Gagnrýndur Miðjumaðurinn Jordan Henderson hefur fengið mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun sína að færa sig yfir til Sádi-Arabíu.
Gagnrýndur Miðjumaðurinn Jordan Henderson hefur fengið mikla gagnrýni fyrir þá ákvörðun sína að færa sig yfir til Sádi-Arabíu. — AFP/Paul Ellis
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jordan Henderson, fráfarandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er á leiðinni frá Bítlaborginni til sádiarabíska félagsins Al-Ettifaq. Er félagaskiptin ganga í gegn mun Henderson skrifa undir ótrúlegan þriggja ára samning við félagið, sem mun færa honum 120 milljónir króna í vikulaun

Baksvið

Jökull Þorkelsson

jokull@mbl.is

Jordan Henderson, fráfarandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Liverpool, er á leiðinni frá Bítlaborginni til sádiarabíska félagsins Al-Ettifaq. Er félagaskiptin ganga í gegn mun Henderson skrifa undir ótrúlegan þriggja ára samning við félagið, sem mun færa honum 120 milljónir króna í vikulaun.

Sádi-Arabía hefur farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum í sumar en þjóðin er staðráðin í að setja sitt mark á knattspyrnuheiminn. Stjörnur eins og Cristiano Ronaldo, Karim Benzema og N'Golo Kanté hafa nú gengið til liðs við félög í Sádi-Arabíu og nýlega var einn helsti knattspyrnumaður heimsins í dag, Kylian Mbappé, orðaður við stjarnfræðilegan samning hjá Al Hilal eftir að félagið gerði París SG 300 milljóna evra tilboð í hann.

Leikmenn hafa verið gagnrýndir fyrir félagaskipti sín til Sádi-Arabíu vegna mannréttindabrota stjórnvalda landsins sem og fyrirlitningar í garð hinsegin fólks, en samkynhneigð er bönnuð með lögum í landinu.

Enginn hefur þó fengið jafn mikla gagnrýni og Henderson. Hví – spyrja sumir? Caoimhe O'Neill tekur saman ástæður þess í grein sinni í enska miðlinum The Athletic, en greinin heitir „Jordan Henderson sveik traust hinsegin fólks“.

Var andlit baráttunnar

Henderson hefur síðustu ár verið andlit baráttu hinsegin fólks í ensku úrvalsdeildinni. Fór hann oft skrefinu lengra í að sýna stuðning við það þegar það átti við í ensku deildinni. Skrifaði Henderson til að mynda rúmlega 900 orða dagskrárskýrslu til stuðnings við hinsegið fólk fyrir leikinn gegn Southampton haustið 2021, en þá báru fyrirliðar liðanna bönd í regnbogalitum.

„Greinin var löng og á öðru stigi en flestar greinar af þessu tagi. Þetta var ígrunduð og yfirveguð greining á málum hinsegin fólks í málum fótbolta og samfélags. Það var kraftmikið hvernig Henderson sýndi gremju sína gagnvart hómófóbíu og mismunun. Þetta var dæmi um einlægan stuðning og samstöðu við samfélag okkar,“ segir O'Neill en hún er sjálf samkynhneigð.

Sagðist skilja samfélagið

„Margt hinsegið fólk er vonsvikið með ákvörðun Hendersons, þar á meðal ég. Þegar mér leið óþægilega voru orð og gjörðir Hendersons meðal þess sem veitti mér huggun. Þrátt fyrir að mér hafi fundist svo frelsandi að koma út þá fel ég mig samt oft, til dæmis í kringum fótbolta. Ég geri það til þess að forðast athugasemdir og fleira, en ímyndaðu þér hversu erfitt að það er að vera „við“ í landi þar sem það er bannað með lögum,“ bætti O'Neill við.

„Henderson sagðist skilja hvernig okkur liði og hann vildi vera einn af þeim sem ýttu undir breytinguna til þess að gera líf okkar auðveldara, vera bandamaður okkar. Það má enginn vera eins og við í Sádi-Arabíu og því særir ákvörðun Hendersons okkur svo mikið. Það er siðferðisleg hræsni og ég er ekki ein um að vera hrikalega sorgmædd yfir því.

Sorg lýsir tilfinningunni

Sorg er rétta orðið til þess að lýsa tilfinningunni núna því Henderson virtist vera öðruvísi. Hann sýndi svo gott fordæmi í samfélagsmálum að hann hlaut MBE-titil árið 2021. Þeir sem styðja ákvörðun Hendersons gætu bent á að það að neita svona fjárupphæð sé ekki hægt, hann eigi fjölskyldu og gæti styrkt góðgerðamál enn frekar,“ heldur O'Neill áfram.

„Svo er hann ekki sá eini sem sýnir áhuga á að taka á móti sádiarabískum peningum en hver stjarnan á eftir annarri hefur gengið til liðs við lið í landinu, Meðal annars Liverpool-goðsögnin Gerrard, sem særði mig einnig mikið.

En Henderson var maður sem við, hvort sem það er sanngjant eða ekki, bjuggumst við meiru af. „Á undan því að vera fótboltamaður er ég foreldri, eiginmaður, sonur, bróðir og vinur fólksins í lífi mínu sem skiptir mig svo miklu máli. Mér svíður sú hugsun að einhverjum líði eins og þeir séu útilokaðir vegna þess hverjir þeir séu.“ Ég er viss um að hann meinti þessi orð þegar hann skrifaði þau, en nú finnst mér þau ekki hafa eins mikla merkingu.“

Valdi peninga yfir siðferði

„Hefur Henderson svert arfleifð sína með Liverpool með þessari ákvörðun? Að flytja til Sádi-Arabíu mun ekki taka af honum medalíurnar, bikarana og afrekin, né mun það eyða gleðistundunum með liðinu. Hins vegar gæti það breytt því hvað sumum okkar finnst um hann.

Þegar upp var staðið og reyndi á sönn gildi Hendersons og hann neyddist til þess að velja á milli siðferðis og peninga valdi hann það síðarnefnda. Ákvörðun sem mörg okkar munu eiga erfitt með að gleyma,“ segir O'Neill að lokum í langri grein sinni.

Ákvörðun Hendersons, sem á næstu dögum mun ganga til liðs við Al-Ettifaq. hefur vakið mikla umræðu á Bretlandseyjum en fáar greinar eru jafn ítarlegar og grein O'Neill sem er að vonum svekkt.

Sádiarabíska þróunin fer ekki vel í flesta en félög í deildinni eru farin að bjóða ótrúlegar upphæðir í leikmenn, sem hafa ekki áður sést. Búist er við því að í framhaldinu fjölgi stjörnuleikmönnum þar enn og boðnir verði enn betri samningar. Hvað verður þá um Evrópuboltann? Enginn veit, en þetta er ansi dapurleg þróun.