Löggæsla Halla ásamt Arnari Rúnari Marteinssyni, þekktri lyftingakempu, og Hannesi Þór Guðmundssyni.
Löggæsla Halla ásamt Arnari Rúnari Marteinssyni, þekktri lyftingakempu, og Hannesi Þór Guðmundssyni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta hefur verið góður tími og þegar maður hugsar til baka þá hugsar maður fyrst og fremst um öll þau skipti sem lögreglan og starfsfólk lögreglunnar hefur náð góðum árangri í mjög mikilvægum verkefnum,“ segir Halla Bergþóra…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Þetta hefur verið góður tími og þegar maður hugsar til baka þá hugsar maður fyrst og fremst um öll þau skipti sem lögreglan og starfsfólk lögreglunnar hefur náð góðum árangri í mjög mikilvægum verkefnum,“ segir Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Morgunblaðið.

Þrjú ár og rúmlega það eru nú liðin síðan Halla, á sínum tíma fyrsti kvenkyns lögregluþjónninn á Húsavík, tók við embætti sínu 11. maí vorið 2020. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og þessi borni og barnfæddi Norðlendingur frá Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu féllst á að fara yfir tíma sinn í embætti með Morgunblaðinu, stöðu íslenskrar löggæslu, stjórnunarstíl, þróun afbrota á Íslandi en einnig laxveiðina, útivistaráhugann og lífið. En löggæslan fyrst, með lögum skal land byggja.

Ungur laganemi á Húsavík

„Ég held að það sé fyrst og fremst árangurinn í mikilvægum verkefnum sem stendur upp úr á mínum tíma,“ heldur Halla áfram og bætir því við að kynnin af samstarfsfólkinu og öðrum, sem hún hefur átt í samstarfi við gegnum embættið, séu hvergi nærri síðri, nefnir hún starfsfólk stofnana, sveitarfélaga og ráðuneyta sem dæmi. „Þetta hefur verið mjög gefandi,“ segir Norðlendingurinn.

Talið berst að stöðu hennar í lögreglunni á Húsavík árið 1991, þegar Halla var rétt tvítugur laganemi við Háskóla Íslands, en þar í lagadeildinni þyrptust stúdentar í lögreglustörf, störf á sýslumannsskrifstofum eða lögmannsstofum þar sem gert var ráð fyrir námsvist eða svokölluðum „kúrsus“ á slíkum vinnustöðum á síðari árum laganáms eins og það var skipulagt á síðustu öld áður en BA- og MA-gráður leystu gömlu cand.jur.-gráðuna af hólmi.

„Mér var tekið mjög vel en það voru auðvitað sumir sem komu til mín og sögðu mér að kvenfólk hefði ekkert að gera í lögregluna, það ætti ekki að vera þar og ætti bara að finna sér eitthvað annað að gera,“ rifjar lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu upp af fyrstu dögum sínum í einkennisbúningnum svarta norður í landi á löngu horfnum tíma.

Allir vildu til sýslumanns

„Ég brosti auðvitað bara að þessu,“ segir Halla og hlær, „það er auðvitað mikilvægt að lögreglan spegli þjóðfélagið og núna höfum við sífellt verið að fá fleiri og fleiri konur. En auðvitað þarf meira en bara konur og karla ef þú ætlar að endurspegla íslenskt þjóðfélag,“ heldur hún áfram og segir meira af Húsavíkurdvölinni.

„Þetta var starfsnám í lagadeildinni og lögreglan var einn valkostur þar. Ég held að ég hafi bara verið heppin að fara í lögregluna, allir voru að keppast um að fara til sýslumanns og það var bara ein staða í boði hjá sýslumanninum á Húsavík og vinkona mín var búin að hreppa hana svo ég sótti bara um í lögreglunni og fékk stöðu þar,“ segir lögreglustjórinn og kveður sumarlögreglustarfið á Húsavík hafa verið góðan grunn fyrir það embætti sem hún nú gegnir.

Dýrmæt reynsla á vettvangi

„Ég man mjög vel eftir fyrsta heimilisofbeldismálinu mínu sem var um miðjan dag og enginn drukkinn. Einhver mýta segir að þetta gerist alltaf um nætur og fólk sé drukkið en það er ekki rétt,“ segir Halla og nefnir um leið hve mikil reynsla það hafi verið að þurfa að handtaka fólk, koma að alvarlegum umferðarslysum og beita endurlífgunaraðferðum, sú reynsla hafi breytt einhverju innra með henni.

