Dellusjónarmið atlaga að bankastarfsemi

Atburðir í breskum bankaheimi, sem valdið hafa nokkru umróti, eru um sumt ólíkir því sem gerðist í Íslandsbanka nýlega, en annað hefur svipaðan og sérkennilegan blæ, sem minnti nokkuð á umrótið sem fékk að viðgangast þar. Það sem er líkast er að æðsta spíra í Nat-West-bankanum var látin hverfa úr sínu valda- og virðingarembætti með samþykkt bankaráðs klukkan tæplega tvö um nótt og voru Bretar tveimur tímum fyrr að klára sín næturverk en þeir uppi á Íslandi og höfðu þeir bresku þó verið reknir tvívegis til baka með aulaleg viðbrögð.

Á daginn kom að „woke-tilburðir“ höfðu þjakað breska bankaheiminn og þar var það „dame Alison“ sem var í hávegum höfð fyrir þá snilld, og hafði hennar bankalega umhyggja týnst að mestu í „woke-ruglinu“. En þeir sem þekktu til starfsemi Íslandsbanka síðustu árin sáu iðulega glitta í svipaðar tiktúrur, sem komu almennri bankastarfsemi lítið við. Þó voru þau sérkennilegu tilþrif ekki endilega ástæða næturákvarðana bankaráðsins þar, heldur alvarlegar athugasemdir og sektir bankaeftirlits Seðlabankans.

En það bætti ekki úr bresku skákinni að BBC fór rangt með hvað hefði valdið uppnáminu og það benti til að bankastýran virtist leka upplýsingum um viðskiptamenn bankans og þeim röngum að auki, sem bætti ekki úr. Á daginn kom að sá sem flæmdur var úr viðskiptum við sinn stóra banka gat hvergi komið fjármunum sínum fyrir í öðrum bönkum, sem virtust fá „viðvaranir“ um að slíkt væri ekki óhætt og honum þar með ýtt út úr bankalegum mannheimum! Á daginn kom að bankastýran var með lífsskoðanir á skjön við það sem hún gaf sér að væru lífsskoðanir viðskiptamannsins. En svo upplýstist að sá var ekki einn um að vera beittur slíkum bolabrögðum, en aðrir höfðu ekki endilega afl og kjark til að taka á móti. Alkunna er að bæði í Bandaríkjunum og í löndum Evrópu láta forystumenn í viðskiptum og rekstri undan meintum „réttlætis“sjónarmiðum woke-herfarar víða og er sá aumingjadómur erfiður upp á að horfa.