjár í eigu annarra, þ.e. fjár sem hefur samgang við þeirra fé.

Aðspurður hvort hann sé sammála áliti stofnunarinnar segir hann að þetta sé skilgreining dýralækna Matvælastofnunar á þessu máli. Bætir hann við að hann ætli ekki að vera dómari í því sæti og þetta séu leikreglurnar eins og þær eru í núinu. Á meðan þær eru í gildi þá hljóti Matvælastofnun að fara eftir þeim.

Tekist á um bætur vegna niðurskurðar

„Okkar viðbrögð við niðurskurðinum í Miðfirðinum voru þau að það ætti að klára endurskoðun á reglugerðinni og það er svo sem ekki búið að því enn þá og síðan eru liðnir ansi margir mánuðir,“ segir Gunnar.

Þá tekur hann fram hvaða breytingum hann kalli eftir. „Þar er náttúrulega verið að taka á þessum aðgerðamálum og þá er spurningin: þarf endilega að skera niður alla hjörðina þegar að þessu kemur? Það er svolítið það sem við erum að bíða eftir og svo hafa menn nú verið að takast á um bætur vegna niðurskurðar þegar ráðherra fyrirskipar niðurskurð. Það þarf að skýra það líka samhliða þessu,“ segir hann.