„Það var líka dýrmæt reynsla að vera á vettvangi og þurfa að taka ákvörðun á tveimur sekúndum. Maður hugsaði alltaf með sér inni á kaffistofu hvað maður ætti að gera ef maður stæði frammi fyrir hinum og þessum aðstæðum. Slíkar hugsanir fóru beint út um gluggann þegar maður var staddur í einhverjum aðstæðum og þurfti að bregðast við án þess að geta hugsað sig um,“ segir Halla og hugur hennar hvarflar aftur til eldskírnarinnar í lögreglunni á Húsavík fyrir rúmum 30 árum þar sem hún varð fyrst kvenna til að fara með lögregluvald.

„Mér fannst ég þroskast mjög mikið á þessum þremur sumrum, ég sá mjög mikið, og það var ekki allt fallegt, en þessi reynsla hefur verið mér mjög gott veganesti,“ segir Halla.

Háskólastigið gæfuspor

Nú er langt um liðið og þú ert lögreglustjóri. Hvað finnst þér um þessi ummæli frá 1991 í dag, að konur eigi ekki að vera í lögreglunni. Eru þessi viðhorf enn við lýði?

Halla hugsar sig um í stutta stund. „Nei, ég held að þetta tilheyri bara gömlum tíma, okkur hefur farið mjög mikið fram held ég,“ svarar Halla og blaðamaður notar tækifærið fyrst verið er að ræða mun gamals tíma og nýs og spyr lögreglustjórann út í færslu lögreglunáms úr gamla lögregluskólanum upp á háskólastig. Telur Halla þar hafa verið gengið til góðs?

„Ég held að það hafi verið mjög góð þróun en um leið verð ég að segja að það var farið mjög bratt í þetta og enginn háskóli var búinn að búa sig undir þetta,“ svarar hún að bragði, „þarna voru ákveðnir vaxtarverkir en ég tel þetta hafa verið af hinu góða. Allt nám þarf að þróast og maður þarf að vita hverju maður vill ná fram með því. En mig langar að benda sérstaklega á að þegar námið fór á háskólastig fjölgaði konum í lögreglunni mikið og ég held að það sé mjög verðmætt fyrir okkur,“ segir Halla af sannfæringarkrafti.

Áhersla á ofbeldisbrot

Aðspurð kveður hún þá starfandi lögregluþjóna, sem lokið hafa háskólanáminu, ánægða þótt vissulega hafi þeir ekki samanburð við gamla lögreglunámið sem rótgrónir lögreglumenn fengu að reyna. „Auðvitað eru þarna mismunandi sjónarmið, sumir vildu halda í gamla lögregluskólann og ég skil það vel, en ég held að nú orðið ríki almenn ánægja með háskólanámið. Mér persónulega finnst þessi skipti hafa gengið ágætlega,“ segir Halla.

Við færum talið að því sem nú er efst á baugi hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sem nýlega hefur fengið auknar fjárveitingar fyrir atbeina dómsmálaráðuneytisins til að sinna ýmsum málaflokkum þar sem mál hafa hrannast upp vegna manneklu og álags, líklega algengustu fylgifiska löggæslu um gervalla heimsbyggðina.

„Við leggjum alltaf mikla áherslu á ofbeldisbrot, kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi og líkamsárásir, þessi ofbeldisbrot sem valda mestum skaða,“ segir Halla, „við viljum vera meira áfallamiðuð, það er mikið álag að verða fyrir broti og það er líka mikið álag að vera með mál hjá okkur,“ bætir hún við alvörugefin, þarna sé málshraðinn mikilvægur fyrir alla og tekur lögreglustjórinn dæmi um kynferðisbrot.

„Þar er það fyrst og fremst brotaþolinn og hans fjölskylda og vinir sem verða fyrir áfalli. En það eru líka aðstandendur meints geranda oft og tíðum. Skaði af ofbeldi snertir svo marga. Stundum þegar maður mætir á morgnana og fer yfir málaskrána, öll þessi ofbeldisbrot, þá spyr maður sig hvernig standi á öllu þessu ofbeldi. Erum við með svona mikla ofbeldismenningu?“ spyr Halla og segir í framhaldinu að hvergi megi slá slöku við á þessum vettvangi.

