Spennandi Dóra og döðlurnar hafa komið fram á ýmsum viðburðum og verða meðal annars með tónleika á Menningarnótt.
Spennandi Dóra og döðlurnar hafa komið fram á ýmsum viðburðum og verða meðal annars með tónleika á Menningarnótt.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Okkur langar rosalega að keyra aftur upp þessa stemningu á Íslandi sem var þegar Stuðmenn og Grýlurnar og allt það var,“ segir Bára Katrín Jóhannsdóttir, ein af tónlistarkonunum sem skipa hljómsveitina Dóru og döðlurnar

Eva Sóldís Bragadóttir

eva@mbl.is

„Okkur langar rosalega að keyra aftur upp þessa stemningu á Íslandi sem var þegar Stuðmenn og Grýlurnar og allt það var,“ segir Bára Katrín Jóhannsdóttir, ein af tónlistarkonunum sem skipa hljómsveitina Dóru og döðlurnar.

„Það var endalaust af hljómsveitum alls staðar en nú er bara svolítið einn og einn artisti, okkur langar svo að hafa meiri menningu fyrir hljómsveitum,“ bætir hún við.

Dóru og döðlurnar skipa sex metnaðarfullar stelpur á menntaskóla- og háskólaaldri, en hljómsveitin vakti nokkra athygli þegar hún keppti á Músíktilraunum fyrr í ár. Markaði þátttakan tímamót á tónlistarferli stelpnanna.

Fyrsta giggið í fermingu

Þær Bára, Dóra Bjarkadóttir og Emma Davidsdóttir heimsóttu Þór Bæring og Bolla Má Bjarnason í morgunþætti þeirra, Ísland vaknar, á K100 í gær. Segjast þær hafa unnið saman í fimm ár, en fyrsti lifandi tónlistarflutningur hljómsveitarinnar var að þeirra sögn í fermingu Báru. Greina þær frá skemmtilegum misskilningi sem varð til þess að hinar stelpurnar í sveitinni mættu í veislu Báru án þess að hún hefði nokkuð um það að segja. Að hennar sögn gekk flutningur þeirra mjög vel þótt þær hafi ekki skipulagt hann sérstaklega.

„Síðan bara byrjaði þetta og við raunar fíluðum virkilega að spila saman,“ segir hún.

Gáfust ekki upp

Dóra og döðlurnar gáfu út nýtt lag á dögunum sem ber heitið Gatnamót. Segja þær lagið eiga sér langa sögu. Nefna þær að það hafi orðið til fyrir tveimur árum, þegar þær ákváðu að senda það inn í Söngvakeppnina árið 2021.

„Við ætluðum bókstaflega að vinna Eurovision og bara vinna heiminn en svo komumst við ekki inn,“ segir Dóra kímin. Bætir hún við að þær hafi ekki verið mjög sáttar með það en ákveðið að herða upp hugann og senda lagið inn í Músíktilraunir. Segir hún lagið ekki heldur hafa slegið í gegn þar og þær því ætlað að gefast upp á því.

„Svo líður þarna hálft ár eða eitthvað og við tökum það á þrettándabrennu,“ segir hún og lýsir því að þar hafi tónlistarmaðurinn Friðrik Dór hrósað þeim og það virkað sem góð hvatning fyrir hljómsveitina.

„Þannig að við hentum okkur aftur í Músíktilraunir með sama lag,“ segir Bára og bætir við að þær hafi fyrst gert breytingar á laginu.

Borgar sig að reyna aftur

Segjast stelpurnar standa í þakkarskuld við Friðrik Dór, því þegar þær tóku þátt í Músíktilraunum í þetta annað skipti lentu þær í þriðja sæti og fengu höfundaverðlaun tónskálda og textahöfunda.

Spurðar um umfjöllunarefni lagsins segir Bára Gatnamót mjög dæmigert lag um sambandsslit.

„Ef þú ímyndar þér unglingsstelpu í öngum sínum uppi í herbergi að grenja, þá er það rosalega mikið þannig,“ segir hún og hlær.

Tekur Dóra undir með henni og bætir við að lagið fjalli um óvissu þegar taka á næstu skref.

Bára tekur fram að þótt lagið fjalli um erfiðar tilfinningar eins og biturð, reiði og sorg þá sé það ekki niðurdrepandi.

„Lagið er rosalega skemmtilegt, ég lofa því,“ segir hún og bætir við að lagið sé ekki píanóballaða, heldur sé spilað á rafmagnsgítar í því.

Spennandi tímar fram undan

Að sögn stelpnanna munu þær næst spila á Menningarnótt, en þær koma þá fram á Óðinstorgi. Segir Bára þær ætla að flytja þau þrjú lög sem þær hafa nú þegar gefið út og svo nokkur óútgefin af væntanlegri plötu.

„Við erum að vonast eftir því að gefa út níu, kannski tíu, laga plötu eftir ár og gera það í kringum útskriftina úr framhaldsskóla,“ segir hún, en allar stelpurnar nema ein eru enn í framhaldsskóla. Segir hún þær vilja loka þessum stóra kafla í lífi sínu með plötunni þar sem lögin fjalla mikið um þessi ár.

Með einstök markmið

Bára segir helsta draum sveitarinnar að spila á Græna hattinum.

„Þetta byrjaði sem algjört grín þegar við vorum fjórtán ára,“ segir hún og lýsir því að þær hafi þá hugsað: „Það stærsta sem við munum gera er að spila á Græna hattinum og svo Wembley.“

Segir hún þær hafa talið það eðlilegt og hlær að eigin barnaskap.

„En síðan leið okkur svolítið eins og við hefðum klárað þennan draum í fyrra,“ segir hún, en Dóra og döðlurnar voru þá fengnar til að spila á Græna hattinum. Tekur Bára þó fram að það hafi verið til að hita upp fyrir aðra hljómsveit og þær hafi þá spilað á fimmtudagskvöldi. Segir hún drauminn ekki rætast til fulls fyrr en þær troða upp sem aðalatriðið á Græna hattinum á laugardagskvöldi.