Teitur Björn Einarsson
Teitur Björn Einarsson
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Bréf umboðsmanns til matvælaráðherra er afar þýðingarmikið innlegg í þetta mál og ber með sér að Umboðsmaður telur þörf á frekari skýringum á veigamiklum þáttum í stjórnsýslu ráðherrans í þessu hvalveiðimáli,“ segir Teitur Björn Einarsson, alþingismaður og meðlimur í atvinnuveganefnd Alþingis, en hann var spurður álits á fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um bann það sem hún lagði við hvalveiðum í sumar.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Bréf umboðsmanns til matvælaráðherra er afar þýðingarmikið innlegg í þetta mál og ber með sér að Umboðsmaður telur þörf á frekari skýringum á veigamiklum þáttum í stjórnsýslu ráðherrans í þessu hvalveiðimáli,“ segir Teitur Björn Einarsson, alþingismaður og meðlimur í atvinnuveganefnd Alþingis, en hann var spurður álits á fyrirspurn Umboðsmanns Alþingis til Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um bann það sem hún lagði við hvalveiðum í sumar.

„Ég tek eftir því að umboðsmaður spyr ráðherra um atriði sem ég hef líka spurt um en ekki fengið svör við, en það snýr að réttmætum væntingum þeirra sem hlut eiga að þessu máli, bæði fyrirtækja og starfsmanna. Ráðherrann er krafinn svara um það hvaða mat á hagsmunum hafi farið fram áður en reglugerðin var sett, en hvorki ég né aðrir höfum fengið gögn sem varpa ljósi á þetta,“ segir Teitur Björn.

„Það er augljóst að ákvörðun um hvalveiðibann var tekin á grundvelli ófullnægjandi gagna og lögfræðilegrar athugunar á heimildum ráðherra í þessu efni. Þegar litið er á spurningar umboðsmanns, þá ber allt að sama brunni. Ráðherrann er búinn að sigla þessu máli upp í brimgarð og er að valda miklu tjóni með ólögmætri reglugerðarsetningu og gerræðislegri stjórnsýslu sem hefur áhrif á fjölda fólks og gríðarlega hagsmuni þeirra sem hlut eiga að máli og mögulega skapað ríkinu skapabótaskyldu vegna þessa þegar fram í sækir,“ segir Teitur Björn.

„Við sjálfstæðismenn höfum haldið því á lofti frá því þetta mál kom upp, að það eina sem ráðherrann getur gert í stöðunni er að draga þessa ákvörðun til baka, svo veiðar geti hafist tafarlaust og forðast megi frekara tjón en orðið er. Nóg er nú tjónið samt sem ráðherrann hefur valdið. Orðspor ráðherrans hefur einnig beðið hnekki og því miður hefur hún líka skaðað ríkisstjórnarsamstarfið með þessari vanhugsuðu ákvörðun sinni,“ segir Teitur Björn.

Ekki náðist í matvælaráðherra við vinnslu fréttarinnar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson