Kristín Björnsdóttir fæddist á Akureyri 8. júní 1964. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 10. júlí 2023.

Foreldrar hennar voru Sigríður Magnúsdóttir, f. 14.3. 1923, d. 2014, og Björn Gestsson, f. 2.5. 1918, d. 1997, bændur á Björgum í Hörgárdal. Systkini Kristínar eru Magnús, f. 16.4. 1944, Gestur, f. 3.12. 1945, Sigrún, f. 1.3. 1952, d. 8.1. 1953, og Sigrún Lára, f. 23.7. 1954.

Kristín bjó á Vistheimilinu Sólborg í þó nokkur ár og síðan hjá foreldrum sínum til ársins 2000 þegar hún flutti í eigin íbúð í Eiðsvallagötu 34 þar sem hún bjó til æviloka.

Kristín vann lengi við saumaskap í Iðjulundi sem seinna varð Plastiðjan Bjarg. Þegar heilsunni hrakaði endaði hún starfsævi sína á Hæfingarstöðinni Skógarlundi.

Kristín var mjög frændrækin og mikil fjölskyldumanneskja. Hún var dugleg að viðhalda tengslum við fólkið sitt og fylgdist með því sem var að gerast.

Útför Kristínar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 27. júlí 2023, klukkan 13.

Kristín móðursystir mín hefur alltaf verið hluti af mínu lífi, enda stóra frænka mín sem ég leit upp til. Hún átti svo margt fallegt og gat allt. Hún kunni að prjóna og sauma krosssaum, svo ég vildi kunna það líka, bara fimm ára gömul. Hún átti líka plötuspilara, falleg föt og skartgripi.

Kristín tók þátt í öllu með fjölskyldunni. Amma og afi gerðu alltaf ráð fyrir henni í sínu lífi og ólu hana upp af ljúfmennsku en festu, þau kröfðust mikils af henni, enda höfðu þau óbilandi trú á getu hennar. Hún lærði að tala, lesa, skrifa, telja, spila á hljómborð. Ekkert af þessu þótti sjálfsagt í því samfélagi sem hún ólst upp í, en amma og afi höfðu trú á því að hægt væri að kenna henni og fötluðu fólki alla þessa hluti og börðust fyrir þeim. Enda varð hún sjálfstæð, vinnusöm og skemmtileg kona hún Kristín.

Kristín var einstaklega listræn, hún var tónelsk og taktviss sem sýndi sig m.a. í því hvað það lá vel fyrir henni að læra á hljómborðið og hvað hún naut þess að dansa, jafnt gömlu dansana og diskó, að ógleymdum línudansinum sem ég öfundaði hana alltaf af. Í mörg ár spilaði hún boccia með Eikinni, fór á mót víða um land sem hún hafði mjög gaman af, enda alltaf líf og fjör á svona mótum. Hún naut þess að skapa og var alla tíð í hand- og textílmennt. Hún prjónaði og saumaði allt fram á síðasta dag. Hver tuska sem hún prjónaði var hönnuð með einhvern ákveðinn í huga, þar sem hún valdi liti og munstur sem hæfðu viðkomandi. Bestu tuskurnar eru frá henni, herðatrén sem hún prjónaði utan um og púðarnir sem hún saumaði voru bestu gjafirnar.

Kristín naut þess að fara á tónleika og í leikhús. Eftir að við urðum báðar fullorðnar höfum við brasað margt saman og í seinni tíð farið í sumarbústaði og ferðalög með foreldrum mínum. Bíltúrar voru í miklu uppáhaldi, en þeir þurftu að hafa tilgang, því var farið í heimsókn, á kaffihús eða í nestisferð. Best þótti henni að fara í Hörgárdal eða Svarfaðardal og rifja upp gamla tíma. Þar sem við fórum þá þekkti Kristín nánast alltaf einhvern, enda var hún mikil félagsvera og alveg einstaklega mannglögg. Kristín sagði manni fréttir af frændfólkinu, því hún var dugleg að hringja og vera í sambandi við fólkið sitt og fá af því fréttir. Alltaf kom símtal á afmælisdaginn, Kristín mundi sko alla afmælisdaga.

Lífsgleði, umhyggja og ljúfmennska, æðruleysi og þrautseigja einkenndu hana frænku mína. Henni var mjög umhugað um fjölskyldu og vini, að allir hefðu það gott, hún átti svo auðvelt með að sýna öðrum samkennd og umhyggju. Á síðustu 10 árum þegar heilsu hennar fór að hraka og getan til að taka þátt í ýmsu minnkaði, eins og t.d. að spila boccia og taka þátt í félagsstarfi með vinunum, kom glöggt í ljós hversu æðrulaus hún var. Þá hefur ekki síst reynt á æðruleysið síðustu þrjú árin í gegnum heimsfaraldurinn og meiðslin í fyrrasumar.

Yndislegar minningar um ljúfa og skemmtilega frænku lifa. Við erum öll ríkari fyrir að hafa haft Kristínu í lífi okkar.

Hanna Berglind.