Miami Lionel Messi fagnar eftir að hafa skorað fyrsta markið í fyrrinótt.
Miami Lionel Messi fagnar eftir að hafa skorað fyrsta markið í fyrrinótt. — AFP/Chandan Khanna
Óhætt er að segja að Lionel Messi hafi tekist vel upp á fyrstu dögum sínum hjá bandaríska knattspyrnufélaginu Inter Miami. Hann skoraði glæsilegt sigurmark í fyrsta leiknum með liðinu gegn Cruz Azul frá Mexíkó og í fyrrinótt skoraði hann tvívegis og …

Óhætt er að segja að Lionel Messi hafi tekist vel upp á fyrstu dögum sínum hjá bandaríska knattspyrnufélaginu Inter Miami. Hann skoraði glæsilegt sigurmark í fyrsta leiknum með liðinu gegn Cruz Azul frá Mexíkó og í fyrrinótt skoraði hann tvívegis og lagði upp eitt mark þegar Inter vann stórsigur á Atlanta United, 4:0.

Báðir leikirnir eru liðir í deildabikarkeppni Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó þar sem 45 lið frá þessum þremur löndum leika í fimmtán þriggja liða riðlum. Tvö lið úr hverjum riðli komast í 16-liða úrslit og Inter er þegar komið þangað.

Ekki reynir strax á Messi í MLS-deildinni en keppni þar heldur áfram 20. ágúst. Þar er Inter Miami neðst af fimmtán liðum í Austurdeildinni og hefur aðeins unnið fimm leiki af 22 á tímabilinu. Þar er liðið sautján stigum á eftir Atlanta, mótherjunum frá því í fyrrinótt, og tólf stigum frá umspilsæti.