Margrét Óskarsdóttir fæddist á Selfossi 22. apríl 1968. Hún lést á heimili sínu þann 18. júlí 2023.

Foreldrar hennar voru Óskar Böðvarsson, f. 26. mars 1923, d. 4. nóvember 2011, og Unnur Árnadóttir, f. 28. apríl 1929, d. 5. mars 2014. Bræður Margrétar eru: 1) Steinþór, f. 2. apríl 1952, maki Valgerður Anna Guðmundsdóttir, f. 23. apríl 1964. 2) Hörður, f. 14. maí 1958. 3) Ingvar Árni, f. 14. maí 1961, maki Ásdís María Jónsdóttir, f. 9. september 1959. Bræðrabörn Margrétar eru: Ingi Þór, Friðrik Már, Guðmundur og Unnur Ósk; Sigríður Ósk og Birgir Örn; Davíð Már, Unnur Inga og Þröstur Snær.

Margrét gekk í Barnaskóla Selfoss og Öskjuhlíðarskólann. Hún bjó í foreldrahúsum þar til árið 2001 en þá flutti hún á sambýlið að Árvegi 8, Selfossi. Á árunum 2006-2013 bjó hún í sjálfstæðri búsetu í Birkihólum á Selfossi en flutti svo á sambýlið í Vallholti 12-14, Selfossi þar sem hún bjó þegar hún lést. Hún vann til margra ára á VISS, vinnu- og hæfingarstöð fyrir fólk með skerta starfsgetu. Hún var meðlimur í fræðslu- og tómstundaklúbbnum Selnum þar sem hún meðal annars söng með kórnum og einnig var hún virkur félagi í Íþróttafélaginu Suðra þar sem hún æfði Boccia.

Útför Margrétar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 27. júlí 2023, kl. 13.

Elsku Magga okkar. Það er ansi stórt skarð sem þú skilur eftir í vinahópnum okkar. Þú þessi lávaxna kona varst stærsti karakter sem hugsast gat, enda áttir þú sterkar taugar og snertir hjörtu í öllum sem fengu að kynnast þér og vinahópur þinn var stór. Magga var vinur vina sinna, hjartahlý, þrjósk, með eindæmum fyndin og rosalega stríðin. Grallarahláturinn þinn ómar enn um húsið og knúsin þín, vináttuorðin og loftkossarnir bættu alla okkar daga. Magga var partípinni mikill og fannst ekkert leiðinlegt að vera hrókur alls fagnaðar. Söng og spilaði á gítar og var stundum þaggað niður í meðsöngvurum ef hún vildi eiga sviðið ein. Afmælisdaga mundi hún allra sinna nánustu vina og ættingja, sem fengu afmælissönginn sunginn með tilþrifum, annaðhvort símleiðis eða á staðnum og að sjálfsögðu átti að fagna öllum afmælum með knúsum, kökum og pökkum. Hér heima var rútínan í fyrirrúmi þó alltaf hafi verið grín og glens. Ikea-bæklingarnir voru skoðaðir á hverjum degi, kveikt á Útvarpi Suðurland allan sólarhringinn, Heilsubælið, Ladda-showið, Jón Oddur og Jón Bjarni og síðan Stella í orlofi voru á „replay“ í sjónvarpinu og alltaf hlógum við jafn mikið. Magga kunni fjölmarga texta og söng mikið yfir vöfflubakstri og við undirbúning á kósístundum og snyrtingum. Alltaf fín og flott, litskrúðug fyrir allan peninginn og alltaf með naglalakk, glimmer, gloss og slæðu. Snyrtistofa Möggu var vel sótt og allir starfsmenn vel naglalakkaðir, því þú vildir að sjálfsögðu deila með þér litagleðinni til annarra.

Elsku Magga okkar, nú er Bára komin í bleyti, majónesan orðin gul og þú búin að yfirgefa partíið, hvíldinni fegin eftir erfið veikindi. Við munum skella Stellu í orlofi í tækið, kaupa okkur lottómiða, hrískökur og skála í hvítvíni í kvöld í þínum anda. Hver minning um þig er dýrmæt perla sem við munum varðveita um ókomna tíð.

Takk fyrir að velja okkur sem vini þína og sambýlinga.

Vinir þínir í Vallholti 12-14.

Guðrún Linda
Björgvinsdóttir.

