Sauðfé Verð á dilkakjöti hefur hækkað um 17% á milli ára.
Sauðfé Verð á dilkakjöti hefur hækkað um 17% á milli ára. — Morgunblaðið/Líney Sigurðardóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sláturleyfishafar hafa nú birt verðskrár sínar fyrir sauðfjárslátrun í haust. Samkvæmt útreikningum Bændasamtaka Íslands (BÍ) hækkar verð á dilkakjöti að meðaltali um 17% á milli ára. Árið 2022 var reiknað afurðaverð fyrir dilkakjöt 748 kr./kg en er nú 876 kr./kg

Magnús Geir Kjartansson

mgk@mbl.is

Sláturleyfishafar hafa nú birt verðskrár sínar fyrir sauðfjárslátrun í haust. Samkvæmt útreikningum Bændasamtaka Íslands (BÍ) hækkar verð á dilkakjöti að meðaltali um 17% á milli ára. Árið 2022 var reiknað afurðaverð fyrir dilkakjöt 748 kr./kg en er nú 876 kr./kg. Kílóverð á kjöti af fullorðnu hækkar aðeins um 3% á milli ára. Ekki hefur verið birt afurðaverð hjá Fjallalambi og Sláturfélagi Vopnafjarðar og miða útreikningar BÍ við afurðaverð þessara sláturleyfishafa árið 2022.

Tímasetning verðskráa hefur vakið athygli en hún þykir vera heldur snemma á ferðinni í ár. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, sem hækkaði afurðaverð sitt til bænda um 19% prósent, segir ákvörðun verðlags taka mið af hagsmunum bænda en þó sé einnig litið til markaðsstöðu.

„Afurðaverð hefur oft ekki verið birt fyrr en í byrjun ágúst, og í einstaka tilfellum jafnvel seinna en það. Framleiðsla á lambakjöti hefur dregist talsvert saman á síðustu árum, sem hefur leitt til þess að framboð á innanlandsmarkaði er mun nær því að uppfylla eftirspurn hér á landi. Allt á þetta sinn þátt í því að minnka erlend markaðsáhrif á þann íslenska, með þeim afleiðingum að menn treysti sér til að ákveða verðlagningu fyrr,“ segir Ágúst.

Bændur fagna stundvísi

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir bændur sátta við snemmbúna verðskrá. Nokkur ánægja sé með verðlagninguna þar sem hún hjálpi til við að leiðrétta hlut bænda. Þó ríki enn togstreita á milli manna um verðlagið, sem skiptar skoðanir eru um.

„Við fögnum því mjög að menn skuli vera búnir að gefa út verðskrána. Hún hefur ekki alltaf verið svona snemma á ferðinni en árið 2021 voru menn t.a.m. byrjaðir að leggja inn hverjir á aðra, svo að dæmi sé tekið frá fyrri árum,“ segir Gunnar.

Höf.: Magnús Geir Kjartansson