Eldar Slökkviliðsmenn háðu í gær harða baráttu við gróðureldana, með tignarlegt eldgos í bakgrunni. Gert var ráð fyrir að slökkvistörf stæðu fram á nótt.
Eldar Slökkviliðsmenn háðu í gær harða baráttu við gróðureldana, með tignarlegt eldgos í bakgrunni. Gert var ráð fyrir að slökkvistörf stæðu fram á nótt. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Slökkviliðsmenn gengu í gær í sínar stærstu aðgerðir gegn gróðureldunum á Reykjanesskaga síðan gos hófst við Litla-Hrút í mánuðinum. Aðgerðirnar gengu vel að sögn slökkviliðsstjóra Grindavíkur en gert var ráð fyrir að þær myndu standa yfir fram eftir nóttu

Agnar Már Másson

Tómas Arnar Þorláksson

Hermann Nökkvi Gunnarsson

Slökkviliðsmenn gengu í gær í sínar stærstu aðgerðir gegn gróðureldunum á Reykjanesskaga síðan gos hófst við Litla-Hrút í mánuðinum. Aðgerðirnar gengu vel að sögn slökkviliðsstjóra Grindavíkur en gert var ráð fyrir að þær myndu standa yfir fram eftir nóttu.

Gróður umhverfis eldgosið við Litla-Hrút hefur staðið í ljósum logum síðastliðna daga og hafa eldarnir skilið eftir sig um fjóra ferkílómetra af sviðinni jörð. Slökkvilið hafði undirbúið sig vel daginn áður og varði þriðjudeginum í að selflytja ógrynni af vatni með trukkum að gróðureldasvæðinu svo að nóg vatn yrði til taks í gær. Hingað til hafði slökkviliðið flutt megnið af vatninu að gosstöðvunum með þyrlu og minna magn með bílum.

„Núna keyrum við vatn inn með trukkum og notum gröfur til að auðvelda okkur ferð um landið,“ segir Einar og bætir við að trukkarnir geti flutt talsvert meira vatn en þyrlurnar. Þyrla geti flutt á bilinu þúsund til tvö þúsund lítra í ferð en hver bíll geti flutt um 8-10 þúsund lítra í einni ferð. „Þar af leiðandi er miklu meira vatnsmagn og við getum verið með fleiri hendur til þess að rjúfa röndina og bleyta.“

Ekki erfitt að fá mannskap

Í gær mættu hátt í þrjátíu slökkviliðsmenn frá Grindavík, Árnessýslu og Suðurnesjum á vettvang og tugir þúsunda lítra voru notaðir til að slökkva gróðureldana. Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi ekki verið erfitt að fá aukamannskap til að sinna slökkvistarfi þrátt fyrir að margir slökkviliðsmenn séu í sumarfríi.

„Þetta lítur bara ágætlega út,“ segir Einar um slökkvistörfin þegar blaðamaður náði tali af honum síðdegis í gær. „Vinnan er í fullum gangi og miðar vel miðað við aðstæður.“

Slökkvilið hélt áfram að flytja vatn á vettvang í gær á meðan aðgerðir voru í gangi. Gekk það vel þrátt fyrir að tankbílar festu sig við og við, enda þurfti gjarnan að keyra bílana yfir gróður og annan torfæran jarðveg. Ekki varð það þó neinum til mikils ama, að sögn Einars, þar sem slökkviliðið hafði tvær gröfur með sér á svæðinu sem hjálpuðu til þegar bílarnir festust. Hefði það því haft lítil sem engin neikvæð áhrif á slökkvistörf.

Veðuraðstæður góðar

Ekki var búið að slökkva gróðureldana þegar Morgunblaðið fór í prent í gærkvöldi, en Einar Sveinn sagði um kvöldið að hann teldi að aðgerðir myndu standa fram eftir nóttu.

„Þetta gengur svona hægt og bítandi. Við sjáum mikinn mun síðan við byrjuðum, erum búnir að ná yfir helling af svæði en það er líka nóg eftir,“ segir Einar Sveinn og bætir við að þeir muni halda ótrauðir áfram. Lýsti hann því yfir fyrr um daginn að slökkviliðið myndi ekki yfirgefa vettvang fyrr en búið væri að slökkva allan eld og kvaðst Einar Sveinn bjartsýnn á að markmiðum slökkviliðs yrði náð, þar sem veðuraðstæður væru ágætar fyrir slökkvistörfin á gossvæðinu.

Meradalaleið að eldgosinu við Litla-Hrút var lokuð fram til klukkan eitt í gær þar sem nota þurfti gönguleiðina til að flytja tæki slökkviliðs að gosstöðvunum. Einar segir það því hafa gengið hraðar fyrir sig en áður að koma komast á vettvang þar sem nánast enginn annar var á ferð um svæðið þegar slökkviliðsmenn bar að. Gönguleiðum að gosinu var síðan aftur lokað klukkan 18 í gærkvöldi.