Dauði „Ef litið er fram hjá göllum handritsins er um að ræða ekkert annað en sjónrænt listaverk,“ segir rýnir.
Dauði „Ef litið er fram hjá göllum handritsins er um að ræða ekkert annað en sjónrænt listaverk,“ segir rýnir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sambíóin, Smárabíó og Laugarásbíó Oppenheimer ★★★★· Leikstjórn: Christopher Nolan. Handrit: Christopher Nolan. Aðalleikarar: Cillian Murphy, Robert Downey Jr, Matt Damon, Emily Blunt og Florence Pugh. Bandaríkin, 2023. 180 mín.

KVIKMYNDIR

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Kvikmyndin Oppenheimer hefst á tilvitnun í grísku goðsögnina um Prómeþeif. Í þeirri sögu stal Prómeþeifur eldinum og gaf mannkyninu og fyrir það var honum refsað. Seifur skildi Prómeþeif eftir fjötraðan við klett þar sem örn át úr honum lifrina á hverjum degi en á hverri nóttu greri hún að fullu aftur. Eins og bókin American Prometheus eftir Martin J. Sherwin og Kai Bird, sem myndin er byggð á, notar leikstjórinn Christopher Nolan hræðileg örlög Prómeþeifs sem myndlíkingu fyrir líf eðlisfræðingsins J. Roberts Oppenheimers eftir uppgötvun kjarnorkusprengjunnar þar sem honum var refsað af eigin samfélagi og sjálfum sér.

Kvikmyndin fjallar ekki um gerð atómsprengjunnar heldur líf J. Roberts Oppenheimers og fær þar af leiðandi heitið Oppenheimer en ekki „Manhattan-verkefnið“. Þó myndin fjalli auðvitað að stórum hluta um verkefnið þá er fókusinn frekar lagður á að skoða atómsprengjuna sem vísindalegt afrek heldur en hörmungarnar í kjölfarið. Áhorfendum var vissulega lofað mynd um Oppenheimer en ekki fórnarlömb atómsprengjunnar en sú ákvörðun var alltaf að fara að vera varasöm. Áhorfendur fá til dæmis aldrei að sjá afleiðingar sprengjanna nema í gegnum Oppenheimer. Eitt atriði sýnir t.d. andlit á stúlku bráðna en það er aðeins ímyndun Oppenheimers. Í öðru atriði fylgjast áhorfendur síðan með viðbrögðum Oppenheimers við glærukynningu sem sýnir afleiðingar sprengjanna. Hvort nóg sé að sýna hans innri baráttu en ekki lífin sem voru tekin er umdeilanlegt. Í viðtali í The Guardian gagnrýnir Carol Turner, sem situr í stjórn samtakanna Campaign for Nuclear Disarmament í London, Nolan fyrir stilla Oppenheimer upp sem hetju þrátt fyrir að það sé sögulega séð rétt hvernig Nolan sýnir siðferðilegar innri átök Oppenheimers. Hún segir varasamt að sýna þróunarferli kjarnorkuvopna sem vísindalegt afrek en ekki ógn við mannkynið en fagnar því að kvikmyndin veki fólk til umhugsunar og vari við núverandi og raunverulegri hættu sem stafar af kjarnorkuvopnum. Undirrituð var einmitt hrædd um að Oppenheimer yrði málaður upp sem hetja en í staðinn sá hún eðlisfræðing sem ásóttur er af eigin hugsunum þó eflaust muni einhverjir finna til með honum og hjálpar myndin til við það.