Flóknari mál og rannsóknir

Nú orðið sé þekking og vitneskja um hve mikið áfall ofbeldisbrot geti haft í för með sér orðin mun víðtækari en fyrir nokkrum áratugum, áföll vegna ofbeldis berist jafnvel á milli kynslóða. „Forvarnir gegn ofbeldisglæpum eru gríðarlega mikilvægar og svo getum við skoðað skipulagða glæpastarfsemi líka, málaflokk sem við höfum unnið gríðarlega mikið að og er mjög ólíkur öðrum málaflokkum, þarna er oftar verið að rannsaka starfsemi frekar en einstök mál,“ segir lögreglustjóri af málaflokki sem mikið hefur verið í umræðunni síðustu misseri.

„Þetta eru miklu flóknari mál og allt öðruvísi rannsóknir en mörg önnur lögreglumál, nú er verið að velta því upp að skipulögð brotastarfsemi geti haft áhrif á lýðræðið sem er auðvitað mjög alvarlegt. Lögreglan stendur frammi fyrir ótrúlega mörgum áskorunum og ekki bara lögreglan heldur við sem þjóðfélag og réttarríki,“ segir Halla blákalt. Standa þurfi vörð um mannréttindi og grunngildi samfélagsins sem séu brothættari en margur haldi.

Blaðamaður rifjar upp nýlegt viðtal sitt við Margréti Kristínu Pálsdóttur, sem var staðgengill Höllu fyrr í sumar, en Margrét ræddi við mbl.is um áberandi fjölgun manndrápsmála á Íslandi, landi þar sem eitt manndráp á ári um það bil þótti hálfgerð þumalputtaregla þótt óhugnanleg sé. Hvað sýnist Höllu um ískyggilega þróun síðustu misseri?

„Þetta hefur verið óvenjulega mikið og við höfum áhyggjur af þessu. Þarna hafa oft ungir gerendur komið við sögu og við höfum haft miklar áhyggjur af ofbeldismenningu ungmenna og þessum hnífaburði,“ svarar lögreglustjóri, „við spyrjum okkur hver ástæðan sé, hvað það sé í samfélaginu sem valdi þessari þróun. Og auðvitað beinast spjótin fljótt að samfélagsmiðlum, kvikmyndum, þáttum og einhverju efni á netinu, ofbeldi er rauði þráðurinn í þessu afþreyingarefni svo við erum í raun að keppa við afþreyingariðnað sem veltir billjónum og það er mjög verðugt verkefni að takast á við,“ segir Halla.

Hvað er ofbeldi?

Hún segir frá könnunum meðal ungmenna sem leitt hafi í ljós að ungt fólk skilgreini ofbeldi nú til dags allt öðruvísi en eldra fólk í samfélaginu. „Ungt fólk er spurt hvort það hafi orðið fyrir ofbeldi og svarið er nei, það hafi ekki gerst. En svo er spurt „hefurðu verið barinn eða kýldur?“ og þá er svarið kannski já. Þau skilgreina ofbeldi öðruvísi en við og það eru kannski áhrif frá þessum miðlum,“ segir Halla hugsi.

Í framhaldinu spyr hún hver kveikjan að hnífaburði ungs fólks sé, áhrif frá samfélagsmiðlum, er töff að ganga með hníf eða er þar á ferð ótti þeirra sem grunar að ganga eigi í skrokk á þeim? „Þú ætlar þér kannski ekki að nota hníf en kemst svo kannski í aðstæður sem þú ræður ekki við. Það er dauðans alvara og afleiðingarnar geta orðið svo miklar – enginn kemst heill frá slíku atviki,“ segir lögreglustjórinn.

Ákall sveitarfélaga

Hún segir nauðsynlegt að taka betur utan um ungmenni og sinna forvörnum. „Við höfum útivistartíma og biðjum krakkana að tala ekki við ókunnuga en um leið og þeir fara inn í herbergi með símann eða spjaldtölvuna, þar sem við höldum að þau séu örugg, hafa þau allan heiminn í höndum sér og geta auðveldlega komist í samband við miklu hættulegri aðila. Þá er öryggiskenndin reist á fölskum forsendum. Ég held að margir foreldrar viti ekkert hvað börnin þeirra eru að gera á netinu,“ heldur Halla áfram.

Sinnir lögreglan samskiptum við ungmenni vel gegnum félagsmiðstöðvar og skóla svo eitthvað sé nefnt?

Halla svarar játandi og kveður lögregluna hafa sinnt samfélagslöggæslu, henni sinni nú lögreglumenn í tveimur og hálfu stöðugildi. „Við höfum verið að fara í skóla og tala við krakkana, vinna traust ungs fólks, og þarna er mikið ákall frá sveitarfélögunum sem við reynum að sinna sem er mjög mikilvæg vinna,“ segir hún.