Það var fallegur sumarmorgunninn, glampandi sól og blíða þegar Magga kvaddi þessa jarðvist. Mér þótti veðrið vera vel við hæfi því að Magga vildi alltaf hafa sól og hefði því aldeilis verið ánægð með veðrið þennan dag. Hér áður fyrr þegar við fórum saman yfir veðurfréttirnar og spáð var rigningu sagði hún gjarnan að það væri tóm vitleysa, það yrði sól á morgun. Þannig var Magga, hún hafði einstakt lag á að benda á björtu hliðarnar í lífinu.

Samverustundirnar okkar Möggu voru yndislegar og einkenndust af hlýju og gleði. Þegar við vorum saman skildi ég við amstur dagsins því að hjá Möggu ríkti alltaf ró og friður. Núna seinni árin hlustuðum við mikið á tónlist og sungum yfirleitt með. Við gripum í spil með Pepsi Max á kantinum og eitthvað gómsætt. Það var árvisst að í október byrjuðum við að hlusta á jólatónlist, en það var allt í lagi því að við vorum sammála um það að maður á að njóta lífsins á þann hátt sem maður sjálfur kýs. Magga hafði nefnilega þann eiginleika að taka fólki eins og það var og hún var ekki að velta sér upp úr smámunum eða pirra sig yfir einhverju sem engu máli skipti.

Okkur Möggu fannst báðum mjög skemmtilegt að tala í síma og að hringja myndsímtöl. Það voru því ófá símtölin okkar á milli og einnig vorum við duglegar að hringja í vini okkar þegar við hittumst.

Við fórum reglulega í bíltúra og þá var bara hlustað á útvarp Suðurland FM 96,3. Magga sagði stundum í gríni að ég væri nú meiri konan ef ég var með stillt á einhverja aðra stöð og svo hlógum við báðar. Í þessum bíltúrum var jafnvel farið á kaffihús og á heimleiðinni var oft stoppað fyrir utan æskuheimili Möggu á Selfossi. Þá rifjaði hún upp æskuminningar sínar, sagði mér á sinn hátt frá fjölskyldunni og hvað henni fannst gaman að gera þegar hún var barn.

Svo kom að því að símtölunum fór að fækka uns þau hættu alveg og bíltúrarnir heyrðu sögunni til. Við héldum samverustundunum okkar áfram og var það dýrmætt fyrir mig að geta fylgt Möggu allt til loka lífsgöngu hennar.

Elsku hjartans Magga, mikið verður lífið tómlegt án þín. Ég þakka þér innilega fyrir vináttu þína, sönn vinátta er ekki sjálfgefin.

Ég vil votta fjölskyldu Möggu, vinum hennar, íbúum og starfsfólkinu í Vallholtinu mína dýpstu samúð.

Góða nótt elsku Magga mín og Guð geymi þig.

Þín vinkona,

Ragnheiður Jónsdóttir.

Í dag kveðjum við Möggu okkar Óskars.

Magga var ein af starfsmönnum VISS sem hafði lengsta starfsaldurinn. Magga var hrókur alls fagnaðar. Hún hafði gaman af því að syngja og söngbókin var sjaldan langt undan. Þegar einhver átti afmæli af vinnufélögunum og búið var að syngja afmælissönginn, eins og hefð er hjá okkur, vildi hún syngja afmælissönginn á ensku og ein, afmælisbarninu til heiðurs.

Samstarfsfélagar Möggu vilja þakka henni ánægjulega samfylgd í gegnum árin.

Sumarnótt

Undir bláhimni blíðsumars nætur

barstu’ í arma mér rósfagra mey .

Þar sem döggin í grasinu grætur,

gárast tjörnin í suðrænum þey.

Ég var snortinn af yndisleik þínum

ástarþráin er vonunum felld.

Þú er ljósblik á lífshimni mínum

þú ert ljóð mitt og stjarna í kveld.

Ég vil dansa við þig, meðan dunar

þetta draumblíða lag, sem ég ann

Meðan fjörið í æðunum funar

og af fögnuði hjartans, er brann.

Að dansa dátt, það er gaman

uns dagur í austrinu rís.

Þá leiðumst við syngjandi saman

út í sumarsins paradís.

(Magnús K. Gíslason).

Ragnhildur Jónsdóttir.