Oppenheimer er sjötta myndin eftir Nolan sem Cillian Murphy leikur í en þetta er í fyrsta skipti sem hann leikur aðalhlutverkið. Eiginkonu Oppenheimers, Katherine, leikur Emily Blunt, herstjórann og forstjóra Manhattan-verkefnisins leikur Matt Damon og háttsettan meðlim kjarnorkumálanefndar, Lewis Strauss, leikur Robert Downey Jr. Leikurinn er missterkur en Cillian Murphy sem Oppenheimer ber af. Hann nær að miðla tilfinningum til áhorfenda einungis með augunum. Sérstaka viðurkenningu frá undirritaðri fær Benny Safdie sem er bráðskemmtilegur sem tilraunaeðlisfræðingurinn Edward Teller. Birtingarmynd kvenna er hins vegar slöpp og fellur myndin á Bechdel-prófinu. Florence Pugh sem leikur Jean Tatlock, kommúnista og ástkonu Oppenheimers, fær t.d. mjög takmarkað hlutverk en Jean er annaðhvort sýnd sem sturluð eða gröð. Í einu atriði, þegar Jean og Oppenheimer eru að stunda kynlíf, tekur hún upp eintak af Bhagavad Gita, einni af helgustu ritningum hindúatrúar, og biður Oppenheimer að lesa fyrir sig: „Dauðinn er ég, eyðandi heima“ (e. Now I am become Death, destroyer of world). Atriðið hefur reitt suma hægrisinnaða hindúa á Indlandi til reiði og þeir óskað eftir því að atriðið verði fjarlægt úr myndinni eða hún bönnuð, samkvæmt frétt á CNN. Oppenheimer hafði áhuga á sanskrít og hindúatrú en að hann hafi látið orðin fyrst frá sér í kynlífi er ólíklegt. Þó að kvenhlutverkið sem Florence Pugh er úthlutað sé takmarkandi er eitthvað áhugavert við það að opna umræðuna um dauðann, sem á eftir að umlykja alla kvikmyndina, í kynlífssenu. Oppenheimer er að framkvæma gjörð sem skapar líf en dauðinn fylgir hverju lífi. Lífi Oppenheimers átti eftir að fylgja mörg dauðsföll.

Oppenheimer má skipta í þrennt, yfirheyrslu Lewis Strauss þar sem hann stendur frammi fyrir öldungadeildinni, líf Oppenheimers frá ungum aldri og þangað til hann tekur við Manhattan-verkefninu og yfirheyrslu Oppenheimers þar sem öryggisvottun hans er dregin til baka. Í raun er hægt að segja að kvikmyndin fjalli um einn stóran ríg milli tveggja mikilvægra manna og má skoða sem eins konar myndlíkingu fyrir kalda stríðið. Milli þessara þriggja tímalína er svo flakkað og stundum er eins og persónurnar séu að eiga samræður á milli tímalína. Það er greinilegt að Nolan á erfitt með að sleppa tímaflakkinu jafnvel þótt um sé að ræða ævisögu. Nýjasta tímalínan, þ.e. yfirheyrsla Strauss, er í svarthvítu en ekki öfugt sem getur verið ruglandi fyrir áhorfendur. Líklega eiga þau atriði að líkjast upptökum frá þessum tíma, tökuvélin fær þá ákveðna hlutlæga stöðu en kannski er þetta bara dýr sérviska hjá Nolan og tökumanninum Hoyte Van Hoytema. Þeir sættu sig ekki við að breyta myndinni í svarthvíta í litgreiningu eða fara aðrar ódýrari leiðir heldur þurfti Kodak að framleiða fyrstu svarthvítu 65 mm filmurnar í IMAX-sniðinu. Þessu fylgdi ákveðin áhætta en Kodak færði teyminu lager af frumgerðinni Double-X 5222 65 mm áður en framleiðslan hófst. Nolan vildi heldur ekki nota tölvubrellur (e. CGI) og þurfti teymið því að búa til eitthvað sem líkti eftir atómsprengingu. Litla sprengjan sem þau gerðu var knúin af jarðolíu í stað atómorku og þau notuðu svo gamla kvikmyndabrellur til að blekkja áhorfendur til að halda að sprengingin væri sambærileg við fyrstu alvörusprengingu kjarnorkuvopns, segir á vef SYFY.