Þekki sína lögregluþjóna

Umræðuefni lögreglunnar í þessari vinnu snúist nú um töluvert aðra hluti en að ganga með endurskinsmerki og líta til beggja handa áður en gengið er yfir götuna, svo sem margir lesendur minnast ef til vill frá lögregluheimsóknum í skóla á sínum barnaskólaárum.

„Við höfum verið að fræða börnin um netið og hegðun á netinu, hvað þú sendir frá þér og hverju þú tekur við. Eins fræðum við um hvað sé ofbeldi og hvert börn geti leitað eftir aðstoð. Líka er mikilvægt að vera með krökkunum og þekkja þá – það hefur orðið til þess að mál hafa leyst og krakkarnir þekkja lögregluþjónana í sínu hverfi og geta farið til þeirra á hverfisstöðvarnar, eða hitt þá úti þar sem þeir eru sýnilegir og þetta er bara mjög mikilvægt,“ segir Halla.

Við vendum okkar kvæði í kross og snúum talinu að mönnunarmálum lögreglu. Er manneklan þar, sem löngum hefur verið til umræðu, viðvarandi?

„Já, hún er það. Auðvitað var verið að fjölga núna, sem var mjög nauðsynlegt, við fengum fjölgun í rannsókn kynferðisbrotamála og skipulagðrar glæpastarfsemi og í almennri löggæslu. Okkur hefur farið mjög mikið fram og við viljum gera meira og höfum gert meira, en miðað við það fjármagn sem við höfum eru skorður settar við það. Á höfuðborgarsvæðinu vantar okkur mannskap í almenna löggæslu og um leið og þar fjölgar vantar fleiri ákærendur og fleiri í stoðþjónustunni okkar, svo sem þjónustudeild, öll keðjan þarf að virka,“ segir Halla.

Kveðst hún bjartsýn á að stjórnvöld haldi áfram að veita aukið fé til löggæslunnar en nefnir aðspurð þá sláandi tölu að tvö hundruð lögreglumenn vanti til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu einu. Kjaramál séu hins vegar í betra horfi en oft áður, nú sé til dæmis nýlega búið að semja við lögreglumenn, nokkuð sem gjarnan hafi dregist úr hömlu, þótt núverandi samningur sé reyndar aðeins til skamms tíma.

Spurð út í stjórnunarstíl sinn segir Halla mestu skipta að stjórnun sé hagað þannig að þeir sem eru að vinna geti sinnt vinnu sinni fagmannlega og vel. „Það er mikilvægt að starfsfólkinu sé treyst, það fái að njóta sín í starfinu og um leið fái það að njóta sinna góðu verka,“ segir lögreglustjóri.

Líði vel í vinnunni

Gangi starfsfólkinu vel í sínu starfi gangi embættinu sjálfu vel og það þjóni almenningi á þann hátt sem því sé ætlað. „Svo er auðvitað bara mikilvægt að geta hlustað á starfsfólkið og hrósa því þegar við á, maður er auðvitað aldrei nógu duglegur við það,“ segir Halla glettin. Hún segir öllu skipta að fólki líði vel í vinnunni og haldið sé utan um það. Hins vegar viti hún ekkert hvað mannskapnum finnist um hana játar hún aðspurð og getur ekki varist hlátri. „En mér finnst ég fá mjög jákvætt viðhorf alls staðar þegar ég fer um embættið og heilsa upp á fólk, ég á í mjög góðu samstarfi við mitt fólk.“

Lokaspurning varðandi löggæslumál snýr að því hvernig lögreglustjórinn sjái framtíð löggæslu á höfuðborgarsvæðinu fyrir sér.

„Ég er viss um að þar á eftir að verða mikil breyting. Við erum alltaf að breytast sem þjóðfélag og lögreglan þarf að breytast í takt við þjóðfélagið,“ segir Halla. „Það kemur ekkert í staðinn fyrir lögreglumanninn, hann þarf alltaf að fara á vettvang og rannsaka. En ég held að við eigum eftir að tæknivæðast meira eins og allir, við eigum eftir að nota gervigreind meira og beita greiningum og stafrænni málsmeðferð mun meira. Ég er mjög bjartsýn á framtíðina og að tæknin muni fleyta okkur fram,“ spáir lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu í framtíðina.

Lesendum, sem eru áhugasamir um laxveiði- og útivistaráhuga lögreglustjórans auk ætternis og framtíðaráforma, er bent á óstytta útgáfu þessa viðtals á lýðnetinu.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson