Gísli Páll Pálsson
Gísli Páll Pálsson
Margir hrópuðu upp yfir sig, höfðu aldrei upplifað annað eins á ævinni, þetta væri það magnaðasta og fallegasta sem þeir hefðu séð.

Gísli Páll Pálsson

Ég tók eldgosavakt um daginn sem björgunarsveitarmaður. Á sexhjóli. Var svo heppinn að vera staðsettur við Litla-Hrút, rétt vestan við gosgíginn sem þeytir upp úr sér hraunslettum í gríð og erg. Mikið sjónarspil. Við vorum tveir björgunarsveitarmenn saman, tókum á móti ferðamönnum þar sem þeir komu að gosinu, leiðbeindum með hættur og gönguleiðir og báðum þá um að fara varlega. Það var sérdeilis gaman að upplifa viðbrögð þeirra þegar þeir komu yfir ásinn og sáu hraunið spýtast tugi metra upp í loftið. Margir hrópuðu upp yfir sig, höfðu aldrei upplifað annað eins á ævinni, þetta væri það magnaðasta og fallegasta sem þeir hefðu séð. Einstaka felldi tár í geðshræringu.

Við erum heppin að þetta gos, hingað til, hefur ekki valdið slysum á fólki eða tjóni á mannvirkjum. Gönguleiðin að Litla-Hrút er löng og strembin og við þurftum þennan dag að keyra nokkra ferðamenn á björgunartækjum okkar niður á bílastæði, sem höfðu orðið fyrir hnjaski á fæti, ásamt því að nokkrir hælsærisplástrar voru límdir á fætur. Fáeinir voru vatnslausir og fengu áfyllingu á brúsann hjá okkur. Margir spurðu ýmissa spurninga og fengu svör og leiðbeiningar frá okkur.

Allir sem ég hitti þennan dag voru í einhvers konar alsælu. Það að fá að upplifa og sjá eldgos svo nálægt sem raun ber vitni, er að mínu mati ein besta landkynning sem hægt er að hugsa sér. Við þurfum að gæta þess að sinna öryggisgæslu og innviðauppbyggingu á svæðinu með skynsömum hætti og eftir því sem við á. Þannig tryggjum við öryggi allra þeirra alsælu ferðamanna sem koma til með að heimsækja þetta magnaða svæði á næstunni.

Höfundur er björgunarsveitarmaður.