Galli kvikmyndarinnar er handritið sem er svo troðið af upplýsingum að Nolan neyðist til að skilja eftir lausa enda. Í einu atriðinu færir Oppenheimer vinafólki sínu barnið þeirra þegar konan hans er með fæðingarþunglyndi af því að hann telur sig ófæran um að annast það. Nolan hefur hins vegar ekki tíma til að skoða frekar þennan hliðarsöguþráð og seinna í myndinni er barnið aftur komið inn á heimilið eins og ekkert hafi í skorist. Sterkasti hluti myndarinnar er þegar Nolan einblínir á Manhattan-verkefnið en undirrituð hefði viljað fá frekari útskýringu á gerð sprengjunnar. Þó að Nolan sé kannski ekki sterkasti handritshöfundurinn þá er hann óneitanlega sjónrænn listamaður. Oppenheimer er kvikmynd sem þú einfaldlega verður að sjá í bíói. Sum skotin, sérstaklega þau sem eiga gerast í höfðinu á Oppenheimer, minna helst á fallegar tilraunamyndir. Tónlistin eftir Ludwig Göransson og hljóðheimurinn eru einnig einstaklega vel unnin og kvikmyndatakan er einnig til fyrirmyndar. Það er t.d. skemmtilegt að sjá hvernig Hoytema fær lýsinguna til að þjóna leik leikaranna. Í einu atriðinu, þegar Oppenheimer finnst yfirheyrslan orðin of yfirþyrmandi, notar teymið yfirlýsta lýsingu til þess að ýkja aðstæðurnar og verður lýsingin þannig ákveðinn stökkpallur fyrir leikarana til að koma til skila tilfinningum persónanna.

Það er rétt svo hægt að ímynda sér hversu stórkostleg Oppenheimer er í réttri útgáfu, þ.e. í IMAX-kvikmyndahúsum. Munurinn á IMAX og hefðbundnu bíói er fyrst og fremst gæðin. Hefðbundin bíóhús bjóða aðeins upp á eitt filmusnið, þ.e. 35 mm á rétthyrndum skjá með ferhyrndu útsýni. Oppenheimer er tekin upp með 65 mm vél með 5 götum (e. perf) og IMAX-tökuvél með 15 götum en engin stafræn myndavél nær þessum gæðum. Til að keyra myndina áfram á sömu römmum á sekúndu og í 35 mm, þ.e. 24 ramma, þarf gríðarlega öfluga vél enda samanstendur IMAX-ramminn af 15 götum en 35 mm aðeins af 4 götum. Þessi göt eru m.a. það sem myndar þessi gæði en margir áætla að IMAX-kvikmynd jafngildi 18 K upplausn. IMAX-ramminn með 15 götum fyllir risastóra IMAX-skjái frá toppi til botns en 65 mm með 5 götum fyllir IMAX-skjáinn frá hlið til hliðar. Fullbúna myndin skiptir þar af leiðandi á milli breiðtjaldshlutfallsins 2,20:1 og 1,43:1 í gegnum myndina, segir á vef kvikmyndarinnar. Útgáfan sem við sjáum í bíóhúsum hérlendis er í mun minni gæðum, bíóhúsin bjóða aðeins upp á stafræna vörpun sem sýnir 2 K eða 4 K og auk þess vantar okkur líka toppinn og botninn á myndinni, þar sem hann er skorinn út til að passa á skjáinn. Það kemur almennt ekki að sök en áhrifamáttur sprengjunnar í myndinni er örugglega ekki sá sami og á IMAX-sýningu en hægt er að ímynda sér að áhrifin séu þau að áhorfendum finnist þeir raunverulega vera á staðnum.

Oppenheimer er mjög fljót að líða þrátt fyrir að vera þrjár klukkustundir og er það að þakka hröðu klippingunni. Troðna handritið og hraða klippingin gera það hins vegar að verkum að áhorfendur ná ekki að staldra við og upplifa tilfinningarnar sem atriðinu eiga að kalla fram. Undirrituð fór t.d. ekki að gráta yfir Oppenheimer en grét yfir Barbie (Greta Gerwig) en maður myndi halda að viðfangsefni Oppenheimer myndi vega þyngra. Það kann að vera vegna þess að undirrituð átti auðveldara með spegla sig í persónum Barbie en kvenpersónunum í Oppenheimer sem eru fremur einfaldar. Ef litið er fram hjá göllum handritsins er um að ræða ekkert annað en sjónrænt listaverk og megum við þakka Nolan fyrir að minna áhorfendur á að kvikmyndir eru líka listaverk en ekki aðeins tölvugert afþreyingarefni. Samkvæmt FRÍSK skilaði Barbenheimer alls 35,7 milljónum króna í tekjur hérlendis frumsýningarhelgina (af 43 milljóna heildarinnkomu), sem er þar með tekjuhæsta kvikmyndahelgi sögunnar á Íslandi. Myndirnar tvær eru þannig til marks um það að dagar kvikmyndahúsanna eru ekki liðnir.